— Morgunblaðið/Eva Björk
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ívar Benediktsson iben@mbl.is Guðjón Valur Sigurðsson er sá íslenski handknattleiksmaður sem leikið hefur fleiri leiki en nokkur annar í lokakeppni Evrópumóts í handknattleik.

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Guðjón Valur Sigurðsson er sá íslenski handknattleiksmaður sem leikið hefur fleiri leiki en nokkur annar í lokakeppni Evrópumóts í handknattleik. Hann hefur leikið 41 leik, átta leikjum meira en Ólafur Stefánsson sem er í öðru sæti og fjórtán leikjum meira en Róbert Gunnarsson sem er sá þriðji leikjahæsti. Guðjón Valur hefur einnig tekið þátt í flestum Evrópumótum af íslenskum handknattleiksmönnum, alls sjö. Mótið sem nú hefst í Danmörku verður hans áttunda með íslenska landsliðinu.

Ofan á annað þá hefur Guðjón Valur leikið 41 leik í röð. Hann hefur ekki tapað úr leik síðan hann lék með fyrst gegn Rússum á EM í Króatíu, 23. janúar 2000. Það afrek að leika 41 leik í röð í lokakeppni EM er vafalaust met hjá handknattleiksmanni.

Auk þess er Guðjón Valur markahæstur Íslendinga í lokakeppni EM með 196 mörk, 13 fleiri en Ólafur Stefánsson sem er næstur á listanum.

Guðjón Valur skoraði ekki mark í tveimur fyrstu leikjum sínum, gegn Rússum og Dönum, á EM 2000. Hann skoraði sitt fyrsta mark gegn Slóvenum 27. janúar 2000. Alls skoraði Guðjón Valur fimm mörk í leiknum. Að tveimur fyrstu leikjunum undanskildum hefur Guðjón Valur skorað í öllum leikjum sínum á EM eftir það, að tveimur undanskildum, gegn Spáni, 24:24, á EM í Svíþjóð 2002 og átta árum síðar, gegn Króötum, einnig í jafnteflisleik, 26:26, í Austurríki.

Tvisvar hefur Guðjón Valur skorað 10 mörk eða meira í leik í lokakeppni EM; 10 mörk gegn Serbum/Svartfellingum á EM í Sviss 200, 36:31, og 11 mörk í sömu keppni gegn Rússum, 34:32.

iben@mbl.is

2014