Allir þurfa að leggja sig fram svo árangur náist í að bæta hag landsmanna

Kjarasamningarnir sem náðust skömmu fyrir jól í samvinnu Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands og stjórnvalda geta skipt sköpum um þróun efnahagslífsins hér á landi á næstu misserum og árum. Þar með geta þeir haft mikið um það að segja hvernig kjör almennings þróast og hvort hann fái raunverulegar kjarabætur á næstunni eða lítið annað en krónutöluhækkanir og jafnvel kaupmáttarrýrnun.

Úrvinnsla þess sem samið var um í desember snýst um þetta og þess vegna er afar mikið í húfi að hún verði farsæl og að allir leggist á eitt um að efnahagslífið og kjör almennings þokist skref fyrir skref í rétta átt. Þetta kallar á þolinmæði og stefnufestu og stundum fórnir til skamms tíma, en til lengri tíma litið er hagur alls almennings best tryggður með því að stöðugleiki haldist samhliða batnandi kjörum. Í þessum efnum eins og ýmsum öðrum er sígandi lukka best.

Samtök atvinnulífsins hafa réttilega minnt félagsmenn sína á að ábyrgðin á að halda aftur af verðbólgunni sé einnig þeirra. Náðst hafi kjarasamningur sem samrýmist verðstöðugleika og gengisþróunin hafi verið með þeim hætti að hún styðji við stöðugt verðlag. „Fyrirtækin hafa því enga forsendu fyrir miklum verðhækkunum á þessum tímapunkti. Það er á ábyrgð fyrirtækjanna að við náum að fylgja þessum kjarasamningum eftir svo þeir skili raunverulegri kaupmáttaraukningu á samningstímanum. Það er afar mikilvægt að okkur takist vel upp við það,“ sagði Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Morgunblaðið.

Hið sama á við um álögur ríkis og sveitarfélaga, hækkunum á þeim þarf að stilla mjög í hóf og æskilegast væri ef þær gætu staðið í stað og helst lækkað. Dæmi um mögulega lækkun væri ef horfið væri frá óþörfum reglum ríkisins um íblöndunarefni í eldsneyti og það fyrirsjáanlega tekjutap sem þær fela í sér væri notað til að lækka allt of há eldsneytisgjöldin.

En ábyrgðin er einnig þeirra sem eru með opna kjarasamninga og eru að undirbúa samningaviðræður. Þeir hafa sumir talað með þeim hætti að ef gengið yrði að kröfum þeirra þyrfti ekki að ræða um mögulegan verðstöðugleika í landinu á næstunni, aðeins hversu mikill óstöðugleikinn yrði.

Mikilvægt er, á meðan stöðugleikanum er náð, að allir leggist á eitt. Takist það er tiltölulega stutt í að almenningur fari að finna fyrir auknum kaupmætti og bættum hag. Mistakist það getur þess verið langt að bíða að tækifæri bjóðist á nýjan leik.