Sjúkraþjálfun Megn óánægja kom fram á fundi sjúkraþjálfara um uppsögn ákvæðis um bráðameðferðir.
Sjúkraþjálfun Megn óánægja kom fram á fundi sjúkraþjálfara um uppsögn ákvæðis um bráðameðferðir. — Morgunblaðið/Sverrir
Félagsfundur kjaradeildar sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara var haldinn í húsnæði BHM í gær og var húsfyllir.

Félagsfundur kjaradeildar sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara var haldinn í húsnæði BHM í gær og var húsfyllir. Var mikil óánægja með fyrirvaralausa uppsögn Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) á samningsákvæði um bráðameðferðir, sem kom til framkvæmda um áramótin eftir setningu reglugerðar nr. 1189/2013. Með henni er gerð krafa um að skrifleg beiðni læknis um meðferð liggi fyrir áður en SÍ taki þátt í greiðslum.

„Á fundinum kom fram megn óánægja með þau vinnubrögð Sjúkratrygginga Íslands að ákveða með einu pennastriki að fella einhliða úr gildi eitt samningsákvæði í annars gildandi samningi,“ segir Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara. Unnur segir að sjúkraþjálfarar hafi beðið óþreyjufullir eftir endurskoðun samningsins, og því sé uppsögnin nú á stöku ákvæði í honum kornið sem fylli mælinn.

Í ályktun sem samþykkt var á fundinum segir að sjúkraþjálfarar skori á heilbrigðisráðherra að draga kröfuna um að skrifleg beiðni sé forsenda fyrir greiðsluþátttöku SÍ til baka og virða þannig faglegt sjálfstæði sjúkraþjálfara. Þá var þess einnig krafist í ályktuninni að viðræður hæfust tafarlaust um nýjan samning. „Hafi samningar ekki náðst fyrir 1. febrúar 2014 verður hætt að starfa eftir núverandi fyrirkomulagi. Komi til þess, vísar fundurinn ábyrgð á heilbrigðisráðherra um að tryggja sjúkratryggðum endurgreiðslur frá SÍ,“ segir að lokum í ályktuninni. sgs@mbl.is