Aðalbjörg Jónsdóttir fæddist að Gröf í Þorskafirði 28. október 1926. Hún lést á Landspítalanum 4. janúar 2014. Foreldrar hennar voru Jón Matthíasson, f. 7.5. 1901 á Hvítanesi við Ísafjarðardjúp, d. 17.3. 1981, og Margrét Gísladóttir, f. 17.6. 1897 á Skálanesi við Breiðafjörð, d. 12.8. 1937, á Berklahælinu að Vífilsstöðum. Hálfsystir samfeðra er Lilja Sigurrós, f. 9.7. 1948 í Flatey á Breiðafirði. Aðalbjörg giftist 19.9. 1947 Skúla Ólafssyni, f. 12.6. 1911 í Hafnarfirði, deildarstjóra hjá Búvörudeild SÍS, d. 18.6. 1980 í London. Skúli átti fyrir dótturina Helgu, f. 31.5. 1943, maki Sigfús Schopka. Börn Skúla og Aðalbjargar eru alls fimm: 1) Rafn Hafsteinn, f. 30.11. 1947, d. 21.9. 2008, sonur Rafns og Laufeyjar Þóru Einarsdóttur er Hlynur Loki, f. 1970. Maki Rafns var Hallfríður Ingimundardóttir, þau skildu, synir þeirra eru: Fjölvar Darri, f. 1973, Örvar Þorri, f. 1982, og Skorri Rafn, f. 1985. 2) Steinunn, f. 11.2. 1951, maki Guðni Erlendsson, börn þeirra eru Erlendur Steinn, f. 1972, Ívar Fróði, f. 1973, og Nína Sif, f. 1981. 3) Jón Hjörtur, f. 8.5. 1952, maki Margrét Óðinsdóttir, börn þeirra eru Ásdís Björk, f. 1973, Elfa Dröfn, f. 1977, og Fannar, f. 1983. 4) Valgerður Margrét, f. 26.12. 1957, maki Sveinbjörn Halldórsson, dætur Valgerðar og Inga Þórs Reyndal, þau skildu, eru: Hildur Aðalbjörg, f. 1981, og Edda Eir, f. 1987. 5) Sigríður Rut, f. 13.2. 1960. Barnabarnabörn Aðalbjargar eru 20 talsins. Skúli og Aðalbjörg bjuggu fyrstu árin á Öldugötu 42, síðan að Rauðalæk 13 og frá árinu 1963 að Stekkjarflöt 20 í Garðabæ. Þegar Skúli lést flutti Aðalbjörg fljótlega í Kópavoginn. Aðalbjörg var í sambandi og sambúð í 13 ár með Engilberti Sigurðssyni, f. 14.4. 1918, d. 7.5. 2010.

Aðalbjörg missti móður sína 10 ára gömul. Hún bjó með föður sínum á bænum Gröf og var þar einnig alin upp hjá föðurömmu sinni. Þegar Hjörtur bóndi í Gröf féll frá 1943 fluttist fjölskyldan til Flateyjar í Breiðafirði. Aðalbjörg fór síðar í kaupamennsku að Ölvisholti í Flóa og í vist í Reykjavík hjá fleiri aðilum. Hún fór í kvöldskóla KFUM og í Flensborgarskólann í Hafnarfirði. Hún hafði áhuga fyrir skriftum og fékk 1946 birta eftir sig í Þjóðviljanum verðlaunasmásöguna, Einn dagur í lífi alþýðustúlku. Hún sinnti stóru búi og garði, en hóf að vinna úti í hlutastarfi um 1965. Hún dreif hún sig í sjúkraliðanám og útskrifaðist frá St. Jósefsspítala 31.5. 1971 og vann þar og síðan á Vífilsstaðaspítala frá 1972 til 1974. Á deild A-6 lyflækningadeild, á Borgarspítalanum, starfaði hún í 21 ár, frá 1975 til 1996. Hún ferðaðist til útlanda í gegnum árin. Hún var virk í félagsstarfi og sótti námskeið hjá félagsstarfi aldraðra í Gjábakka. Hún tók til við að yrkja með ljóðahópnum Skapandi skrif í u.þ.b. átta ár. Einnig var hún í silfursmíði og lærði framsögn. Hún var í stjórn eftirlaunadeildar Sjúkraliðafélagsins og starfaði með Framsóknarfélaginu í Garðabæ og Kópavogi. Hún starfaði einnig með Mæðrastyrksnefnd Kópavogs.

Útför Aðalbjargar verður gerð frá Fossvogskirkju í dag, 10. janúar 2014, og hefst athöfnin kl. 15.

Elskuleg móðir mín kvaddi þennan heim þegar liðnir voru þrír dagar af hinu nýja ári, 87 ára gömul. Það er alltaf erfitt að verða vitni að því þegar Elli kerling fer að þjaka ástvini og hamla lífsgæðum til muna. Þegar það er orðið nánast óbærilegt er lausn eina leiðin. Ég var svo lánsöm að geta fylgt henni á lokaáfanganum og verið hjá henni á Landspítalanum yfir hátíðarnar, þar til yfir lauk.

Þessi lífsglaða, fallega, góða, göfuga sál, kærleiksríka og jákvæða kona, sem öllum vildi svo vel, hafði svo góða nærveru og talaði aldrei illa um neina manneskju. Ef hún heyrði á einhvern hallað nefndi hún strax til sögunnar jákvæða eiginleika viðkomandi. Hversu oft dáðist ég ekki að henni móður minni hversu vel hún væri af Guði gerð, eðlislæg góðmennska og kurteisi. Aldrei ætlaðist hún til neins því hún vildi að gjörðir fólks væru sjálfsprottnar í hennar garð og yfirleitt. Það að kvarta var ekki til hjá henni. Hún vildi hjálpa fólki, var traust eins og klettur, var alltaf til staðar fyrir fólk og hafði til að bera mikið umburðarlyndi og jafnaðargeð. Hún hafði ánægju af því að gefa af sér jafnt af hinu verald- og andlega en það var ekki kaup kaups.

Þessi orð kunna að hljóma eins og hjóm en þetta er bara sannleikur. Móðir mín var síður en svo fullkomin, frekar en nokkur er, en þetta voru hennar góðu og miklu kostir.

Mamma gat verið svo gamansöm og skemmtileg, hún hafði gaman af því að klæða sig upp á og vera fín og glæsileg, enda mesta myndarkona í útliti, orði og verki. Hún var þó ekki nein pjattrófa í þeim skilningi, því hún var mikill dugnaðarforkur, ósérhlífin og var hamhleypa til verka. Dreif sig í að framkvæma, ekkert hik, vildi nota tímann og þá var tíminn eldsnemma á morgnana hennar góði tími.

Hún var bæjar- og borgardama eftir að hún flutti til höfuðborgarinnar en bjó þó ætíð að því að hafa alist upp í sveitinni í ósnortinni náttúrunni. Það fór ekki á milli mála að ær og kýr og þeirra sálarlíf var henni vel kunnugt og þær henni líkt og gamlir sálufélagar.

Mamma hefur verið sérlega áhugasöm og virk í félagsstarfi. Hún bjó þó yfir þeim kosti að geta verið ein með sjálfri sér og sagði oft að sér leiddist aldrei. Mamma var svo stolt af því hversu marga afkomendur hún átti, barnabörnin eru öll hið mesta myndarfólk og þau sem búa hér á landi náðu næstum öll að kveðja hana á spítalanum, sem og barnabarnabörnin, þau eldri. Öllum þótti svo vænt um Aðalbjörgina og hennar verður sárt saknað. Fyrrverandi tengdabörn Aðalbjargar hafa haldið góðu sambandi við hana eftir að leiðir skildi við börn hennar, það segir mikið um hana.

Þetta lof um góða eiginleika mömmu var ekki í hennar stíl og ekki í mínum heldur, en ég vil koma þessu á framfæri.

Minning hennar lifir í hjarta okkar og hvílík fyrirmynd hún er. Þakka þér fyrir allt á okkar lífsleið og að hafa miðlað af þinni lífsvisku, elsku mamma. Ég vel að trúa því að þú sért komin á góðan stað og þú sért laus undan þjáningunum og þér líði vel. Blessuð sé minning þín.

Mamma var trúuð kona og kenndi okkur í æsku þessa bæn og hún signdi okkur oft.

Láttu nú ljósið þitt

loga við rúmið mitt.

Hafðu þar sess og sæti,

signaði Jesús mæti.

(Höf. ók.)

Þín dóttir,

Sigríður Rut.

Til þín, kæra systir.

„Einstakur“ er orð

sem notað er þegar lýsa á því

sem er engu öðru líkt,

faðmlagi

eða sólarlagi

eða manni sem veitir ástúð

með brosi eða vinsemd.

„Einstakur“ lýsir fólki

sem stjórnast af rödd síns hjarta

og hefur í huga hjörtu annarra.

„Einstakur“ á við þá

sem eru dáðir og dýrmætir

og hverra skarð verður aldrei fyllt.

„Einstakur“ er orð

sem best lýsir þér!

Lilja.

Tíminn séður í spegli dægranna, síbreytilegra mynda ofinna úr fíngerðu silki sem rennur um lófa manns. Séð frá veginum þá sýnist skógurinn ná alveg niður í fjöru. Þar opnast fjörðurinn svo bjartur og tignarlegur. Sumstaðar synda álftir í lygnunni rétt innan við skerin. Glit birkilaufa í sumargolunni er fjarri barnshuganum. Selirnir vekja meiri áhuga, hún hleypur fram á steinana. Hún veit að rauða húfan sem hún ber muni kalla þá fram. Úr djúpinu reisa þeir smá höfuð sín upp úr öldunni, einn af öðrum og kinka kolli til hennar.

Séð frá veginum er Þorskafjörður, þar sem Aðalbjörg ólst upp, venjulegur fjörður, en þegar hún skildi við var hann eitt andartak sindrandi blár demantur milli birkilaufanna. Vængur dauðans svo sterklegur í ljósaskiptunum. En ef við föngum ljósið í spegli og beinum því að hálum steinunum, þá er eins og fjaðrir þess horfna lýsi þegar við leggjum spegilinn frá okkur.

Bráðum rökkvar. Í lygnunni setur álftin ljúfa höfuð undir væng. Stjörnurnar koma fram ein af annarri. Hjól tímans vekur hátíðir og sorg undir teinum sínum. Tunglið horfir þolinmótt á umskipti alls sem lifir. Ég kveð heiðurskonu, hana Aðalbjörgu sem mér þótti afar vænt um. Ég trúi því að lampar flytjist um set, en logi tendrist af loga.

Sveinbjörn Halldórsson.

Aðalbjörgu Jónsdóttur kynntist ég strax á upphafsárum mínum í Freyju, félagi framsóknarkvenna í Kópavogi. Hún var falleg kona, hæglát í fasi og alltaf vel tilhöfð með dökkt hárið nýlagt.

Aðalbjörg lét sig ekki vanta á fundi og samkomur Freyju. Hún mætti í sínu fínasta pússi á jólafundi, aðalfundi, kjördæmisþing og flokksþing. Hún var virðuleg og setti skoðanir sínar fram á afgerandi hátt, þó ekki færi mikið fyrir henni eða hún hefði hátt. Oftar en ekki vildi hún ræða stjórnmálaástandið og allt til hins síðasta fylgdist hún grannt með stjórnmálaþáttum í sjónvarpi og útvarpi. Hún var stolt af Framsóknarflokknum og gengi hans bæði í sveitarstjórn og á landsvísu. Hún var jafnréttissinni og taldi miklu skipta að konur störfuðu í stjórnmálum.

Aðalbjörg var sjúkraliði að mennt og þegar ég hringdi síðast í hana til að spyrja hvort hún kæmi ekki á jólafund Freyju í desember þá sagðist hún vera í vanda. Þær sem höfðu útskrifast með henni sem sjúkraliðar ætluðu einnig að koma saman. Hún vissi sem var að félagsstarf gefur manni mikið, bæði góðar minningar og góða vini. Aðalbjörg var hvarvetna án efa aufúsugestur eins ljúf og þægileg í samskiptum og hún var.

Að leiðarlokum vil ég þakka Aðalbjörgu fyrir góða nærveru og samfylgd í okkar mikilvæga félagsstarfi í Freyju og Framsóknarflokknum í Kópavogi. Ég sendi fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur og veit að minning hennar, þessarar heilsteyptu konu, mun lifa.

Una María Óskarsdóttir.

HINSTA KVEÐJA

Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm
er verður að hlíta þeim lögum
að beygja sig undir þann allsherjardóm
sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund
sem aldrei mér hverfur úr minni.
Og nú ertu gengin á guðanna fund
það geislar af minningu þinni.
(Friðrik Steingrímsson)

Félagar í Ljóðahópi Gjábakka kveðja Aðalbjörgu Jónsdóttur með virðingu og þökk. Hvíl í friði, okkar kæra. Syrgjendum vottum við okkar dýpstu samúð.
F.h. Ljóðahóps Gjábakka,
Sigurbjörg Björgvinsdóttir.