Stigahæstur Earnest Clinch fór mikinn í liði Grindavíkur í sigrinum á KR. Hann var stigahæstur Grindvíkinga með 34 stig og sýndi oft lipra takta.
Stigahæstur Earnest Clinch fór mikinn í liði Grindavíkur í sigrinum á KR. Hann var stigahæstur Grindvíkinga með 34 stig og sýndi oft lipra takta. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Vesturbænum Kristinn Friðriksson kiddigeirf@gmail.com Fyrsti stórleikur 2014 fór fram í gærkveldi þegar Grindvíkingar, sem voru í fjórða sæti fyrir leikinn, heimsóttu taplausa KR-inga.

Í Vesturbænum

Kristinn Friðriksson

kiddigeirf@gmail.com

Fyrsti stórleikur 2014 fór fram í gærkveldi þegar Grindvíkingar, sem voru í fjórða sæti fyrir leikinn, heimsóttu taplausa KR-inga. Fyrir leikinn höfðu gárungar í heitum pottum vesturbæjarlauganna spekúlerað um þá bölvun sem virðist fylgja þeim liðum sem komast yfir á nýtt ár taplaus. Ég aðhyllist enga hjátrú, þó svo að ég neiti alfarið að nota ostaskera á öðrum miðvikudegi í þorra, en þessi tiltekna íþróttahjátrú styrktist verulega í gærkveldi því Grindvíkingar unnu góðan sigur á KR í vægast sagt kaflaskiptum leik; 105:98, og hafa með þeim sigri gert deildina enn meira spennandi.

Grindvíkingar byrjuðu leikinn vel og hina frægu 2013-vörn KR var hvergi að sjá. Leikmenn beggja liða komu vel gíraðir í sínum sóknarleik; hittni var góð, leikmenn ákveðnir í gegnumbrotum og alveg óragir í sínum ákvarðanatökum. KR-ingar voru aldrei langt undan og áttu frábæran kafla í fyrri hálfleik sem þeir fylgdu ekki nægilega vel eftir og þetta varð til þess að gestirnir voru með þægilega forystu í hálfleik, 51:42. Strax í upphafi seinni hálfleiks náðu hinsvegar KR-ingar að snúa leiknum alveg 360°. Vörnin small saman og þriðji hluti fór 31:19! Eftir afar jafnar mínútur í 4. hluta náðu Grindvíkingar að læðast í forystu og grunlausir heimamenn virtust ekki alveg átta sig á því þegar gestirnir sigu framúr fyrr en alltof seint; það verður hinsvegar ekki tekið af þeim að þeir börðust mjög vel í lokin og með smá NBA-heppni hefðu þeir getað jafnað og/eða unnið.

Grindvíkingar áttu skilið að vinna þennan leik; leikmenn sýndu mikla baráttu og náðu að rétta úr kútnum á ögurstundu og klára síðustu mínúturnar af ákveðni og liðsstyrk. Vörnin var aldrei góð, ekkert frekar en heimamanna, en sóknarstyrkurinn og sigurviljinn var meiri. Earnest Clinch var frábær, sem og Sigurður Þorsteinsson en Jóhann, Þorleifur, Ómar og Ólafur skiluðu allir rúmlega í verkið. Með sigrinum hafa Grindvíkingar sett deildina í háspennugír og eru til alls líklegir þó svo að mig gruni að varnarrennslið verði eitthvað æft næstu daga á kostnað nefrennslisins.

Leikurinn var skemmtilegur; bæði lið sýndu góða sóknartakta og úr varð áhorfendavænt sjónarspil. KR-ingar náðu alls ekki þeim varnartakti sem hefur fleytt þeim taplausum inn í nýtt ár og það sást langar leiðir að ósigurinn var þeim þungur en eitthvað varð undan að láta að lokum og það þurfti vissulega fantagott lið til að hrifsa fyrstu stigin af þeim. Grindvíkingar sýndu með þessum sigri að þeir eru og verða skeinuhættir í úrslitakeppninni; Clinch er klárlega góður leikmaður og er af þeirri gerð sem getur gert agalegan usla á móti hvaða liði sem er í deildinni. KR-ingar hafa að sama skapi bragðað biturleika ósigurs og þurfa að finna sinn takt aftur eftir langt jólafrí. Sóknarleikur beggja liða var yndislegur á að horfa á löngum köflum; nýting frábær hjá báðum liðum, sem og grimmdin í gegnumbrotunum. Það má alveg skrifa ósigur KR á vítanýtinguna en það væri ódýrt þar sem einnig væri hægt að telja til nokkur dýr mistök í fyrri hálfleik. Þegar öllu er hinsvegar á botninn hvolft verður að segjast að KR var lélegra liðið heilt yfir og því fór sem fór.

KR – Grindavík 98:105

DHL-höllin, úrvalsdeild karla, Dominos-deildin, fimmtudag 9. janúar 2014.

Gangur leiksins : 4:7, 12:14, 17:20, 20:25 , 26:25, 36:30, 38:39, 42:51, 52:55, 61:55, 66:64, 73:70 , 75:77, 80:81, 83:88, 98:105 .

KR: Pavel Ermolinskij 24, Martin Hermannsson 21/7 stoðsendingar, Helgi Már Magnússon 16/8 fráköst/6 stoðsendingar, Darri Hilmarsson 14/8 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 10, Ingvaldur Magni Hafsteinsson 7/4 fráköst, Terry Leake Jr. 6/5 fráköst.

Fráköst: 23 í vörn, 7 í sókn.

Grindavík: Earnest Lewis Clinch Jr. 34/6 fráköst/7 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 24/12 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 17, Ómar Örn Sævarsson 14/8 fráköst, Ólafur Ólafsson 11/7 fráköst, Þorleifur Ólafsson 3, Jón Axel Guðmundsson 2.

Fráköst: 29 í vörn, 9 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Jón Guðmundsson, Jón Bender.