Breytingar Ungir leikmenn fá kærkomna reynslu í Danmörku, segir Bjarki Sigurðsson.
Breytingar Ungir leikmenn fá kærkomna reynslu í Danmörku, segir Bjarki Sigurðsson. — Morgunblaðið/Eva Björk
„Það er áhyggjumál að reynslumenn verða ekki með en það þýðir heldur ekki að velta sér of mikið upp úr því.

„Það er áhyggjumál að reynslumenn verða ekki með en það þýðir heldur ekki að velta sér of mikið upp úr því. Yngri og óreyndari menn fá tækifæri í staðinn og öðlast kærkomna reynslu,“ segir Bjarki Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik og þjálfari ÍR, um íslenska landsliðið í handknattleik karla.

„Því má velta fyrir sér hvort það eigi að nota mótið sem undirbúningsmót fyrir framtíðina. Allt stefnir þó í að Arnór Atlason verði með. Ólafur Bjarki er tognaður í nára og Vignir Svavarsson er einnig að glíma við meiðsli. Aron Pálmars er slæmur í hné. Þá er Guðjón Valur að glíma við tognun í kálfa. Mín skoðun er sú að sé hann ekki nema 70 eða 80% klár þá eigi hann ekki að fara með. Hann batnar ekki á næstu dögum,“ segir Bjarki og bætir við að þar tali hann af reynslu.

„Það er nokkuð ljóst að fyrsti leikurinn í riðlinum, gegn Noregi, skiptir sköpum um framhaldið og sker úr um það hvort við förum upp úr riðlinum eða ekki. Norðmenn eru sýnd veiði en ekki gefin. Þeir eru í uppbyggingarfasa með mikið af litt reyndum leikmönnum innan um „reynsluhunda“. Staðan er ef til vill ekkert ósvipuð hjá þeim og okkur.

Ég tel okkur samt vera sterkari en Norðmenn. Það er meira „rándýraeðli“ í okkar liði. Við gefumst ekki upp fyrr en flautað er til leiksloka. Norðmenn eiga það til að gefast upp,“ segir Bjarki.

Ungverjar eru með frábært lið þótt besta skytta þeirra, László Nagy, verði ekki með. Þeir hafa á að skipa sama liði og vann okkur á Ólympíuleikunum að Nagy undanskildum.

Við verðum að leggja allt í sölurnar gegn Noregi og eiga þá frekar Ungverjaleikinn til góða. Ég reikna ekki með að við ríðum feitum hesti frá viðureigninni við Spán.“

Bjarki segir hinsvegar að jákvætt sé að Ásgeir Örn Hallgrímsson og Rúnar Kárason eru í fínu standi en mörgum leist ekki á blikuna þegar ljóst var að Alexander Petersson yrði ekki með.

„Einn gallinn við ungu leikmennina er að þeir eiga það til að taka of mikið af óyfirveguðum skotum snemma í sókninni. Þeir verða að gefa sér meiri tíma og leita uppi betri færi. Annars rignir yfir okkur hraðaupphlaupum,“ segir Bjarki Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsmaður. iben@mbl.is