Hátíð Þátttakendur í könnun Capacent voru ekki ánægðir með þjónustu við barnafjölskyldur, til dæmis þjónustu grunnskóla og leikskóla í Reykjavíkurborg. Sömu sögu er að segja um þjónustu við aldraða og fatlað fólk.
Hátíð Þátttakendur í könnun Capacent voru ekki ánægðir með þjónustu við barnafjölskyldur, til dæmis þjónustu grunnskóla og leikskóla í Reykjavíkurborg. Sömu sögu er að segja um þjónustu við aldraða og fatlað fólk. — Morgunblaðið/Ómar
Reykvíkingar eru ekki eins ánægðir með þá þjónustu sem borgin veitir og íbúar flestra annarra sveitarfélaga. Kemur það fram í könnun sem Capacent Gallup gerði á viðhorfi íbúa sextán sveitarfélaga.

Reykvíkingar eru ekki eins ánægðir með þá þjónustu sem borgin veitir og íbúar flestra annarra sveitarfélaga. Kemur það fram í könnun sem Capacent Gallup gerði á viðhorfi íbúa sextán sveitarfélaga. Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar benda á að borgin komi mun betur út í þjónustukönnunum sem hún láti sjálf gera.

Garðabær og Seltjarnarnes koma oftast best út í könnun Capacent Gallup, þegar sveitarfélögin sextán eru borin saman.

82% þátttakenda úr Reykjavík sögðust ánægð með Reykjavík sem búsetustað. Íbúar níu sveitarfélaga gefa sínu byggðarlagi betri einkunn.

35% íbúa Reykjavíkur eru óánægð með skipulagsmál í borginni og aðeins 30% ánægð. Íbúar þrettán sveitarfélaga eru ánægðari með skipulagsmálin í sinni heimabyggð.

Slök þjónusta

Almennt kemur Reykjavík illa út úr mati á þjónustu borgarinnar við íbúana. Þegar spurt er um þjónustuna í heild, út frá reynslu þátttakenda og áliti, hafnar borgin í 14. sæti. 54% þátttakenda segjast ánægð með þjónustuna. Mesta ánægjan er í Garðabæ og á Seltjarnarnesi.

Útkoma Reykjavíkur er ekki góð þegar spurt er um þjónustu við barnafjölskyldur. 38% þátttakenda í borginni segjast ánægð en 24% óánægð. Reykjavík er í neðsta sæti ásamt Árborg þegar sveitarfélögin eru borin saman.

Helmingur þátttakenda er ánægður með þjónustu grunnskóla í borginni. Íbúar allra hinna sveitarfélaganna eru ánægðari með sína grunnskóla. Garðbæingar og Seltirningar eru ánægðastir. Svipuð niðurstaða er varðandi þjónustu leikskóla og Reykjavík er á botninum.

68% segjast ánægð með aðstöðu til íþróttaiðkunar í Reykjavík. Mesta ánægjan er í Vestmannaeyjum en minnst í Borgarbyggð. Reykjavík er í næst neðsta sæti.

Fram kemur óánægja með þjónustu við eldri borgara og fatlað fólk í Reykjavík. Reykjavíkurborg er í langneðsta sæti í þessum tveimur flokkum í samanburði sveitarfélaganna.

Sorgleg staðreynd

Þjónustukönnunin var rædd á fundi borgarráðs í gær. Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði eftir fundinn að í könnuninni kæmi fram sorgleg staðreynd. „Af þessum samanburði við önnur sveitarfélög sést að Reykjavíkurborg veitir að mati borgarbúa ófullnægjandi þjónustu og ekkert sveitarfélag fær neðsta sætið jafn oft og Reykjavík.“

Þarfar ábendingar

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar segja athyglisvert að um langa hríð hafi verið ósamræmi milli þjónustukannana Reykjavíkurborgar og þjónustukönnunar Capacent. Í bókun sem þeir gerðu á borgarráðsfundinum er vakin athygli á því að kannanir Reykjavíkurborgar spanni rúmlega áratug og séu með margfalt stærra úrtak. Þar komi Reykjavík vel út, til dæmis í þjónustu leikskóla, grunnskóla og frístunda og ánægja foreldra hafi verið vaxandi frekar en hitt.

Viðurkenna borgarfulltrúarnir þó að vísbendingar komi fram í könnun Capacent sem fyllsta ástæða sé til að rýna betur með tilliti til úrbóta. „Á heildina litið hækkar Reykjavík eilítið á milli ára í þjónustukönnun Capcent sem er vel og mikilvægt að horfa til þarfra ábendinga svarenda um það sem betur má fara í Reykjavík.“ helgi@mbl.is, andri@mbl.is

Framkvæmd
» Könnun Capacent var gerð í nóvember.
» Liðlega 10 þúsund voru í úrtaki, um allt land. Aðeins rúmlega helmingur svaraði, eða 5.363 þátttakendur. Þar af voru 947 úr Reykjavík.
» Niðurstöðurnar voru bornar saman við 15 önnur sveitarfélög.