Víkverji hitti menn í hádeginu í gær. Þeim varð tíðrætt um drunga landsmanna og deyfð í þjóðfélaginu um þessar mundir.

Víkverji hitti menn í hádeginu í gær. Þeim varð tíðrætt um drunga landsmanna og deyfð í þjóðfélaginu um þessar mundir. Þeir hefðu betur hlustað á piltinn sem hringdi inn í Virka morgna, morgunþátt RÚV, skömmu fyrir hádegið og útskýrði um hvað þorrablót Bolvíkinga snerist. Ekkert væl fyrir vestan.

Umræðan snerist um þá hefð að aðeins giftar konur eða konur í sambúð mættu mæta á þorrablót Bolvíkinga og þær sæju um að bjóða mökum sínum á blótið. Töluverður hiti var í talendum og einn innhringjandi sagðist ekki skilja hvernig þáttastjórnendur létu. Af hverju skiptirðu þá ekki um stöð, sagði Andri á flandri, ein helsta stjarna RÚV, og viðkomandi skellti á.

Þáttastjórnendur vildu heyra í Bolvíkingi og varð loks að ósk sinni. Ungur maður hringdi og sagðist ekki aðeins vera frá Bolungarvík heldur væri hann í þorrablótsnefndinni, eins og pabbi hans, afi og langafi hefðu verið. Er þetta bara innan fjölskyldunnar, spurðu þáttastjórnendur og pilturinn sagði svo vera. Langafi sinn hefði sett reglurnar og þeim yrði ekki breytt. Hann áréttaði að langafinn hefði líka sett reglurnar um konurnar. Nú er allt orðið vitlaust þarna úti, sagði Gunna Dís, en pilturinn róaði hana snarlega. Sagði að aðeins einu sinni hefði komið upp vandamál vegna þessara reglna. Um 1980 hefðu konurnar farið í fýlu og ekki boðið körlunum. Smáþögn og svo bætti grínistinn við: En ég bý í Grafarvogi og hef aldrei komið þarna.

Þið eruð rugluð þarna í Grafarvogi, sagði Gunna Dís og Andri á flandri náði ekki upp í nefið á sér fyrir reiði. Við skulum róa okkur aðeins niður með Pink Floyd, sagði hann áður en hann setti plötu á fóninn og lét sig hverfa.

Nú er stóra spurningin: Blótar bolvíska stálið?