Mannfall Syrgjendur fylgja mönnum sem féllu í átökum við íslamista til grafar í borginni Aleppo á miðvikudag.
Mannfall Syrgjendur fylgja mönnum sem féllu í átökum við íslamista til grafar í borginni Aleppo á miðvikudag. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Íslamistar héldu áfram að berjast við aðra uppreisnarmenn í Sýrlandi í gær á sama tíma og fulltrúar mismunandi hópa stjórnarandstæðinga komu saman á Spáni til þess að reyna að stilla saman strengi sína fyrir friðarviðræður sem eiga að hefjast í Genf síðar í þessum mánuði.

Uppreisnarmenn sem berjast gegn stjórn Bashars al-Assads forseta ráku liðsmenn tveggja hópa íslamista úr borginni Aleppo á miðvikudag. Í hefndarskyni frömdu íslamistarnir mannskæð sprengjutilræði við eftirlitsstöðvar uppreisnarmanna.

Andstaða gegn viðræðunum

Ekki eru miklar vonir bundnar við að viðræðurnar sem eiga að hefjast 22. janúar í Sviss skili miklum árangri. Assad forseti hefur hafnað öllum kröfum um að stíga til hliðar og hefur styrkt stöðu sína með hernaðarsigrum og vegna innbyrðis átaka uppreisnarmanna.

Þjóðarbandalagið, sem vestrænar þjóðir hafa stutt, hefur enn ekki staðfest hvort það ætli að mæta til viðræðnanna. Stærstu hópar uppreisnarmanna hafa varað stjórnarandstæðinga við því að mæta til viðræðnanna og að reyna að ræða við stjórn Assads. Sýrlenska þjóðarráðið, sem er stærsti hópurinn innan Þjóðarbandalagsins, hefur hótað að draga sig út úr bandalaginu ef þing þess ákveður að mæta til Genfar.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem funda í Córdoba á Spáni telja ekki mögulegt að brúa bilið á milli ólíkra hópa á fundinum en hann geti skapað umræðugrundvöll fyrir þá.

„Við erum komnir saman hér þrátt fyrir ólíkar skoðanir okkar til að reyna að ná samkomulagi sem getur bjargað þjóð okkar,“ sagði Sheikh Mohammed al-Yacoubi, múslímaprestur og einn fulltrúanna, á fundi stjórnarandstöðuleiðtoganna.

Þjóðverjar eyða efnavopnum

Þýsk stjórnvöld tilkynntu í gær að þau ætluðu að aðstoða við að eyða efnavopnum Sýrlandsstjórnar að beiðni Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegu efnavopnastofnunarinnar OPCW.

Fyrsti farmurinn af eiturefnum frá Sýrlandi lét úr höfn með dönsku skipi fyrr í þessari viku og lá leið þess til Ítalíu. Þar tekur bandarískt herskip við efnunum sem verður svo eytt í þartilgerðum títaníumgámi úti á hafi.

Þjóðverjar hafa nú boðist til þess að eyða eiturefnunum í aðstöðu ríkisins í bænum Münster í norðvesturhluta Þýskalands.

Átján létu lífið í sprengingu

Að minnsta kosti átján manns, þar á meðal konur og börn, féllu þegar bílsprengja sprakk í bænum Kafat í Homa-héraði í gær að sögn samtakanna Syrian Observatory for Human Rights á Bretlandi.

Í ríkissjónvarpi landsins var „hryðjuverkamönnum“ kennt um tilræðið en stærsti hluti Homa er undir stjórn hers Assads. Líklegt var talið að tala látinna ætti eftir að hækka þar sem margir væru alvarlega særðir eftir sprenginguna.

Stjórnarherinn hélt í gær áfram loftárásum á Aleppo, sem staðið hafa yfir í hátt í mánuð með miklu mannfalli.