Söfnun Skátarnir hafa safnað flöskum og dósum af kappi frá árinu 1989.
Söfnun Skátarnir hafa safnað flöskum og dósum af kappi frá árinu 1989.
Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.is Íslenska skátahreyfingin hefur verið starfrækt í meira en heila öld en fyrir rúmu ári fagnaði hreyfingin aldarafmæli skátastarfs á Íslandi.

Vilhjálmur A. Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

Íslenska skátahreyfingin hefur verið starfrækt í meira en heila öld en fyrir rúmu ári fagnaði hreyfingin aldarafmæli skátastarfs á Íslandi. Til að standa undir starfi skátahreyfingarinnar og bæta og styrkja starfið hafa skátar leitað til almennings með ýmsum hætti en Helgi Tómasson sem gegndi lengi stöðu yfirlæknis á Kleppi stóð fyrir einni fyrstu söfnun skáta hér á landi haustið 1913 en fyrir ágóða hlutveltunnar var keypt tromma og sjö lúðrar frá Englandi.

Skátahreyfingin er orðin töluvert stærri í dag og aðferðirnar aðrar að sækja styrki og fjármagn til að reka hreyfinguna. Nú treystir skátahreyfingin m.a. á dósa- og flöskusöfnun en margir muna eftir appelsínugulu söfnunarkúlunum sem voru vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið. „Við höfum verið að safna flöskum og dósum frá því að endurgjaldið var tekið upp árið 1989 en þessi söfnun stendur undir töluverðum hluta af tekjum hreyfingarinnar,“ segir Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta.

Lífæð skátahreyfingarinnar

Þrátt fyrir að appelsínugulu söfnunakúlurnar séu horfnar er söfnun skáta alls ekki í neinni lægð. „Það er reyndar ein appelsínugul söfnunarkúla enn í notkun og hún er á Akureyri en annars höfum við skipt þeim út enda voru þær farnar að skemmast og voru dýrar í rekstri. Í dag erum við með 60 söfnunargáma en við bættum nýlega við 30 og stefnum á að verða með 120 söfnunargáma,“ segir Hermann.

Fjármagnið sem fæst úr dósa- og flöskusöfnuninni fer að mestu í innra starf skátanna þ.e. að bæta og efla fræðslustarf hreyfingarinnar. „Við erum með um 2.500 skráð börn og unglinga í starfinu okkar og síðan bætast við um 2.500 til viðbótar sem mæta í sumarnámskeiðin okkar og sumarbúðir. Þess vegna teljum við mikilvægt að búa til öfluga skátaforingja og mennta þá og þjálfa. Söfnunin stendur fyrir þeirri þjálfun og einnig viðburðum á vegum skátanna.“

Grænir skátar

Skátahreyfingin hefur ætíð reynt að vera öðrum til fyrirmyndar í framkomu og umgengni og því er verkefnið Grænir skátar öðrum góð fyrirmynd. „Þegar söfnunin hófst árið 1989 var það gert með þeim formerkjum að hreinsa til og stuðla að endurvinnslu,“ segir Hermann en árið í ár er það besta í söfnun skátanna frá upphafi. „Árið sem er að líða er metár hjá okkur og við vonum að hægt verði að gera enn betur á næsta ári. Það er auðvitað ekki hægt með öðrum hætti en að fólk sé duglegt að færa okkur dósir og flöskur og skátarnir þakka fyrir stuðninginn á árinu og velvilja þeirra fjölmörgu sem gefa skilagjaldsskyldar umbúðir til stuðnings skátastarfinu.“