[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
handbolti Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.

handbolti

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Leikstjórnandinn Gunnar Steinn Jónsson, leikmaður franska úrvalsdeildarliðsins Nantes, tekur þátt í sínu fyrsta stórmóti en hann slapp undan niðurskurðarhníf Arons Kristjánssonar landsliðsþjálfara þegar hann valdi 17 manna lokahóp sem leikur fyrir Íslands hönd á Evrópumótinu í Danmörku.

„Ég er auðvitað mjög stoltur og ánægður að fá að vera í þessum hópi. Það hefur alltaf verið draumurinn. Ég er ekki alveg búinn að ná þessu en þetta hlýtur að detta inn,“ sagði Gunnar Steinn við Morgunblaðið skömmu eftir að Aron landsliðsþjálfari hafði leyst frá skjóðunni og tilkynnt hvaða leikmenn skipa EM-hópinn.

Gunnar Steinn var sá síðasti sem var valinn í æfingahópinn fyrir EM en hann var kallaður inn vegna þeirra meiðsla sem hrjá marga leikmenn liðsins. Ólafur Gústafsson heltist til að mynda úr leik þar sem hann ristarbrotnaði og óvissa hefur ríkt um þátttöku Guðjóns Vals Sigurðssonar og Arnórs Atlasonar. Þeir eru hins vegar klárir í slaginn en Ólafur Bjarki Ragnarsson hefur ekki jafnað sig af nárameiðslum sem hann hlaut í Þýskalandi um síðustu helgi og er einn fjögurra úr æfingahópnum sem ekki fara til Danmerkur. Hinir þrír eru Árni Steinn Steinþórsson, Bjarki Már Elísson og Arnór Þór Gunnarsson.

Held að ég hafi náð að gera réttu hlutina

„Til að byrja með var ég kannski ólíklegastur til að verða valinn í lokahópinn þar sem ég var ekki valinn í upphaflegan æfingahóp. Það hefur hins vegar alltaf verið markmið mitt að komast í landsliðið. Ég held að ég hafi náð að gera alveg réttu hlutina. Ég hitti Aron landsliðsþjálfara fyrir jól og fór vel yfir öll myndbönd. Ég vissi að ég gæti ekki eytt neinum tíma í að læra kerfin og ég vildi því vera með allt á hreinu. Svo snýst þetta bara um að nýta þau litlu tækifæri sem gefast og þá fjölgar þeim,“ sagði Gunnar Steinn, sem lék sína fyrstu landsleiki á mótinu í Þýskalandi um síðustu helgi.

„Það var mjög gott að koma inn í hópinn enda allt mjög viðkunnanlegir drengir í liðinu. Ég fylltist miklu stolti að klæðast landsliðsbúningnum og þó svo að ég hafi ekki spilað margar mínútur held ég að mér hafi tekist að nýta þær ágætlega,“ sagði Gunnar Steinn, sem er á öðru tímabili sínu með Nantes en þar áður lék hann með Drott í Svíþjóð og liði HK hér heima.

Spurður út í væntingar sínar til íslenska liðsins á EM segir Gunnar Steinn: „Kannski hafa þessi meiðsli bara breikkað hópinn. Ég lít svo á að fyrstu tveir leikirnir á móti Noregi og Ungverjalandi séu lykilleikir og ég held að þeir verði mjög jafnir. Fyrsta markmiðið er að komast í milliriðilinn og síðan sjáum við hvað setur. Ég veit að það býr mikið í okkar liði,“ segir Gunnar Steinn.

Má ekki vera of glaður yfir að vera valinn

Hann segist hafa bætt sig mikið sem handboltamaður frá því hann fór út í atvinnumennsku. „Ég tel að ég hafi bætt mig mjög mikið frá því ég hélt utan. Það hefur verið stígandi í mínum leik og mér finnst ég passa vel inn í spil landsliðsins. Maður má ekki vera of glaður yfir því að vera valinn í landsliðið. Maður verður að geta hjálpað liðinu eitthvað.“