Þórður Árnason fæddist á Sólmundarhöfða 17. nóvember 1926. Hann lést á Dvalarheimilinu Höfða 28. desember 2013.

Foreldrar hans voru Guðrún Þórðardóttir, f. á Glammastöðum í Svínadal 2. júní 1889, d. 26. júní 1961, og Árni Sigurðsson, f. á Hurðarbaki í Svínadal 9. júní 1868, d. 21. maí 1951. Þau bjuggu allan sinn búskap á Sólmundarhöfða í Innri-Akraneshreppi, þar sem Árni stundaði sjómennsku og almenna verkamannavinnu á Akranesi. Bræður Þórðar eru Ingibergur, f. 19. október 1913, d. 9.12. 1993, Sigursteinn, f. 29.11. 1915, d. 14.4. 2011, Jóhann Aðalsteinn, f. 30.12. 1919, d. 5.7. 1991, kvæntur Sesselju Karlsdóttur, f. 18.12. 1927. Þau áttu fjögur börn. Játmundur, f. 20.11. 1928, d. 16.4. 2007. Þeir bræður eru allir fæddir á Sólmundarhöfða. Með fyrstu konu sinni, Lilju Jónsdóttur, átti Árni soninn Hrólf , f. í Árnabæ á Akranesi 18.12. 1896, d. í Bandaríkjunum 27.11. 1970. Fyrst bjó hann í Kanada en lengst af bjó hann í Los Angeles.

Hinn 2. júní 1963 kvæntist Þórður Sigríði Sigurjónsdóttur frá Miðbýli í Innri-Akraneshreppi, f. 1.2. 1930. Dóttir þeirra er Guðrún Þórðardóttir, f. 15.12. 1962 á Akranesi, gift Ingileifi Jónssyni frá Svínavatni í Grímsnesi. Synir þeirra eru Jón Örn Ingileifsson og Þórður Ingi Ingileifsson. Jón Örn á þrjú börn með sambýliskonu sinni Andreu Ýri Bragadóttur. Þau Ingileif Áka, Þórhildi Sölku og Hrafnhildi Katrínu.

Þórður sleit barnsskónum á Sólmundarhöfða, hann fór ungur að vinna við fiskbreiðslu á Sólmundarhöfða, síðar var hann vinnumaður tvö sumur á Ytra-Hólmi hjá Pétri Ottesen. Vann síðan í Heimaskaga, bæði í frystihúsinu og við uppskipun. Hjá Akraneskaupstað vann hann í nokkur ár og frá 1971 vann hann á Sjúkahúsi Akraness og þar lauk hann starfsferli sínum.

Útför Þórðar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 10. janúar 2014, og hefst athöfnin kl. 14.

Mig langar að minnast ástkærs föður míns sem lést á fallegum vetrardegi á fjórða degi jóla. Honum voru jólin alltaf kær og hann var mikið jólabarn, því var ljúft að geta eytt með honum síðustu dögum lífs hans um jól. Því kyrrð og friður jólanna er einstakur. Hann fæddist á Sólmundarhöfða og þar lauk hann einnig lífsgöngu sinni.

Pabbi minn var einstaklega ljúfur maður, skapgóður, heiðarlegur, vinnusamur og samviskusamur. Honum féll sjaldnast verk úr hendi, ef hann var ekki í vinnu vann hann að endurbótum á húsinu sínu og eða að fegra umhverfi sitt. Hann og mamma voru samhent hjón og unnu flest saman hvort sem það var tiltekt innanhúss eða að fegra umhverfið utandyra.

Lestur góðra bóka var hans yndi, hann las flest það sem hann komst yfir, á bókum Halldórs Kiljan Laxness hafði hann dálæti, ljóð las hann nokkuð, þjóðlegan fróðleik og sögu lands og þjóðar. Ættfræðigrúsk stundaði hann einnig og hafði einstaklega gaman af enda nákvæmur og stálminnugur. Hann setti saman nokkrar ættartölur sem hann hafði fyrir okkur í fjölskyldunni, einnig aðstoðaði hann við yfirlestur þegar Æviskrár Akurnesinga komu út. Hann var fróður um landið okkar góða, og hafði gaman af að ferðast, bæði fóru hann og mamma í hópferðir á sumrin um langt árabil með hópi fólks af Akranesi og einnig ferðuðust þau nokkuð á sínum bíl. En örlögin leiddu foreldra mína saman í ferðalagi um Vestfirði með þessum góða hópi fólks árið 1961. Það var alltaf gaman að ferðast með pabba því hann vissi mikið um staðhætti í náttúrunni og þjóðlegan fróðleik frá því svæði sem við ferðuðumst um. Hann kynnti sér alltaf vel það svæði sem hann ætlaði að skoða áður en hann fór í ferðalög. Staðhætti á Akranesi og nágrenni þekkti hann mjög vel og sem stelpa fórum við oft saman í gönguferðir inn á nes, út í Kalmansvík eða í eggjatínslu á Akrafjalli en það var fastur liður á hverju vori. Einnig stundaði hann grásleppuveiði úr Höfðavörinni um árabil með Aðalsteini bróður sínum. Pabbi var náttúrubarn og naut þess að vera úti í náttúrunni hvort sem hann var einn eða með hópi fólks.

Faðir minn var einstaklega barngóður og fengu drengirnir mínir að njóta þess að vera með afa sínum enda á hann háan sess í hjarta þeirra, hann las mikið fyrir þá og fræddi þá um gamla tíma, þeir fóru mikið saman í göngu- og hjólreiðaferðir um Akranes. Oft fengu þeir vísu frá afa sínum, bæði á afmælum og við ýmis tækifæri. Hann átti létt með að setja saman vísu, vinnufélagar og vinir fengu einnig vísur.

Fagrar óskir færðu nú,

frá ömmu og afa á Skaga,

gæfuveginn gangir þú,

gegnum lífsins daga.

Það eru ljúfar minningar, pabbi minn, sem renna gegnum hugann þegar ég minnist þín, ég sakna þín sárt. Takk fyrir allt það góða sem þú gafst mér í veganesti og allar þær innihaldsríku stundir sem ég og fjölskylda mín höfum fengið að njóta með þér og mömmu í gegnum árin. Þú hafið alltaf tíma fyrir okkur og öll þín góða velvild í okkar garð verður seint þökkuð. Haf þú bestu þakkir fyrir samfylgdina, elsku pabbi, og megi góður Guð leiða þig í ljósið þar sem ég veit að þú átt góða heimkomu meðal ástvina.

Ég vill þakka starfsfólki á Dvalarheimilinu Höfða fyrir einstaka umönnun, hlýju og velvild í okkar garð.

Þín ástkæra dóttir,

Guðrún Þórðardóttir.

Fregnir af andláti Þórðar Árnasonar vöktu með mér söknuð, því er mér ljúft og skylt að minnast hans með nokkrum línum. Hann var í eðli sínu hógvær maður og langar lofræður um eigið ágæti væru ekki í hans anda.

Þórður var kvæntur minni kæru yndislegu móðursystur Sigríði og þegar ég var barn og unglingur var ég tíður gestur á fallegu heimili þeirra hjóna í fylgd móður minnar, þær voru samrýndar systurnar. Alltaf var tekið á móti okkur af mikilli hjartahlýju og rausn, dekkuð borð með fallegum borðbúnaði og heimabakað meðlæti. Þau bæði sýndu mér mikinn áhuga, fylgdust vel með mér og mínum áhugamálum. Sem dæmi að þegar ég var að læra ensku í gagnfræðaskólanum var Þórður að læra ensku sjálfur, hann leiðbeindi mér og lánaði mér nýjar bækur á ensku, sem að hans sögn væri gott fyrir mig að lesa til að auka orðaforðann.

Þótt hann væri ekki langskólagenginn maður var Þórður í mínum huga menntamaður í þess orðs bestu og víðtækustu merkingu. Hann las alla tíð mikið og átti gott safn vandaðra og góðra bóka. Var mjög minnugur og fjölfróður. Ég var sem barn alveg ákveðin í því að þegar ég yrði fullorðin ætlaði ég að eignast eins góðan mann og frænka mín, eiga fullt af bókum, lesa mikið og eiga fallegt heimili, á svo margan hátt voru þau mínar fyrirmyndir.

Í mörg ár vorum við Þórður samstarfsmenn á Sjúkrahúsi Akraness, þar kynntist ég öðrum kostum hans eins og samviskusemi og því hve bóngóður og greiðvikinn hann var. Þórður hafði alla tíð mikinn áhuga á ættfræði og á ég nokkrar ættartölur sem hann gerði og skrifaði með sinni skýru rithönd. Hann var líka vel hagmæltur og hef ég séð margar góðar vísur eftir hann, eins hafði hann yndi af krossgátum og myndagátum og var góður í að ráða þær. Þau hjón höfðu gaman af því að ferðast og fóru í margar skemmtilegar ferðir með ferðahóp sem þau voru félagar í.

Þau hjón áttu eina dóttur, Guðrúnu, sem fékk í vöggugjöf góða eðliskosti þeirra beggja. Þau voru vakin og sofin yfir velferð hennar og fjölskyldu hennar og synir Guðrúnar og Ingileifs, Jón Örn og Þórður Ingi, voru ömmu sinni og afa miklir gleðigjafar.

Hann var svo lánsamur að halda sínu andlega atgervi nánast óskertu til dauðadags þótt líkaminn hafi verið orðinn hrumur, og þau Sigríður verið komin á Dvalarheimilið Höfða.

Að leiðarlokum kveð ég, þig kæri Þórður, þakka þér af öllu hjarta alla þína umhyggju og hlýju. Megi hvíldin eilífa verða þér verðskulduð og vær.

Guðjóna Kristjánsdóttir.