Viðurkenning Snævar Ívarsson er framkvæmdastjóri Félags lesblindra en það hefur komið mörgu til leiðar í málum er tengjast lesblindu. Fyrirlestrar eru haldnir víða um lesblindu og lestrarvanda og farið yfir lestraraðferðir.
Viðurkenning Snævar Ívarsson er framkvæmdastjóri Félags lesblindra en það hefur komið mörgu til leiðar í málum er tengjast lesblindu. Fyrirlestrar eru haldnir víða um lesblindu og lestrarvanda og farið yfir lestraraðferðir. — Ljósmynd/Sólrún Kristjánsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Snævar Ívarsson, framkvæmdastjóri Félags lesblindra á Íslandi, var þrítugur þegar hann var greindur með lesblindu. Grunnskólagangan var enginn dans á rósum enda lítill skilningur á lesblindu þá.

Snævar Ívarsson, framkvæmdastjóri Félags lesblindra á Íslandi, var þrítugur þegar hann var greindur með lesblindu. Grunnskólagangan var enginn dans á rósum enda lítill skilningur á lesblindu þá. Á þeim tíma sem liðinn er síðan Snævar var í grunnskóla hefur margt breyst og í dag eru ýmis ráð og aðferðir sem lesblindir geta nýtt sér í daglegu lífi. Nýjasta tækni leikur þar stórt hlutverk.

Malín Brand

malin@mbl.is

Það skiptir flesta þá sem eru með lesblindu töluverðu máli að fá greiningu á henni. Snævar Ívarsson er einn þeirra. Eftir að hann fékk greininguna upplifði hann sigur á vissan hátt því þetta útskýrði margt. „Þetta var mikill sigur, eða vakning fyrir mig að fá greininguna og það var eiginlega bara þá sem ég byrjaði að fást við það að lesa því þá áttaði ég mig á því að þetta var að mér,“ segir Snævar sem fékk greininguna þegar hann var þrítugur, fyrir rúmum tuttugu árum.

Harðasti dómarinn

Snævar heldur erindi víða um land ásamt öðrum í Félagi lesblindra. Hann segir fólki sína sögu og hvernig hann hefur tekist á við lesblinduna. Mánudaginn 3. febrúar verður hann með fræðsluerindi á vegum Fræðslunetsins, símenntunar á Suðurlandi og er aðgangur ókeypis. Hann sýnir nýjustu tækni til hjálpar lesblindum og má þar nefna skönnun á texta og talgervil. Á árum áður, þegar þekking á lesblindu var lítil sem engin, áttu margir lesblindir einstaklingar undir högg að sækja innan skólakerfisins.

„Það var gert grín að mér fyrir lestrargetu mína en ég vil samt meina að ég hafi sjálfur verið harðasti dómarinn því ég taldi lengi vel að ég væri eitthvað heimskur að geta ekki lesið eins og hinir,“ segir Snævar.

Eftir greininguna fór Snævar að lesa. „Fyrstu bókina sem ég sigraði ljósritaði ég alla og gat þá stækkað blaðsíðurnar. Svo tók ég bara þrjú blöð og las bara þau þrjú í einu. Þetta var ekkert stærra verkefni en þessi þrjú blöð,“ segir hann en bendir um leið á eitt einkenni lesblindra:

„Það er reynsla okkar að ef þú hittir einhvern lesblindan og segir honum frá einhverri bók sem er æðislega góð, þá byrjar hann á að tékka aftast á því hvað þetta eru margar blaðsíður, hvað þetta er stórt fjall að klífa,“ útskýrir Snævar. Hann nefnir gjarnan við foreldra að ef barnið er að athuga hversu margar blaðsíður eru í bókinni þá geti það verið merki um kvíða fyrir því að hefja lesturinn. „Þetta er svona líkamlega erfitt fyrir okkur og það er auðvitað erfitt fyrir fólk að skilja sem á auðvelt með að lesa,“ segir Snævar.

Breyttir tímar

Snævar telur víst að hann hefði fetað aðrar brautir í lífinu ef lesblindan hefði verið greind þegar hann var barn. Sem betur fer er tillit tekið til lesblindra í skólum í dag en ekki þarf að líta langt aftur til að sjá að engin úrræði voru til fyrir lesblinda nemendur. „Hjálpartækin skipta sköpum og skilningurinn líka. Auk þess gera margir skólar út á nýja stefnu, eins og Norðlingaholtsskóli sem er með opið rými og keyrir á krafti hvers og eins nemanda. Þeir eru ekki svo uppteknir af bekkjakerfinu heldur fær styrkur nemandans að koma fram og hann fær að nýta getu sína,“ segir Snævar.

„Þegar við þurfum að komast yfir efni í formi texta þá þurfum við annaðhvort að fá það stafrænt þannig að við getum notað búnað til að lesa þannig að allt sem við getum valið með músinni getum við hlustað á, eða þá að efnið sé lesið upp og við höfum aðgang að því á hljóðbókarformi,“ segir Snævar sem minnist þess að hafa þurft að bíða fram til sumars eftir að geta kynnt sér jólabækurnar. Í dag kemur meginþorri bókanna út á hljóðbókarformi eða sem rafbækur samhliða bókaútgáfunni og er það liður í þeirri miklu byltingu sem orðið hefur á aðgengi lesblindra að efni.