Þjálfari Patrekur Jóhannesson stýrir Austurríkismönnum á EM í Danmörku.
Þjálfari Patrekur Jóhannesson stýrir Austurríkismönnum á EM í Danmörku. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Austurríki Ívar Benediktsson iben@mbl.

Austurríki

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Ég vonast til þess að við getum leikið svipaðan handknattleik og síðastliðið eitt og hálft ár síðan ég tók við þjálfun landsliðsins,“ segir Patrekur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Austurríkis, spurður að því með hvaða væntingar hann og austurríska landsliðið fari á Evrópumeistaramótið í Danmörku. Austurríkismenn verða í riðli með gestgjöfum Dana, Tékkum og Makedóníumönnum. Leikið verður í Herning. Þrjú lið úr þessum riðli mæta þremur liðum úr riðli Íslands í milliriðlakeppni mótsins.

„Tékkar eru sterkir og unnu til að mynda Ungverja um síðustu helgi. Makedóníumenn eru einnig öflugir. Að vísu eru einhverjir af þeirra helstu mönnum meiddir en það er eins og staðan er hjá fleiri landsliðum um þessar mundir. Danir eru með sterkasta liðið í riðlinum, á því leikur enginn vafi en við Íslendingar sögðum það líka um Frakka á HM 2007 þegar við unnum þá,“ segir Patrekur sem er hvergi banginn.

„Auk þess að leika vel er okkar markmið auðvitað að komast áfram í milliriðil. Það er raunhæft markmið og er það reyndar hjá öllum liðunum sem eru í okkar riðli,“ segir Patrekur.

„Austurríska landsliðið hefur ekki oft staðið í þessum sporum. Í raun er þetta í fyrsta skipti sem liðið tryggir sér keppnisrétt á EM í gegnum forkeppni. Í fyrsta skipti sem liðið var með á EM var fyrir fjórum árum þegar Austurríkismenn voru gestgjafar. Síðan náði liðið inn á HM 2011 eftir forkeppni. Austurríkismenn eru þar af leiðandi ekki með miklar væntingar fyrir mótið.“

Hluti af síðasta EM-hóp

Hluti af austurríska hópnum nú var í einnig í liðinu sem tók þátt í EM á heimavelli fyrir fjórum árum. Má þar nefna leikstjórnandann og fyrirliðann, Viktor Szilágyi, markvörðinn Nikola Marinovic, Roland Schlinger og Konrad Wilczynski, svo einhverjir séu nefndir.

„Eftir að ég tók við hef ég aðeins verið að endurnýja í liðinu og taka inn yngri leikmenn smátt og smátt. Kjarninn er hinsvegar eldri og reyndari leikmenn sem hafa reynslu frá EM 2010 og HM 2011. Mesti stórmótsskrekkurinn á að vera úr þeim,“ segir Patrekur.

Austurríska landsliðið sýndi það í undankeppni EM að það ber að taka alvarlega. Það gerði m.a. jafntefli við Serba í Belgrad og vann þá á heimavelli með þriggja marka mun. Þá vann austurríska liðið einnig Rússa og tryggði sér annað sæti í undanriðlinum, var stigi á undan Rússum. „Þegar við drógumst gegn Rússum, Serbum og Bosníumönnum í undankeppninni þá leist mér svo sem ekkert á blikuna. Við undirbjuggum okkar vel fyrir hvern leik og tryggðum okkur annað sæti í riðlinum á afar sannfærandi hátt.

Þegar okkur tekst að laða fram það besta í leik okkar erum við með fínt lið. Vissulega þurfum við eins og aðrir að treysta á þessi hefðbundnu atriði svo sem vörn og markvörslu.

En við mætum óhræddir til leiks í Danmörku. Ég reyni að minna menn á hið jákvæða. Aðalatriðið er að leikmenn séu í toppstandi líkamlega,“ segir Patrekur. „Ég finn að menn eru einbeittir á æfingum og klæjar virkilega í hendurnar að taka þátt. Við megum alls fara fram úr okkur né gera of lítið úr okkur. Meðalvegur er vandrataður.“

Sér möguleika gegn Tékkunum

„Við eigum Tékka í fyrsta leik 12. janúar, mætum Dönum tveimur dögum síðan og loks leikum við gegn Makedóníu 16. janúar. Leikjaplanið er fínt en einbeiting okkar er fyrst og fremst að leiknum við Tékka. Ég hef fengið mikið af myndefni af leikjum þeirra og hef legið yfir þeim síðustu vikur. Tékkar eru með hörkulið og vel spilandi en ég sé ákveðna möguleika gegn þeim einnig.“

Patrekur fer nú í fyrsta skipti á stórmót í handknattleik í hlutverki þjálfara en hann tók þátt í þremur Evrópumótum og fimm heimsmeistaramótum og tvennum Ólympíuleikum sem leikmaður íslenska landsliðsins. „Það var annað mál. Þá bar maður ábyrgð á sjálfum sér en nú ber maður ábyrgð á heilu liði sem er ný reynsla fyrir mig. Vonandi á maður eftir að fara á fleiri mót sem þjálfari,“ segir Patrekur Jóhannesson.