Hróbjartur Jónatansson
Hróbjartur Jónatansson
Eftir Hróbjart Jónatansson: "...ekki verður unað lengur við það að skipuleg brotastarfsemi gegn stjórnarskrárvörðum réttindum fái þrifist fyrir opnum tjöldum..."

Ólögmæt dreifing á höfundarréttarvörðu efni er sívaxandi brotastarfsemi í heiminum og fer Ísland ekki varhluta af. Á hverjum degi dreifir fólk sín í milli í gegnum skráarskiptasíðuna „deildu.net“ kvikmyndum, tónlist, leikjum og fleira efni af slíku tagi sem hefur það sammerkt að vera höfundarréttarvarið og vera dreift í óþökk rétthafa sem er að sjálfsögðu ólögmætt samkvæmt höfundalögum. Í lögum eru hugverkaréttindi viðurkennd sem hver önnur eignaréttindi og njóta því verndar sem slík í orði. Hins vegar skortir verulega á að hugverkaréttindi njóti hér raunverulegrar verndar á borði. Af einhverjum ástæðum hafa íslensk stjórnvöld sýnt af sér alvarlegt skeytingarleysi gagnvart nauðsyn þess að uppræta skipuleg lögbrot gegn hugverkaréttindum og þar með lágmarka það gríðarlega efnahagslega tjón sem höfundar og samfélagið verða fyrir vegna slíkra brota, þrátt fyrir að hafa gengist undir ýmsar þjóðréttarlegar skuldbindingar þar um. Er engu líkara en að yfirvöld átti sig ekki á því hversu mörg störf og gríðarlega háar skatttekjur tapast á hverju ári vegna þess að stór hluti notkunar á hugverkum lýtur ekki lögmálum viðskiptalífsins um kaup og sölu.

Það er augljóst að starfsemi skráarskiptasíðna á borð við „deildu.net“, sem hefur það að opinberu markmiði að dreifa höfundarvörðu efni með ólögmætum hætti er ekkert annað en skipuleg brotastarfsemi í lagalegum skilningi. Þeir sem stýra starfsemi þeirrar vefsíðu og þeir sem gera dreifinguna kleifa hagnast fjárhagslega í skjóli brotanna. En hvers vegna virðist vera svona erfitt að uppræta þessa umfangsmiklu brotastarfsemi? Ástæðan er a.m.k. tvíþætt: Í fyrsta lagi, virðist sem að brotum gegn hugverkaréttindum sé skipað í lágan forgangsflokk þegar kemur að rannsókn sakamála. Í febrúar 2012 kærðu helstu samtök höfundarrétthafa landsins forsvarsmenn netsíðunnar „deildu.net“ til lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Netsíðan er enn rekin óáreitt, á hverjum degi er gríðarlegu magni dreift milli manna af nýjum bíómyndum, tónlist, tölvuleikjum, tölvuforritum með tilheyrandi fjártjóni fyrir höfunda og aðra sem byggja starfsemi sína á hugverkaréttindum. Öðru máli gegnir um ýmsa aðra brotaflokka sem njóta meira vægis að því er virðist. Nýverið fréttist t.d. að lögreglan hefði að eigin frumkvæði eytt mannafla og fjármunum í að staðreyna hvort vændiskaup hefðu átt sér stað á svokölluðum kampavínsklúbbum borgarinnar og beitt þar umdeilanlegum tálbeituaðferðum. Bersýnilegt er skv. þessu að lögregla forgangsraðar verkefnum sínum, án þess að vitað sé þó hvert hún sækir lagalega heimild sína til þess. Eflaust eru hefðbundin viðfangsefni lögreglu, eins og innbrot, þjófnaðir og álíka brot álitin auðveldari viðfangs en brot á hugverkaréttindum sem eru oft flókin og tengjast tölvum og interneti. En í lagalegum skilningi er „hugverkaþjófnaður“ refsiverður og þolendur slíkra brota eiga sömu kröfu og aðrir þolendur lögbrota til þess að lögregluyfirvöld taki á málum. Er lögreglan með þessu að bregðast hlutverki sínu eins og það er raunar skilgreint í lögreglulögum, þ.e. m.a. að stemma stigu við afbrotum og vinna að uppljóstrun brota. Með sinnuleysi sínu hafa stjórnvöld ekki bara brotið gegn alþjóðlegum skuldbindingum sínum heldur í raun einnig skapað það andrúmsloft í þjóðfélaginu að hugverkastuldur sé léttvægari en þjófnaður almennt. Virðing almennings fyrir lögum og rétti minnkar þegar fólk getur átölulaust dreift afþreyingarefni með ólögmætum hætti.

Hin ástæðan fyrir því að „hugverkaþjófnaður“ viðgengst í stórum stíl hérlendis er sú að fjarskiptafyrirtækin í landinu hafa gríðarlegar tekjur af þessari brotastarfsemi en þær þúsundir aðila sem dreifa ólöglega sín í milli greiða há gjöld til fjárskiptafyrirtækjanna fyrir niðurhalið á efninu. Þeim er auðvitað fyllilega ljóst að um brotastarfsemi sé að ræða með fjárhagslegu tjóni fyrir höfunda en samfélagsleg ábyrgð þessara fyrirtækja nær ekki lengra en svo að þau reyna hvað þau geta til þess að hindra það að lokað verði á aðgengi netsíðna á borð við „deildu.net“. Á meðan brotastarfsemin viðgengst græða fjarskiptafyrirtækin. Má hér m.a. til hliðsjónar að því er varðar umfang brotastarfseminnar hafa í huga að daginn eftir að lögreglan fór í sameiginlega aðgerð í svonefndu DC++ máli, dróst heildarálag í íslenskri netumferð saman um tæp 40% á einum sólarhring sem rekja mátti að nær öllu leyti til umferðar einstaklinga.

Nú er svo komið að ekki verður unað lengur við það að skipuleg brotastarfsemi gegn stjórnarskrárvörðum réttindum fái þrifist fyrir opnum tjöldum, með tilheyrandi fjárhagslegu tjóni. Áframhaldandi skeytingarleysi yfirvalda gagnvart þessum alvarlegu brotum er ekki ásættanlegt og enn síður nú þegar fjárhagsleg nýting hugvits verður sífellt mikilvægari samfélaginu. Líklega er mesti stuðningur yfirvalda við hugverkaiðnaðinn í landinu fólginn í því að reyna að uppræta brot gegn hugverkarétti og tryggja að afraksturinn af honum lendi hjá þeim sem eiga réttinn. Allt samfélagið mun njóta góðs af því.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður.