[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Brasilíski sóknarmaðurinn Neymar verður klár í slaginn með Barcelona þegar Spánarmeistararnir sækja Atlético Madrid heim í toppslag spænsku 1. deildarinnar í knattspyrnu á laugardaginn.

Brasilíski sóknarmaðurinn Neymar verður klár í slaginn með Barcelona þegar Spánarmeistararnir sækja Atlético Madrid heim í toppslag spænsku 1. deildarinnar í knattspyrnu á laugardaginn. Neymar gat ekki leikið með Börsungum í bikarleiknum gegn Getafe í fyrrakvöld en hann æfði með liðinu í gær. Barcelona og Atlético Madrid eru efst og jöfn á toppi deildarinnar en Real Madrid er fimm stigum á eftir.

Danski landsliðsmaðurinn í handknattleik Mads Mensah Larsen mun yfirgefa danska úrvalsdeildarliðið Aaborg eftir tímabilið og ganga í raðir þýska liðsins Rhein-Neckar Löwen. Þar hittir hann fyrir Alexander Petersson og Stefán Rafn Sigurmannsson . Þjálfarinn Guðmundur Guðmundsson mun láta af störfum hjá félaginu í sumar en hann mun eins og kunnugt er taka við starfi landsliðsþjálfara Dana. Daninn Nikolaj Jacobsen mun leysa Guðmund af hólmi hjá þýska liðinu.

T hierry Omeyer, markvörðurinn frábæri í liði Frakka, hefur fengið grænt ljós á að spila með franska landsliðinu á Evrópumótinu í Danmörku en á tímabili leit út fyrir að hann yrði ekki með vegna þeirra meiðsla sem hafa verið að plaga hann. Omeyer hefur ekki getað spilað með liði sínu, Montpellier, síðustu tvo mánuði en hann er allur að braggast og mun standa á milli stanganna á EM. Frakkar leika í A-riðli ásamt Serbum, Pólverjum og Rússum.

Norðmaðurinn Åge Hareide var í gær ráðinn þjálfari sænska meistaraliðsins Malmö í knattspyrnu. Hareide tekur við sænsku meisturunum af Rikard Norling sem ákvað að segja skilið við félagið og taka við þjálfun norska úrvalsdeildarliðsins Brann. Hareide, sem er 60 ára gamall hefur víða komið við á þjálfaraferli sínum. Hann hefur þjálfað norsku liðin Molde, Rosenborg og Viking, sænsku liðin Helsingborg og Örgryte og danska liðið Bröndby. Þá stýrði hann norska landsliðinu frá 2003 til 2008.

Brendan Rodgers , knattspyrnustjóri Liverpool, hefur verið sektaður af enska knattspyrnusambandinu fyrir ummæli sem hann lét falla eftir ósigur gegn Manchester City á öðrum degi jóla. Rodgers var ósáttur við dómgæsluna í leiknum og lét óánægju sína í ljós við fjölmiðla eftir leik, en hann var sérstaklega ósáttur við að knattspyrnusambandið skyldi láta dómara frá nágrenni Manchester dæma leikinn. Hann var sektaður um 8 þúsund pund, jafnvirði rúmlega 1,5 milljóna íslenskra króna.

Þýska liðið Eintracht Frankfurt tilkynnti í gær að miðjumaðurinn Sebastian Rode mundi ganga til liðs við Þýskalands- og Evrópumeistara Bayern München eftir tímabilið. Hann fer til Bayern í frjálsri sölu en Rode er 23 ára gamall og hafa forráðamenn þýska meistaraliðsins fylgst grannt með framgangi leikmannsins síðustu mánuðina.