Reykjavíkurborg rekur lestina í þjónustukönnun

Ekkert byggðarlag á landinu ætti að vera betur í stakk búið til að veita íbúunum skikkanlega þjónustu en Reykjavíkurborg. Þó bregður svo kynlega við að í þjónustukönnun, sem Capacent Gallup gerði og rædd var í borgarráði í gær, rekur höfuðborgin lestina.

Könnunin náði til sextán sveitarfélaga á landinu og lentu Garðabær og Seltjarnarnes oftast í efsta sætinu. Reykjavík lenti í tíunda sæti þegar spurt var hversu ánægðir íbúar þar væru, en hafnaði í því neðsta þegar spurt var um þjónustu við barnafjölskyldur, grunnskóla, leikskóla, við eldri borgara og við fatlaða. Á öllum þessum sviðum ætti Reykjavík í krafti stærðarinnar að hafa burði til þess að veita góða þjónustu og ætti í raun að skara fram úr.

Það segir sína sögu að óánægjan með þjónustuna í borginni nær til allra helstu málaflokka. Niðurstaða könnunarinnar hlýtur að vekja ugg með þeim, sem fara með völdin í borginni, því að skammt er til kosninga. Borgarstjórnarmeirihlutinn getur ekki látið þessa könnun sem vind um eyru þjóta. Niðurstaða hennar er til skammar fyrir borgina og ljóst að ekki verður við unað.