Öflugur Bjarte Myrhol er geysisterkur línumaður og er auk þess lykilmaður í vörn Norðmanna.
Öflugur Bjarte Myrhol er geysisterkur línumaður og er auk þess lykilmaður í vörn Norðmanna. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Noregur Ívar Bendiktsson iben@mbl.is Norska landsliðið í handknattleik karla hefur lengi staðið í skugganum af landsliðum Danmerkur, Íslands og Svíþjóðar á stórmótum.

Noregur

Ívar Bendiktsson

iben@mbl.is

Norska landsliðið í handknattleik karla hefur lengi staðið í skugganum af landsliðum Danmerkur, Íslands og Svíþjóðar á stórmótum. Svo ekki sé minnst á norska kvennalandsliðið sem hefur verið í fremstu röð í nærri þrjá áratugi og borið hróður norsks handknattleiks víða um heim.

Hvenær tekst karlalandsliðinu loksins að brjóta ísinn og komast í fremstu röð? Það getur verið að nú sé að renna upp tími þess. Svíinn Robert Hedin hefur haldið um stjórnartaumana frá árinu 2009. Hann hefur hægt og bítandi verið að byggja upp liðið. Nú er svo komið að sjaldan hefur norska landsliðið átt jafnmarga einvala handknattleiksmenn í karlaflokki og nú. Landsliðið fór á kostum í haust á móti á heimavelli og tók m.a. Evrópumeistarana Dani í karphúsið og vann þá í fyrsta sinn í sex ár.

Aldrei eins erfitt að velja liðið

„Það hefur aldrei verið eins erfitt fyrir mig að velja átján leikmenn til æfinga og nú á þeim tíma sem ég hef verið landsliðsþjálfari,“ sagði Hedin í samtali við norska fjölmiðla þegar hann tilkynnti val á átján leikmönnum til æfinga skömmu fyrir jólin. „Að þessu sinni hef ég toppmenn í allar stöður á leikvellinum og ég hef trú á að nú séum við komnir með lið sem getur náð langt á stórmóti í handknattleik, ef ekki núna í Danmörku þá á allra næstu árum,“ sagði Hedin ennfremur.

Brotlending í Frakklandi

Afturkippur kom í undirbúning norska landsliðsins um síðustu helgi þegar það brotlenti á móti í Frakklandi. Eftir góðan fyrri hálfleik og forystu gegn Dönum þá fékk það skell í síðari hálfleik og tapaði með 12 marka mun, 34:22. Daginn eftir varð norska liðið fyrir öðru áfalli þegar það tapaði fyrir Katar. Spurningin er sú hvað þessir leikir hafa að segja fyrir liðið í síðustu vikunni í undirbúningi þess fyrir EM. Sært ljón er hættulegra en ósært. Það skulu menn hafa í huga þegar sest verður niður til þess að fylgjast með upphafsleik Íslendinga og Norðmanna á sunnudag.

Kjelling loks heill heilsu

Hedin fagnar mjög að loksins virðist hinn frábæri handknattleiksmaður Kristian Kjelling vera heill heilsu og geta einbeitt sér að því að spila með norska landsliðinu af fullum krafti á stórmóti. Hann meiddist þó um liðna helgi en óvíst er hvort það séu alvarleg meiðsli.

Bjarte Myrhol er frábær línumaður sem er illviðráðanlegur en einnig er hann framúrskarandi varnarmaður. Erlend Mamelund og Börge Lund eru hoknir af reynslu og hafa oft reynst íslenska liðinu erfiðir. Håvard Tvedten er framúrskarandi hornamaður auk þess sem vera einn besti hraðaupphlaupsmaður heims.

Erevik aldrei betri í markinu

Glöggir menn telja markvörðinn Ole Erevik aldrei hafa verið betri en um þessar mundir. Hann hefur tekið við stöðu aðalmarkvarðar eftir að Steinar Ege hætti. Ege er þó ekki langt undan því hann er markvarðaþjálfari landsliðsins og miðlar til eftirmanna sinna af mikilli reynslu. Erevik hefur einnig átt í meiðslum síðustu daga og var t.d. ekki í marki norska liðsins á Parísarmótinu um liðna helgi.

Vert er að gefa þremur ungum leikmönnum norska landsliðsins góðan gaum. Það eru Christian O'Sullivan, Sander Sagosen og Magnus Gullerud.

Mesta efni Norðmanna

Sagosen er fæddur 1995 og er talinn vera mesta efni sem fram hefur komið í norskum handknattleik um langt skeið. Sagosen er undir smásjá margra stórliða og ekki er ósennilegt að hann fari fljótlega frá Haslum í heimalandi sínu. Hann er leikstjórnandi en einnig frábær skytta sem virðist hafa tekið út mikinn þroska þrátt fyrir ungan aldur. „Ekki aðeins hefur Sagosen möguleika á að verða besti leikmaður Noregs heldur hefur hann alla burði til þess að verða einn besti leikmaður heims,“ sagði Hedin og sparaði síst stóru orðin um þennan unga handknattleiksmann fyrir skömmu.

Gullerud er heljarmenni að burðum sem bindur vörnina saman ásamt Myrhol.

Vel studdir í Álaborg

Ástæða er til þess að taka Norðmenn af fullri alvöru að þessu sinni á EM. Auk þess að vera með harðsnúið lið þá er ljóst að þeir munu fá góðan stuðning í Álaborg. Norðmenn hyggjast fjölmenna á leikina og þeir styðja vel við bakið á sínum mönnum. Það verður því ekki auðvelt fyrir íslenska landsliðið að mæta því norska í upphafsleik B-riðils. Auk þess eiga Norðmenn harma að hefna gegn Íslendingum eftir að hafa setið eftir með sárt ennið að lokinni riðlakeppninni á EM fyrir tveimur árum á markatölu fyrir eintóma góðmennsku Slóvena.