Óvissa Frábært að komast í milliriðil, segir Hrafnhildur Skúladóttir.
Óvissa Frábært að komast í milliriðil, segir Hrafnhildur Skúladóttir. — Morgunblaðið/Ómar
„Það er ekki hægt að gera miklar kröfur til landsliðsins fyrir þetta mót. Margir leikmenn glíma við meiðsli og síðan eru óreyndari leikmenn að koma inn í hópinn, sem er reyndar mjög jákvætt.

„Það er ekki hægt að gera miklar kröfur til landsliðsins fyrir þetta mót. Margir leikmenn glíma við meiðsli og síðan eru óreyndari leikmenn að koma inn í hópinn, sem er reyndar mjög jákvætt. Það er frábært að möguleiki er á að gefa nýjum mönnum tækifæri,“ segir Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, fyrrverandi fyrirliði kvennalandsliðsins í handknattleik og burðarás í bikarmeistaraliði Vals.

„Stundum er það nú þannig að þegar væntingarnar eru litlar kemur liðið á óvart og vonandi verður það núna þótt ég sé hæfilega bjartsýn. Það verður samt gaman að fylgjast með strákunum eins og venjulega, “ segir Hrafnhildur Ósk.

„Það væri frábær árangur hjá liðinu að komast upp úr riðlinum og upp í milliriðla,“ segir Hrafnhildur og telur að úrslit viðureignarinnar við Norðmenn í fyrstu umferð á sunnudag muni hafa mikið að segja fyrir framhaldið.

Möguleiki gegn Ungverjum

„Ég tel okkur ekki eiga möguleika gegn Spáni og því liggja möguleikar okkar á að komast áfram í hagstæðum úrslitum í leikjunum við Noreg og Ungverjaland. Það er möguleiki á að vinna Ungverja núna þegar þeir verða án László Nagy.

Viðureignir Íslendinga og Norðmanna á stórmótum eru alltaf jafnar og erfitt að segja til um úrslit fyrirfram,“ segir Hrafnhildur og bætir við að það geri enn erfiðara en ella að spá í spilin vegna þess að ekki liggur endanlega fyrir hvernig íslenska landsliðið verður skipað þegar á hólminn verður komið.

Hrafnhildur Ósk fylgdist með leikjum íslenska landsliðsins á mótinu í Þýskalandi um síðustu helgi og þótt síðasti leikurinn, við Þjóðverja, hafi ekki gengið sem best hafi hinar tvær viðureigninnar verið jákvæðar.

„Landsliðið kom mér á óvart í tveimur fyrstu leikjum sínum á mótinu í Þýskalandi um síðustu helgi. Liðið lék alveg frábæran sóknarleik og þeir litu virkilega vel út enda kunna þeir allir handbolta, á því leikur enginn vafi. Ef vörnin og markvarslan smellur þá getur ýmislegt gerst. Síðan hefur trúin mikið að segja, það að menn trúi að þeir geti unnið og náð langt,“ segir Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, hin þrautreynda handknattleikskona úr Val. iben@mbl.is