[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2014 Ívar Benediktsson iben@mbl.is „Á Íslandi eru alltaf gerðar kröfur til allra sem keppa fyrir hönd þjóðarinnar á erlendum vettvangi. Ég geri alltaf þá kröfu til íslenskra keppenda í Evróvisjón-söngkeppninni að þeir vinni.

EM 2014

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Á Íslandi eru alltaf gerðar kröfur til allra sem keppa fyrir hönd þjóðarinnar á erlendum vettvangi. Ég geri alltaf þá kröfu til íslenskra keppenda í Evróvisjón-söngkeppninni að þeir vinni. Samt vinnum við aldrei,“ segir Patrekur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Austurríkis í handknattleik karla, spurður um hvaða væntingar megi gera til íslenska landsliðsins í handknattleik karla á Evrópumeistaramótinu sem hefst í Danmörku á sunnudaginn. Patrekur verður þar með landslið sitt. Það verður reyndar ekki með íslenska landsliðinu í riðli en þjóðirnar mætast í Danmörku, takist þeim báðum að komast í milliriðil.

Patrekur sá íslenska landsliðið á æfingamóti í Þýskalandi um síðustu helgi og þurfti meira að segja að glíma við það. Hann segir að íslenska landsliðið hafi sýnt margar hliðar í mótinu, bæði góðar og slæmar.

Fann að Ísland var sterkara

„Í fyrsta leiknum við Rússa var varnarleikurinn allt í lagi og mikið skorað úr annari bylgjunni í sóknarleiknum. Gegn okkur var leikurinn jafn allt þar til tíu mínútur voru eftir, þá skildi leiðir. Þrátt fyrir að leikurinn væri jafn lengi vel þá fann maður að íslenska liðið var sterkara.

Vissulega var staðan slæm á tímabili fyrir íslenska liðið gegn Þýskalandi en menn klóruðu í bakkann. Þýska liðið hitti á góðan leik og lék mikið maður á mann sem íslenska vörnin réð illa við,“ segir Patrekur sem varar við að menn dragi of miklar ályktanir af undirbúningsleikjum þótt vissulega gefi þeir alltaf einhverja mynd af gangi mála.

Segja ekki alltaf alla söguna

„Undirbúningsleikirnir segja ekki alltaf alla söguna um hvernig liðum gengur þegar á hólminn verður komið. Ég hef oft nefnt sem dæmi eitt árið sem ég lék með Essen í Þýskalandi. Þá unnum við um 20 leiki í röð á undirbúningstímanum. Þegar deildakeppnin loksins hófst töpuðum við þremur fyrstu leikjunum,“ segir Patrekur.

„Í Þýskalandi gat Aron ekki stillt upp sínu sterkasta liði og hafði það ekki endilega heldur að markmiði. Frekar vildi hann sjá hvaða efni hann er með í höndunum og leita eftir svörum við spurningum og sjá í hvaða standi menn eru. Þannig á líka að nota undirbúningsleikina.“

Patrekur segir að þrátt fyrir að nokkuð sé um meiðsli í íslenska liðinu þá megi ekki gleyma því að margir leikmanna liðsins séu í fínu standi og jafnvel betra en stundum áður. Nefnir hann sem dæmi Kára Kristján Kristjánsson, Róbert Gunnarsson, Ásgeir Örn Hallgrímsson, Rúnar Kárason og Snorra Stein Guðjónsson. „Það er alltaf frábært flæði í sóknarleiknum þegar Snorri er með,“ segir Patrekur sem sjálfur var leikstjórnandi á sinni tíð sem handknattleiksmaður.

„Aron Pálmarsson á síðan eftir að koma inn í liðið af krafti og einnig Guðjón Valur Sigurðsson og Arnór Atlason og fleiri.“

Gekk best þegar væntingar voru minnstar

„Ég man eftir mörgum mótunum með íslenska landsliðinu. Stundum gekk okkur hvað best þegar væntingarnar voru minnstar og áhugi almennings ekki alveg í toppi.

Það þýðir ekkert að væla þótt eitthvað sé að. Staðan er einfaldlega eins og hún er. Ég vonast til þess að íslenska liðið komist áfram í milliriðil. Sömu væntingar og vonir hef ég til míns liðs [austurríska landsliðsins]. Fari svo þá mætast íslenska og austurríkska landsliðið í milliriðlakeppninni. Þá verður einn klukkutími þar sem slakað verður á vináttuböndum.“

Lítið að gera við misjöfnu formi og meiðslum

Spurður um hvaða kröfur er hægt að gera til íslenska landsliðsins á EM að þessu sinni segir Patrekur erfitt að segja til um það. Hér á landi séu alltaf gerðar kröfur og stundum sé boginn spenntur of hátt hjá almenningi.

„Það eru alltaf gerðar kröfur til íslenska landsliðsins. Við sem landsliðsþjálfarar erum svo háðir því hvernig leikmenn koma frá sínum félagsliðum. Aron getur lítið gert að því þegar menn eru í misjöfnu leikformi og glíma við meiðsli.

Viðureignir Íslendinga og Norðmanna hafa alltaf verið jafnar. Ungverjar unnu okkur síðasta á Ólympíuleikunum í London og eru því engin lömb að leika sér við. Spánverjar eru heimsmeistarar. Í ljósi þessara andstæðinga er ekki hægt að gera kröfur um að íslenska landsliðið komist áfram í milliriðil þótt menn stefni þangað,“ segir Patrekur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Austurríkis í handknattleik og fyrrverandi landsliðsmaður.