Guðrún Matthildur Valhjálmsdóttir fæddist í Reykjavík 7. nóvember 1924. Hún lést á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi 2. janúar 2014.

Foreldrar hennar voru Matthildur Kristín Guðbjartsdóttir og Valhjálmur Guðmann Pétursson. Bræður Guðrúnar sammæðra voru Guðjón Kristinn og Kristmann. Þeir eru báðir látnir. Eftirlifandi systkini Guðrúnar Matthildar, samfeðra, eru Ásgeir og Ásta.

Guðrún Matthildur giftist árið 1948 Gunnari Pálma Björnssyni, f. 23. janúar 1924, d. 18. júlí 1983. Foreldrar Gunnars Pálma voru Þorbjörg Björnsdóttir og Björn Pálmi Sigurðsson. Dóttir Guðrúnar og Gunnars er Matthildur Þorbjörg sálfræðingur, fædd 1959, maki Örn Sigurður Einarsson tölvunarfræðingur, f. 1953. Börn þeirra eru: 1. Guðrún Matthildur leikskólakennari, f. 1980, maki Snorri Ólafur Snorrason, f. 1980. Börn: Sóley Kristín, f. 2004, d. 2004. Gunnar Pálmi, f. 2005. Arndís Ólafía, f. 2007. Baltasar Örn, f. 2012. 2. Erla Sigríður líftækninemi, f. 1984, maki Jón Oddur Jónsson. 3. Vigdís Rún menntaskólanemi, f. 1996. Sonur Arnar er Lúðvík Emil stýrimaður, f. 1975, maki Eygló Sigurðardóttir.

Þau Guðrún Matthildur og Gunnar Pálmi bjuggu í mörg ár á Ólafsfirði. Guðrún rak þar um tíma verslun og starfaði einnig við saumaskap. Gunnar Pálmi stundaði sjómennsku og útgerð ásamt bróður sínum Sigurbirni. Árið 1966 fluttu þau Guðrún og Gunnar til Reykjavíkur og bjuggu á Brávallagötu 18. Guðrún var húsmóðir en stundaði einnig vinnu utan heimilis, lengst af við Elli- og hjúkrunarheimilið Grund í Reykjavík. Síðustu árin bjó Guðrún á Lindargötu 57 en frá því í lok júní á síðasta ári var hún búsett á Hrafnistu í Reykjavík.

Útför Guðrúnar Matthildar fer fram frá Seljakirkju í dag, 10. janúar 2014, kl. 13.

Elskuleg móðir mín, Guðrún Matthildur, lést hinn 2. janúar sl. Við andlát hennar koma upp í hugann margar minningar um yndislega og hæfileikaríka móður sem lét sér alltaf mjög annt um fjölskyldu sína. Móðir mín var glæsileg kona, gjafmild, glaðlynd, létt á fæti og sat aldrei auðum höndum. Hún var listræn og einstaklega flink í höndunum. Hún og faðir minn voru mjög samrýnd og voru umhyggjusamir foreldrar. Það var mikið áfall þegar faðir minn féll frá langt um aldur fram en ég hef trú á því að hann taki vel á móti mömmu á nýjum stað. Síðustu ár var heilsa móður minnar ekki eins góð og áður og hún bjó síðustu sex mánuðina á Hrafnistu í Reykjavík. Hún var þakklát fyrir góða umönnun á Hrafnistu, þrátt fyrir að sú breyting að flytja á hjúkrunarheimili hafi verið henni erfið. Móðir mín hafði fram á síðasta dag gott minni, hún las blöðin daglega og fylgdist með því sem var að gerast í þjóðfélaginu. Hún var líka dugleg að hringja í fjölskyldu sína og var umhugað um að allir hefðu það sem best. Það verður tómlegt að fá ekki lengur símhringingar frá henni og erfitt að sætta sig við að hún sé ekki lengur hjá okkur. Þrátt fyrir háan aldur átti ég ekki von á því að hún myndi kveðja okkur svona fljótt. Ég er þakklát fyrir þær yndislegu stundir sem fjölskyldan átti með henni núna um jól og áramót en þegar hún var síðast hjá okkur í heimsókn, núna á gamlárskvöld, var hún sérlega hress og naut kvöldsins vel.

Við kveðjum elskulega móður mína og tengdamóður í dag með miklum söknuði og þökkum henni fyrir allt.

Matthildur og Örn.

Amma mín, Guðrún Matthildur Valhjálmsdóttir, lést 2. janúar síðastliðinn. Í dag kveð ég hana með miklum söknuði. Ég er þakklát fyrir allar þær yndislegu samverustundir sem við áttum og fyrir allar þær góðu minningar sem ylja hjarta mitt á þessum erfiðu tímum. Það er svo skrítið að hún skuli ekki vera hérna lengur, brosmild og með hlýjan faðm, sérstaklega í ljósi þess hversu hress hún var aðeins tveimur dögum áður. Minningar frá gamlárskvöldi á ég þó í hjarta mínu, hvernig hún lék sér við langömmubörnin, hló og spjallaði og var upp á sitt besta. Ég er líka svo þakklát fyrir hversu vel við kvöddumst þetta kvöld en það var eins og við var að búast því amma kvaddi alltaf svo vel og innilega.

Ég á líka margar minningar frá því ég var lítil. Amma var svo létt á fæti og alltaf til í leik og sprell. Hún var mikið fyrir að ferðast og vildi alltaf hafa eitthvað fyrir stafni, sem hentaði mér einstaklega vel. Þolinmæði átti hún mikið af því það vita þeir sem þekkja mig að ég var fjörugt og orkumikið barn. Amma var nú ekki mikið að kippa sér upp við það að það fylgdu mér mikil læti og hamagangur eða þegar ég glamraði á orgelið í stofunni nágrönnum hennar til mikils ama. Já, elsku amma mín, það er svo margs að minnast. Hún var alltaf svo falleg og vel tilhöfð, allt fram á síðasta dag. Áður en við héldum á vit ævintýranna setti hún alltaf á sig varalit, slæðu og ilmvatn og bauð alltaf með sér. Svo héldum við af stað í okkar fínasta pússi. Oft var erindið að kaupa eitthvað fallegt handa mér og systrum mínum því amma elskaði fátt meira en að gefa gjafir og gleðja þá sem henni þótti vænt um. Amma var líka mikill listamaður. Hún lærði skrautskrift, glerlist, myndlist og postulínsmálun og það eru ófáir hlutir sem hún hefur búið til sem eru okkur ómetanlegir minjagripir. Ég man líka eftir hversu gaman var að fara í matarboð til hennar ömmu. Hún var listakokkur og töfraði fram dýrindismáltíðir og man ég þá sérstaklega eftir eftirréttunum sem við systurnar máttum fá okkur ríkulega af. Svo átti amma alltaf mola í skál sem litlir fingur fengu að lauma sér í.

Nú er amma komin til hans afa og þau eru saman á ný, sameinuð eftir 30 ára aðskilnað. Ég veit að söknuðurinn var mikill og það er huggun harmi gegn að vita af þeim saman tveimur með hana Sóleyju Kristínu sér við hlið.

Elskulega amma mín, ég kveð þig í hinsta sinn, þúsund kossar.

Guðrún Matthildur.

Til ömmu.

Það er erfitt að hugsa til þess að hún kæra amma mín sé farin frá okkur.

Hún var alltaf svo hlý og góð og margar dýrmætar minningar sem koma upp í hugann þegar ég hugsa til baka.

Það var alltaf mikil tilhlökkun að koma til ömmu á Brávallagötu. Hún átti alltaf eitthvað gott sem hún bauð upp á og þar var hægt að hafa nóg fyrir stafni, það var svo margt ævintýralegt að sjá og gera, bækur og spil frá því að mamma var lítil og svo gamla orgelið. Amma virtist hafa óendanlega þolinmæði þegar maður glamraði á orgelið og áttum við ófáar stundir fyrir framan það, þar sem við sátum saman, spiluðum og sungum.

Við amma áttum margar góðar stundir saman sem hlýja mér um hjartarætur á þessum erfiða tíma.

Elsku amma, nú kveðjum við þig, ég er þakklát fyrir að hafa haft þig hjá okkur og eigum við eftir að sakna þín mikið.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Erla og Jón Oddur.

Elsku amma mín, það er svo erfitt að trúa því að þú sért farin frá mér. Þú varst alltaf svo glöð og alltaf svo góð við alla. Ég á ótal margar góðar minningar um þig. Þú varst svo dugleg að spila við mig og það var svo gaman að koma í heimsókn til þín. Þú bauðst alltaf upp á gott í munninn, brjóstsykur eða súkkulaðimola. Ég sakna þín, elsku amma mín, og geymi allar góðu minningarnar um þig í hjarta mínu.

Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð

hjartans þakkir fyrir liðna tíð

lifðu sæl á ljóssins friðarströnd,

leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.

(Guðrún Jóhannsdóttir)

Vigdís Rún.

Þeim fækkar stöðugt sem settu svip sinn á bernskuumhverfi okkar. Það er gangur lífsins og nú hefur hún Guðrún okkar kvatt þessa jarðvist.

Hugurinn hverfur aftur til þess tíma er afi Björn og amma Þorbjörg bjuggu í Miðhúsum í Ólafsfirði. Þar hittist stórfjölskyldan og þær minningar eru dýrmætar. Við, elstu barnabörn afa og ömmu, munum vel þegar Gunnar föðurbróðir okkar kom heim til Ólafsfjarðar með konuna sína, hana Guðrúnu. Hún var glæsileg Reykjavíkurmær, afskaplega flott í tauinu, þótti okkur, og mikil indælismanneskja.

Guðrún og Gunnar byrjuðu búskap sinn á Brimnesveginum en eignuðust síðar fallegt tvílyft hús við Aðalgötuna. Okkur systkinunum þótti þetta hús alltaf svolítið ævintýralegt. Sunnanundir húsinu var fallegur garður með hávöxnum trjám og þreifst gróðurinn vel þrátt fyrir norðangarrann.

Gunnar frændi átti hlut í útgerð og stundaði sjóinn en Guðrún var saumakona að atvinnu. Hún var ekki aðeins skapandi og flink í sínu fagi heldur hafði hún einnig gott auga fyrir því hvað klæddi konur best. Guðrún rak vefnaðarvöruverslun, Verslunina Lín, í nokkur ár ásamt Rögnu Pálsdóttur. Þar naut fagmennska hennar sín vel.

Elsta stúlkan í okkar systkinahópi minnist með gleði allra kjólanna sem Guðrún saumaði á hana. Hún kenndi henni líka að spila á gítar og fleira væri hægt að telja.

Mikil vinátta var ætíð milli foreldra okkar og Guðrúnar og Gunnars. Til þeirra var ávallt gott að koma og okkur systkinum eru ofarlega í minni skemmtilegu jólaboðin í fallega húsinu þeirra.

Eftir margra ára búsetu í Ólafsfirði fluttu Guðrún og Gunnar til Reykjavíkur ásamt Matthildi einkadóttur sinni. Áfram hélst þessi góða vinátta milli fjölskyldnanna og í heimsóknum á Brávallagötuna mætti okkur ómæld gestrisni og hlýja. Við systkinin áttum þar athvarf um lengri eða skemmri tíma þegar við, eitt af öðru, fórum suður til náms.

Gunnar frændi varð bráðkvaddur aðeins 59 ára gamall og var það mikið áfall fyrir Guðrúnu og Matthildi, og okkur öll. Matthildur og Örn, maður hennar, hafa reynst Guðrúnu vel og verið henni stoð og stytta ásamt dætrunum. Langömmubörnin voru Guðrúnu miklir gleðigjafar. Eftir lát Gunnars bjó Guðrún áfram á Brávallagötunni. Um tíma bjó hún á Lindargötu 56, en hennar síðasta heimili var á dvalarheimilinu Hrafnistu.

Á kveðjustund er okkur systkinunum efst í huga þakklæti og væntumþykja. Við sendum Matthildi frænku okkar og fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð veri minning þeirra heiðurshjóna Guðrúnar Matthildar Valhjálmsdóttur og Gunnars Pálma Björnssonar.

Kristín Björg, Óskar Þór, Ásta, Gunnar og Sigurlína.