Ingibjörg Guðríður Hjartardóttir fæddist í Hnífsdal 20. september 1923. Hún lést á heimili sínu, Hlaðhömrum 2, Mosfellsbæ, 25. desember 2013.

Ingibjörg var dóttir hjónanna Hjartar Guðmundssonar, útgerðarmanns, f. 2. febrúar 1891, d. 4. mars 1967 og Margrétar K. Þorsteinsdóttur, húsmóður, f. 9. apríl 1879, d. 2. ágúst 1958. Systkini hennar voru: Helga, f. 1904, d. 1990, Sigríður, f. 1906, d. 1986, Jóakim, f. 1907, d. 1913, Guðrún, f. 1908, d. 1941, Páll, f. 1910, d. 1911, Aðalbjörg, f. 1912, d. 2006, Pálína, f. 1913, d. 1913, María, f. 1914, d. 2002, Elísabet, f. 1917, d. 2000, Kristjana, f. 1918, d. 2013, Jóakim, f. 1919, d. 1997. Segja má að systursonur hennar, Grétar, f. 1939, sem var alinn upp á æskuheimili þeirra, frá eins árs aldri, hafi fyrst verið henni sem yngsti bróðir en síðar sem fóstursonur.

Hinn 11. september 1944 giftist Ingibjörg, Friðriki Maríassyni, f. 28.7. 1919, d. 22.12. 1966. Foreldrar hans voru Marías Guðmundsson, f. 19.4. 1886, d. 13.3. 1955 og Ingigerður Friðriksdóttir, f. 5.10. 1896, d. 11.9. 1946.

Inga Hjartar, eins og hún var kölluð af vinum sínum, var fædd og uppalin í Brekkuhúsinu í Hnífsdal. Hún giftist Friðriki Maríassyni 1944 og eignaðist með honum fimm börn sem öll fæddust í Brekkuhúsinu. Þau eru: Ingigerður, gift Davíð Atla Oddssyni, þau eiga fjögur börn, Hjörtur, á fjögur börn, Margrét Kristjana, gift Sigurði Jóhannssyni, þau eiga fjögur börn, María, gift Tómasi B. Tómassyni, þau eiga tvo syni, Smári, kona hans er Wendy Ann Hough og eiga þau þrjá syni. Þau eru búsett í Ástralíu. Barnabörnin eru því orðin sextán, langömmubörnin eru fjórtán og langalangömmubörnin tvö.

Inga var aðeins tíu ára að aldri þegar hún vann sér inn fyrstu launin sín. Hún fór ung til Reykjavíkur til að vinna í verslun en sneri aftur heim í Hnífsdal til að leggja foreldrum sínum lið vegna veikinda móður sinnar. Hún fór í húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði árið 1943 en hún giftist Friðriki árið 1944 og þau hófu búskap í Brekkuhúsinu þar sem foreldrar Ingu bjuggu fyrir og þar fæddust börnin þeirra fimm. Friðrik drukknaði með sviplegum hætti ásamt fimm öðrum skipverjum þegar báturinn Svanur fórst í stórviðri þann 22. desember 1966. Tveimur mánuðum síðar dó faðir hennar þannig að segja má að það hafi verið skammt stórra högga á milli. Um haustið sama ár flutti fjölskyldan á Heiðarbraut 8.

Eftir að börnin fimm komust á legg fór hún að vinna í rækjuvinnslu í Hnífsdal og síðar í Hraðfrystihúsi Hnífsdals en faðir hennar var einn af stofnendum þess. Til fjölda ára vann Inga auk þess við ræstingar í barnaskólanum í Hnífsdal allt frá því að hún varð ekkja árið 1966 þar til að hún hætti sökum aldurs. Inga var mjög félagslynd og var lengi í kvenfélaginu Hvöt. Árið 1993 flutti Inga í Mosfellsbæinn þar sem hún naut löngum samvista við fjölskyldur barna sinna og þar bjó hún til dauðadags.

Ingibjörg verður jarðsungin frá Áskirkju í dag, 10. janúar 2014, og hefst athöfnin kl. 13.

Elskulega mamma mín

mjúk er alltaf höndin þín

tárin þorna sérhvert sinn

sem þú strýkur vanga minn.

Þegar stór ég orðinn er

allt það skal ég launa þér.

(Sig. Júl. Jóhannesson.)

Elsku mamma okkar og tengdamóðir kvaddi á jóladag, 25. desember síðastliðinn. Minningarnar um þessa einstöku konu eru okkur afar dýrmætar; góðmennskan, vinnusemin og útgeislunin voru henni eðlislægar. Hún var alin upp á tímum mikilla framfara og umbóta í Hnífsdal. Hún sá dalinn sinn verða að gróskumikilli byggð þar sem útgerð og sjávarútvegur blómstruðu. Hraðfrystihúsið í Hnífsdal, sem faðir hennar, Hjörtur Guðmundsson útgerðarmaður, stofnaði ásamt nokkrum öðrum, varð eitt farsælasta og best rekna fyrirtæki landsins. Þar vann hún nánast alla sína starfsævi eða þar til hún fluttist til Mosfellsbæjar á efri árum. Í Hnífsdal undi hún hag sínum vel. Þar fæddust börnin hennar fimm og þar eignaðist hún marga, góða vini sem héldu tryggð við hana til hinsta dags.

Mamma var mikil félagsvera og naut þess að vera með fjölskyldu og góðum vinum. Það er ljúft að rifja upp með þakklæti allar ferðirnar okkar saman; ferðina til Costa del Sol árið 1975, með Kalla, Jönu og Halldóru, Gunnu og Úlla. Ferðin í Tívolí er eftirminnileg þegar farið var í bílabrautina og hún fór í rússíbanann og skemmti sér ógleymanlega. Ekki má gleyma ferðinni til Ástralíu til Smára og Wendy í desember 2003 með okkur fjórum auk þeirra Friðriks og Bryndísar, ömmubarnanna hennar. Þá stóð hún sig svo vel á þessu langa ferðalagi og var þakklát fyrir að fá að sjá heimili sonar síns, tengdadóttur og ömmubarnanna í Ástralíu og dvelja þar með þeim um tíma. Við erum líka þakklát fyrir að hafa átt þess kost að upplifa með henni þessa heimsókn. Á kveðjustund finnst okkur orðið einstök hæfa henni best.

„Einstakur“ er orð sem notað er þegar lýsa á því sem er engu öðru líkt, faðmlagi eða sólarlagi eða manni sem veitir ástúð með brosi eða vinsemd. „Einstakur“ lýsir fólki sem stjórnast af rödd síns hjarta og hefur í huga hjörtu annarra. „Einstakur“ á við þá sem eru dáðir og dýrmætir og hverra skarð verður aldrei fyllt. „Einstakur“ er orð sem best lýsir þér. (Terri Fernandez)

Elsku mamma og tengdamamma, við kveðjum þig með trega um leið og við minnumst fallegrar og góðrar nærveru þinnar með okkur og fjölskyldum okkar gegnum tíðina. Þær stundir eru okkur öllum dýrmætar og verða oft rifjaðar upp. Minning þín mun lifa með okkur öllum.

Ég flyt þér, móðir, þakkir þúsundfaldar,

og þjóðin öll má heyra kvæðið mitt.

Er Íslands bestu mæður verða taldar,

þá mun þar hljóma fagurt nafnið þitt.

Blessuð sé öll þín barátta og vinna,

blessað sé hús þitt, garður feðra minna,

sem geymir lengi gömul spor.

Haf hjartans þakkir, blessun barna þinna,

– og bráðum kemur eilíft vor.

(Davíð Stefánsson)

Ingigerður, Atli, María og Tómas.

Elsku amma, þegar ég hugsa um þig þá hugsa ég til baka yfir fyrstu minningarnar sem ég á, um hlýjuna sem tók alltaf á móti manni í faðmi þínum. Án þín, elsku amma, væri ég ekki helmingurinn af því sem ég er í dag, þú kenndir mér að nota þau verkfæri sem Guð gaf mér hverju sinni.

Á uppvaxtarárum hafði ég annan fótinn hjá þér, ef ekki báða. Þú varst alltaf til staðar fyrir mig. Ég man að þegar við horfðum á Leiðarljós spurði ég þig: „En amma, þau eru fullorðin,“ en þá fannst mér hringavitleysan orðin alltof mikil. Þá sagðir þú: „Fullorðna fólkið veit yfirleitt ekkert betur, ef ekki minna.“ Þar hafðir þú rétt fyrir þér. Þetta minnti ég þig á í haust þegar ég kom heim til landsins að eyða tíma með þér. Ég sagði þér að því eldri sem ég yrði því minna vissi ég og erfiðara yrði með hverjum deginum að vita í hvorn fótinn ég ætti að stíga næst.

Þú sagðir aldrei hvert ég yrði að fara og hvert ekki, ég ræddi við þig um mína drauma og lífsplön, þér fannst sumt skemmtilegra en annað og þótti mér gaman að krydda hlutina með þér og heyra þig segja hlæjandi: „Já, þá gerir þú það bara með góðlega brosinu þínu.“ Allt sem ég tók mér fyrir hendur studdir þú og varst stolt af, og ég mun alltaf passa að þú hafir eitthvað til að vera stolt af.

Skemmtilegast var þó að spyrja þig út í gamla daga, við hlógum mikið að því þegar ég spurði þig hvenær þú hefðir farið á fyrsta ballið þitt, um fyrstu skóladagana og hvernig þú hefðir upplifað að kynnast afa fyrst. Ég spurði þig seinna, í einu af okkur seinustu samtölum, hvort ég mætti ekki breyta sögunum smávegis og krydda þær, gera þetta pínu spennandi. Þá sagðir þú með alvarlegri rödd, sem ég hafði ekki heyrt í mörg ár, eins og þú vissir að þú yrðir að segja mér þetta það kvöld: „Nei, Sigrún, þá værir þú ekki að segja satt.“ Rétt skal vera rétt, það mun ég alltaf muna.

Þú þekktir mig mun betur en ég vissi, þú vissir hvenær ég gat ekki meir og þegar ég þurfti spjall til að dreifa huganum. Það var eitt kvöld fyrir u.þ.b. þremur árum sem ég kom til þín, það var í nóvember, ég var í Húsmæðraskólanum í Reykjavík. Það lá ekki vel á mér, mér fannst hlutirnir í kringum mig erfiðir og ósanngjarnir. Ég var ekki hamingjusöm og mér fannst ég ekki geta miklu meir. Ég vissi að ef ég kæmi til þín myndi ég finna smáfrið þótt það væri ekki nema í eina kvöldstund sem ég myndi fá ró í slitið hjarta. Þú tókst þéttingsfast utan um mig og skynjaðir að það var það sem ég þurfti meira en allt, þú vissir áður en ég steig inn að ég þurfti á þér að halda.

Ég var með prjónatösku fulla af verkefnum og átti eftir að klára meira en ég gat. Ég sagði þér með tárin í augunum að ég væri svo þreytt alls staðar, andlega og líkamlega. Ég lagðist smá í sófann, en hafði varla samvisku í það, augnlokin urðu þung og ég fann að þú breiddir yfir mig. Eftir lengsta svefn vetrarins, sökum meiðsla fyrr um veturinn, leit ég á eldhúsborðið og sá öll verkefnin brotin saman og tilbúin.

Takk fyrir að vera kletturinn minn, elsku amma, ég mun alltaf hafa þig í hjartanu mínu.

Sigrún Kristjana

Hjartardóttir.

Kveðja til ömmu.

Amma kær, ert horfin okkur hér,

en hlýjar bjartar minningar streyma

um hjörtu þau er heitast unnu þér,

og hafa mest að þakka, muna og geyma.

Þú varst amma yndisleg og góð,

og allt hið besta gafst þú hverju sinni,

þinn trausti faðmur okkur opinn stóð,

og ungar sálir vafðir elsku þinni.

Þú gættir okkar, glöð við undum hjá,

þær góðu stundir blessun, amma kæra.

Nú hinstu kveðju hjörtu okkar tjá

í hljóðri sorg og ástarþakkir færa.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Hvíldu í friði, amma mín.

Þinn

Friðrik Snær.

Elsku amma mín, þá ertu farin frá okkur. Ég á mjög erfitt með að trúa því að 22. desember var seinasti dagurinn sem ég hitti þig. Þú bakaðir pönnukökur því þú vissir að við kæmum um kvöldið eins og venjan var á þessum degi, þú mundir alltaf eftir að geyma nokkrar fyrir mig sem ekki voru með sykri. Þú gafst mér þessa fallegu sokka sem þú varst nýbúin að prjóna fyrir mig og harðbannaðir mér að gefa þér jólagjöf. Þú sagðir líka við mig á aðfangadagskvöld þegar ég þakkaði fyrir mig: „Já, takk sömuleiðis fyrir allt gamalt og gott,“ það var eins og þú vissir að þú værir að kveðja mig í hinsta sinn.

Ég á ótal margar minningar um þig og gæti ég skrifað hérna margar blaðsíður. Þú kenndir mér líka svo mikið, allt milli himins og jarðar. Ég hef alltaf verið og mun alltaf vera stolt að heita í höfuðið á þér, elsku amma mín.

Minning þín lifir í hjarta mínu að eilífu og mun ég ávallt sakna þín.

Ég elska þig.

Þín

Ingibjörg Guðríður Hjartardóttir.

Okkur systurnar langar til að minnast elsku ömmu okkar sem kvaddi þennan heim á jóladagskvöld. Söknuðurinn er mikill en við getum glaðst yfir þeim mörgu fallegu minningum sem við eigum í hjörtum okkar um ömmu.

Þegar við vorum litlar var alltaf mikil tilhlökkun á vorin þegar vegirnir opnuðust og hægt var að fara í heimsókn til ömmu. Þó okkur þætti leiðin löng frá Patreksfirði til Hnífsdals og allar værum við systur mikið bílveikar, gleymdum við því fljótt hvað ferðin var erfið þegar við komum og fengum knús hjá ömmu og eitthvað gott í magann. Eins hlökkuðm við alltaf mikið til að fá ömmu í heimsókn til okkar á sumrin.

Síðar flutti amma í Mosfellsbæ, ekki var síðra að koma til hennar þangað. Alltaf bauð hún upp á heimabakað með kaffinu og heitt súkkulaði eða bauð í mat í hakkabuff með eggi eða annað gómsætt. Ömmu var margt til listanna lagt, hún var mikil hannyrðakona, prjónaði oft á okkur en ekki síður var hún dugleg að prjóna á börnin okkar. Hún bjó til skartgripi, skálar úr gleri og leir og ýmislegt fleira. Við eigum marga fallega muni eftir hana sem eru okkur kærir.

Amma var glæsileg kona, alltaf jákvæð og brosandi, það var alltaf mikill gestagangur hjá henni enda einstaklega notalegt að vera hjá henni.

Elsku amma, við söknum þín mikið en huggum okkur við allar fallegu minningarnar sem við eigum. Við vitum að nú ertu komin á góðan stað og afi og Friðrik bróðir hjá þér.

Ég kveiki á kerti og horfi á logann skína

horfi til himins á fallegu stjörnuna mína

bið Guð að vísa veginn, þó gata sé myrk

og veita ykkur von og trú og gefa ykkur styrk.

(Sólveig Sigríður Magnúsdóttir)

Þínar ömmustelpur,

Irma, Silja og Etna.

Inga amma var eins og ömmur eiga að vera hlý, kærleiksrík, þolinmóð, góður hlustandi og góðhjörtuð. Hana skorti aldrei falleg orð okkur til handa og aldrei heyrðum við hana hallmæla nokkrum manni.

Það var alveg sama hvenær við hringdum í ömmu, alltaf var hún boðin og búin að taka á móti okkur, þá gjarnan með pönnukökum eða vöfflum með rjóma og var þá spjallað um málefni líðandi stundar.

Amma var mikil handavinnukona, sat iðulega og prjónaði og hafði þann sið að pressa vettlinga, hosur, húfur og peysur undir sessunni sinni. Við börnin og barnabörnin nutum góðs af enda átti amma það iðulega til að lauma einhverju að okkur áður en við fórum.

Vinmörg var hún og þegar hún fluttist að vestan, suður í Mosfellsbæ, þá var hún ekki búin að búa þar lengi þegar hún hafði eignast fjöldann allan af nýjum vinum, enda hafði hún einstaklega góða nærveru. Amma hafði unun af því að vera vel tilhöfð, vera í fallegum fötum og setja á sig skart.

Minningarnar eru margar, hlátursköstin í eldhúsinu, spilastundirnar, veðurhræðslan, hroturnar hennar ömmu, fíflakransar, saumastundir, sláturgerð, bakstur, fótboltaáhorfið sem oft endaði með ópum og köllum því amma hélt iðuleg með því liði sem var að tapa. Stundum skipti hún um lið í miðjum leik, enda mátti hún ekkert aumt sjá.

Við erum óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið að vera með ömmu síðasta jólakvöldið hennar.

Ingu ömmu minnumst við með þakklæti fyrir allt það sem hún gaf okkur, alla hennar ástúð og hlýju.

Ingibjörg, Sif, Þröstur og Bryndís, makar og börn.

Í dag kveðjum við elskulega frænku, Ingibjörgu Guðríði Hjartardóttur. Við eigum svo margar góðar og fallegar minningar um Ingu frænku, hún bjó í sama húsi og afi og amma í Brekkuhúsinu í Hnífsdal. Minningarnar þaðan eru svo margar, þegar ég (HK) var krakki fórum við upp á Brekku í heyskap á sumrin, það var alltaf gott veður þá, minningar um jólaboðin, súkkulaði og tertur hjá frænku, allir leikirnir, að hugsa til baka er þetta eins og í ævintýri.

Inga bjó í nágrenni við okkur Helga eftir að hún flutti á Heiðarbrautina, Gísli Þór var ekki hár í loftinu þegar hann fór að venja komur sínar til frænku sinnar, sat og spjallaði við hana um allt milli himins og jarðar á meðan hún færði honum kræsingar. Það var alltaf kært á milli þeirra.

Eftir að við fluttum suður fórum við reglulega í heimsókn til Ingu, þá var alltaf spjallað um heimahagana, farið til baka heim í Hnífsdal og margt skemmtilegt rifjað upp, það var mikið hlegið þegar við rifjuðum upp þegar þau Helgi voru saman í þorrablótsnefnd hjá Kvenfélaginu Hvöt.

Inga var glæsileg kona, alltaf svo fín. Það geislaði svo mikil birta af henni, hún var með stórt og hlýtt hjarta.

Inga var aðeins 43 ára þegar hún missti manninn sinn, Friðrik Maríasson, frá fimm börnum. Hann fórst með Svaninum RE 22. desember 1966 ásamt fimm öðrum skipverjum. Svanur RE var gerður út frá Hnífsdal, missir okkar litla samfélags var mikill þennan örlagaríka dag.

Elsku frænka, við erum þakklát fyrir allar góðu stundirnar sem við höfum átt saman. Minning þín lifir í hjörtum okkar.

Við biðjum góðan Guð að vernda og styrkja afkomendur Ingu frænku í þeirra sorg.

Hjördís, Helgi og börn.

Aðfangadagskvöld. Við erum mættar til Maju og Tomma enn eitt árið til að eyða aðfangadagskvöldi með þeim, Friðriki og Ingu, móður Maju. Inga er mætt að sjálfsögðu, fáguð og flott í tauinu eins og venjulega og lítur mjög vel út. Ótrúlegt en satt en þessi kona er orðin níræð. Það sést ekki. Inga er hógvær og hlý, henni liggur lágt rómur og það er gott að vera í návist hennar. Hún hefur það ágætt að hennar sögn. Hún spyr um líðan okkar og fær jákvæð svör. Samræðurnar halda áfram, hversdagslegar umræður um daginn og veginn. Klukkan slær sex. Það eru komin jól. Við setjumst að borðum, ilmurinn af jólasteikinni fyllir húsið. Við borðum vel og í bakgrunni er jólamessan í útvarpinu. Við göngum frá. Það er komið að jólapökkunum. Ekki jafnmikil stemning fyrir þeim og þegar börnin voru lítil en alltaf jafngaman samt. Inga fær margar fallegar gjafir, enda rík af börnum og barnabörnum, þar á meðal föt því börnin hafa gaman af að gefa henni falleg föt sem hún ber svo vel. Eftir að búið er að taka upp allar gjafirnar fáum við okkur eftirrétt, hefðbundinn ananasfrómas, sem Inga kenndi mér að búa til fyrir mörgum árum. Inga er ánægð. Útskrifar mig sem meistara í ananasfrómasgerð. Löngu tímabært en táknrænt að það skuli hafa gerst einmitt á þessum jólum. Kvöldið líður hægt og hljótt og komið að heimför. Þegar við kveðjum segir Inga: „Hafiði það gott, elskurnar.“ Ekki hvarflaði að okkur þá að þetta yrði hennar hinsta kveðja.

Inga var yndisleg kona, ljúf í viðmóti, róleg og yfirveguð og fátt kom henni úr jafnvægi. Hún hafði orðið ekkja ung að árum og sat uppi alein með fimm börn – lífsreynsla og missir sem margar íslenskar konur hafa því miður þurft að upplifa. Hún var hin dæmigerða íslenska kona eins og Ómar Ragnarsson lýsir henni:

Hún bar þig í heiminn og hjúfraði að sér.

Hún heitast þig elskaði og fyrirgaf þér.

Hún ætíð er skjól þitt,

þinn skjöldur og hlíf.

Hún er íslenska konan

sem ól þig og þér helgar sitt líf.

Ó, hún var ambáttin hljóð

hún var ástkonan rjóð

hún var amma svo fróð.

Og loks þegar móðirin lögð er í mold

þá lýtur þú höfði og tár falla á fold.

Þú veist hver var skjól þitt

þinn skjöldur og hlíf.

Það var íslenska konan

sem ól þig og gaf þér sitt líf.

Það er íslenska konan,

tákn trúar og vonar,

sem ann þér og þér helgar sitt líf.

(Ómar Ragnarsson)

Stóll Ingu verður auður um næstu jól. Við munum sakna hennar.

Við sendum börnum Ingu, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabörnum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Jóhanna Kristín Tómasdóttir,

Unnur Svava

Sigurðardóttir.