Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir
Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir
Niðurstöður í viðamikilli rannsókn Guðbjargar Ástu Ólafsdóttur, forstöðumanns við Rannsóknasetur Háskóla Íslands í Bolungarvík, sýna stofnhrun í þorski við upphaf 16. aldar og áframhaldandi fækkun í stofninum allt fram til okkar tíma.

Niðurstöður í viðamikilli rannsókn Guðbjargar Ástu Ólafsdóttur, forstöðumanns við Rannsóknasetur Háskóla Íslands í Bolungarvík, sýna stofnhrun í þorski við upphaf 16. aldar og áframhaldandi fækkun í stofninum allt fram til okkar tíma. Í þessum rannsóknum studdist hún við bein sem komu upp við fornleifagröft í fornum og yfirgefnum verbúðum víða um land.

Í fréttatilkynningu frá Háskóla Íslands kemur fram að niðurstöður rannsóknanna hafi birst í vikunni í vísindatímaritinu Royal Society's Proceedings B, en ritið mun vera eitt það virtasta í veröldinni á sviði líffræði.

Þá kemur fram að Guðbjörg Ásta sé með fyrstu vísindamönnum í veröldinni sem rannsaki með beinum hætti breytingar í dýrastofni yfir svo langt tímabil og tengi við umhverfisbreytingar. Niðurstöðurnar hafi umtalsverða þýðingu fyrir fiskveiðistjórnun enda sýni þær að miklar breytingar geti orðið í þorskstofninum á tiltölulega stuttu tímabili, jafnvel án áhrifa iðnvæddra veiða. sgs@mbl.is