[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Kennarasamband Íslands hefur þá stefnu í kjaramálum að laun tónlistarkennara, leikskólakennara, grunnskólakennara og framhaldsskólakennara skuli jöfnuð.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Kennarasamband Íslands hefur þá stefnu í kjaramálum að laun tónlistarkennara, leikskólakennara, grunnskólakennara og framhaldsskólakennara skuli jöfnuð. Langtímamarkmiðið er að ná jafnstöðu við laun háskólamenntaðra sérfræðinga. Framhaldsskólakennarar hafa nú hæstu grunnlaun og meðallaun kennara á þessum þremur skólastigum og borið saman við tónlistarkennara.

Spurður hvenær Kennarasamband Íslands vilji ná þessari jafnstöðu segir Þórður Hjaltested, formaður sambandsins, að horft sé til nálægrar framtíðar. Hann vilji hins vegar ekki ræða hvaða prósentuhækkanir kennarar muni fara fram á í komandi kjaraviðræðum við hið opinbera.

Rökin fyrir því að jafna launin séu þau að nú sé gerð krafa um fimm ára háskólanám á öllum þremur skólastigum, ásamt því sem margir tónlistarkennarar hafi hliðstæða menntun.

Hér til hliðar má sjá töflu þar sem annars vegar eru áætluð grunnlaun/dagvinnulaun og hins vegar meðallaun fyrir dagvinnu hjá leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólakennurum. Að sögn Þórðar hefur Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, vakið máls á því að leiðrétta þurfi laun þeirra um 17% til að ná jafnstöðu við laun hjá félagsmönnum í Bandalagi háskólamanna með svipaða menntun.

Þýddi 40.000 krónur á mánuði

Eins og lesa má út úr töflunni hér til hliðar þyrftu grunnlaun/dagvinnulaun kennara í tónlistarskólum að hækka um 29.000 krónur á mánuði til að ná jafnstöðu við laun framhaldsskólakennara og um 40.000 kr. séu meðallaun fyrir dagvinnu í hinum ólíku skólum borin saman.

Þar með er ekki öll sagan sögð því ef laun framhaldsskólakennara hækka um 17%, í takt við markmið formanns Félags framhaldsskólakennara, myndu grunnlaun/dagvinnulaun kennara í tónlistarskólum hækka um 83.400 á mánuði, eigi launin að vera jöfn. Tónlistarskólar, leikskólar og grunnskólar eru á forræði sveitarfélaga og myndi umrædd launahækkun í tónlistarskólum ein og sér kosta 648 milljónir á ári. Til samanburðar eru tónlistarkennarar um 500 en félagsmenn í Kennarasambandinu rúmlega 10.000.

Sé til einföldunar reiknað með að allir kennarar í hinum ólíku skólum séu á meðallaunum fyrir dagvinnu fela kröfur um sömu laun og hjá félagsmönnum BHM í sér að laun leikskólakennara hækka um 3,6 milljarða, laun grunnskólakennara um 6 milljarða og laun framhaldsskólakennara um 1,55 ma. á ári. Þar sem hluti kennarastéttarinnar eru nýliðar án starfsreynslu, og því á lægri launum, er þetta líklega talsvert ofmat. Tónlistarskólar, leikskólar og grunnskólar eru á vegum sveitarfélaga en framhaldsskólar á vegum ríkisins.

Háskólakennarar og prófessorar eru félagsmenn í BHM. Spurð út í launakröfur BHM í komandi kjarasamningum við opinbera vinnuveitendur segir Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM, að markmiðið sé „afgerandi launaleiðrétting“.

Að sögn Guðlaugar hefur umtalsverður launamunur milli félagsmanna BHM á opinberum markaði og samanburðahópa á almennum markaði viðgengist lengi, eins og sjá má á grafinu hér fyrir ofan. Munurinn minnkaði árið 2009 þegar laun í einkageiranum drógust saman í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008.

Bil sem verður að brúa

Guðlaug segir ekki koma til greina að gera kjarasamninga án „afgerandi leiðréttinga“. „Þolinmæði okkar markast af því hvaða skref eru stigin og hversu afgerandi þau eru. Loforð um að brúa þetta bil á milli félagsmanna BHM og sérfræðinga á almennum markaði í samanburðarhæfum hópum á löngum tíma, án nokkurra aðgerða í þá veru núna, gengur ekki. Við erum hins vegar tilbúin að ræða leiðir til að stíga afgerandi skref í þessu leiðréttingarferli. Við eigum nú í viðræðum við okkar viðsemjendur um umfang skrefanna og tímasetningar.“

Guðlaug ítrekar að opinberir starfsmenn í BHM beri skarðan hlut frá borði miðað við menntun og vísar máli sínu til stuðnings á Kjarakönnun BHM sem sýni meðal annars að grunnlaun lífeindafræðinga sem starfa hjá ríkinu hafi verið 350.000 í febrúar í fyrra, 435.000 hjá einkafyrirtækjum og 454.000 hjá sjálfseignarstofnunum. Þessar tölur vitni um að laun opinberra starfsmanna innan BHM hafi dregist aftur úr launum á einkamarkaði.

„Háskólamenntaðir hafa lengi búið við launamun milli almenns og opinbers markaðar. Launamyndun er ólík milli þessara markaða að því leyti að opinberir starfsmenn eru bundnir töxtum en starfsmenn á almennum markaði eru oftar á markaðslaunum, þ.e. utan við taxta,“ segir Guðlaug.

Hún bendir á að 2008-9 hafi laun háskólamenntaðra lækkað á almennum markaði. Við það hafi munur á launum hjá hinu opinbera og á einkamarkaði minnkað. Jafnframt hafi krónutöluhækkanir kjarasamninga hækkað laun ófaglærðra hlutfallslega meira en háskólafólks.

260 milljarðar
» Samkvæmt vef Hagstofu Íslands greiddi hið opinbera 250,7 milljarða í laun 2012.
» Þar af greiddi ríkissjóður 128,9 milljarða í laun, sveitarfélög 103,8 milljarða og 18 ma. runnu til almannatrygginga og kostar hvert prósent í launahækkunum því milljarða.