Unnur María Hersir var fædd í Reykjavík 9. mars 1929. Hún lést á Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi 30. desember 2013.

Foreldrar hennar voru Helga Emilie Pedersen Hersir, frá Danmörku, f. 16.6. 1896, d. 24. júlí 1956, og Guðmundur Júlíus Brynjólfsson Hersir bakarameistari, f. í Reykjavík 19.7. 1894, d. 6.7. 1971.

Helga og Guðmundur eignuðust fimm dætur, þær voru: Ása Hersir Eriksen, f. 1920, Sigríður Hersir Ödegard, f. 1924, Bryndís Hersir Lund, f. 1927, Halla Hersir, f. 1927, og Unnur, nú er þær allar látnar. Fyrir átti Guðmundur soninn Sigurþór Hersi sem einnig er látinn.

Unnur giftist Jóhanni Stefánssyni frá Merki, Jökuldal, þau skildu.

Unnur eignaðist fjögur börn: 1. Guðmundur Brynjólfur Hersir Sergi, f. 21.10. 1957, d. 21.7. 2012. 2. Helga Jóhannsdóttir, f. 19.2. 1961, búsett á Egilsstöðum, gift Þórarni Hrafnkelssyni. 3. Hjörtur Jóhannsson, f. 6.5. 1963, búsettur á Egilsstöðum, kvæntur Ernu Jónsdóttur. Þeirra börn: 3.a. Róbert Örn Davíðsson, f. 18.2. 1984, kvæntur Gyðu Dögg Sigurðardóttur, þeirra sonur er Daníel Orri Róbertsson, f. 1.9. 2011. 3.b. Jakob Þór Davíðsson, búsettur í Bandaríkjunum, f. 9.2. 1986. 3.c. Pétur Már Hjartarson nemi, f. 10.9. 1994. 4. Ása Jóhannsdóttir, f. 16.11. 1965, garðyrkjufræðingur, búsett í Reykjavík, gift Sigurði Guðjónssyni flugvirkja, þeirra börn: 4.a. Guðjón Orri Sigurðarson, f. 31.3. 1998. 4.b. Unnur Þyrí Sigurðarson, f. 30.9. 1999. 4.c. Jóhann Örn Sigurðarson, f. 9.6. 2006. Fyrir átti Sigurður soninn Birki Sigurðarson, nema, f. 18.9. 1985.

Unnur María ólst upp í miðbæ Reykjavíkur, hún lauk grunnskólaprófi en fór eftir það í vist. Árið 1948 fór Unnur ásamt systur sinni Bryndísi til Danmerkur, heimalands móður sinnar, og störfuðu þær við ýmis þjónustustörf. Tveimur árum síðar kemur Unnur heim og vann næstu ár í Pennanum ásamt því að hugsa um veika móður sína. Haustið 1958 fór hún í vist til Egilsstaða, kynnist þar mannsefni sínu Jóhanni, giftist og hefja þau búskap á Egilsstöðum. Þegar þau skilja flytur Unnur aftur suður.

Unnur bjó lengi í Hátúni 10, en 2002 flutti hún í þjónustuíbúð í Seljahlíð þar sem hún bjó til dauðadags.

Úför Unnar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 10. janúar 2013, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku mamma mín. Nú ert þú búin að fá langþráða hvíld og gleðst ég fyrir þína hönd að nú sértu laus við þína sjúkdóma og vanlíðan en í leiðinni græt ég það að sjá þig ekki aftur.

Alltaf hefur mér þótt óendanlega vænt um þig en okkar samskipti eru mikið smituð af þínum geðsjúkdómi sem ég sem krakki og unglingur hafði ekki mikinn skilning á og á tímum hræddist þig og þín viðbrögð við ýmsu áreiti.

Síðan ég flutti suður, fyrir 28 árum, hefur þú alltaf leitað til mín þegar eitthvað hefur bjátað á. Við áttum líka skemmtilegar stundir, þar sem við mættumst sem jafnokar en síðustu u.þ.b. 15 árin hef ég samt verið þinn umönnunaraðili, en þá tóku veikindi þín sig aftur upp og varstu í mikilli vanlíðan um tíma. Ég sé ekki eftir einni mínútu af þeim tíma sem ég hef varið með þér, vissulega hefði verið skemmtilegra að þessar stundir væru ekki svona margar innan veggja spítalanna en svona var þetta.

Mér er svo minnisstætt að stuttu eftir að ég flutti suður þá tók ég þá ákvörðun að þið Gummi, með ykkar sjúkdóma og eins vænt og mér þótti um ykkur, mættuð ekki stjórna lífi mínu, með það í huga hef ég samt reynt að hugsa eins vel um þig og hægt var. Um svipað leyti og heilsu þinni hrakaði þá eignaðist ég mína fjölskyldu, Guðjón og Unnur fæddust með 18 mánaða millibili og samfara því þá var minni tími eftir til að sinna þér og Gumma bróður. Aldrei heyrði ég þig kvarta undan fáum heimsóknum, heldur var alltaf skilningur á því að ég tæki það framyfir að þeysast á fótboltamót, skátamót eða hvað svo sem börnin tóku sér fyrir hendur.

Við börnin þín og barnabörnin vorum þitt líf og yndi, það var einlæg gleði þegar eitthvert barna minna kom með til þín og um leið athugaðir þú hvort þú gætir ekki boðið uppá eitthvað því gjafmild varstu með eindæmum. Alltaf var passað uppá að allir fengju sínar afmælis- og jólagjafir, þú hafðir kannski ekki alltaf sama smekk og afmælisbörnin en hugurinn var svo sannarlega til staðar.

Þó allir þínir afkomendur væru þér kærir þá átti Gummi stað í hjarta þínu sem enginn annar komst á. Sorgin var því mikil þegar Gummi varð bráðkvaddur í júlí 2012. Nú gleðst ég yfir því að þið eruð saman á ný.

Þú varst ótrúlega góð og heiðarleg manneskja, trúðir sterkt á Guð og Jesú og var Hjálpræðisherinn þinn vettvangur. Nánast fram á síðasta dag fórstu á Herinn í hverri viku, dugnaðurinn og eljan í þér vakti eftirtekt hjá mörgum. Klár varstu og þegar komu heimsóknir t.d. frá Noregi þá skiptir þú um tungumál eins og ekkert væri. Einnig var gaman að því að fyrir hrun þá var mikið af erlendu fólki að vinna við aðhlynningu aldraðra, þú spjallaðir við þetta fólk á ensku og varst alsæl með fjölbreytnina á meðan aðrir kvörtuðu. Gamlar vinkonur hafa alltaf talað um hve kát og skemmtileg þú varst fyrir veikindi og vissulega var húmorinn alltaf til staðar.

Elsku mamma, ég gæti skrifað heila ritgerð um þig en það má víst ekki hér. Ég á margar góðar minningar um þig þó að vissulega séu þær margar ekki fagrar. Allar þær ófögru snerta þinn sjúkdóm sem þú baðst nú ekki um. Ég er stolt yfir að vera dóttir þín og ætla að einblína á góðu minningarnar.

Hvíl í friði.

Þín dóttir,

Ása.

Unnur Hersir var yngst af systrunum Hersir, hjónanna Guðmundar Hersir bakara og Helgu Emilie Pedersen húsmóður. Yngstu þrjár eru fæddar á Skólavörðustíg 25 en þar skáhallt á móti rak afi minn bakarí, það, ásamt fleiri bakaríum í miðbæ Reykjavíkur, fór á hausinn í kreppu þess tíma og fór afi þá að vinna í Björnsbakaríi og þau fluttu í Búnaðarfélagshúsið í Lækjargötu. Á því húsi eru fimm kvistar, einn fyrir hverja systur, en þær héngu stundum allar út um gluggana þegar afi kom heim í hádeginu og fólk féll í yfirlið í Lækjargötunni af hræðslu við að þær féllu niður.

Þær gengu í Miðbæjarskólann og áttu ánægjulega barnæsku, en voru ungar sendar í vist að dönskum sið, Unnur var í vist hjá Döddu sem vann í Þjóðleikhúsinu og Jakob og Birnu Hafstein, fór með þeim til Danmerkur, og einni fjölskyldu í viðbót svo vitað sé.

Unnur og Bryndís, tvíburasystir móður minnar, fóru saman til Danmerkur, en þær voru mjög samrýndar, annað en tvíburarnir sem voru eins og svart og hvítt í orðsins fyrstu merkingu í útliti og hegðun.

Systurnar tíndust svo til Noregs, hver af annarri, allar nema móðir mín, sem flutti til Ameríku, Unnur og móðir mín fluttu svo aftur til Íslands um svipað leyti og hélst þeirra vinskapur alltaf góður, enda hinar þrjár fjarri góðu gamni. Á þessum tímum var mikið skrifað af sendibréfum á bláan fisléttan pappír sem fór par avion á milli landa, Norðmenn eru ekki eins nýjungagjarnir og Íslendingar og fengu seint símtæki og það var ekki mikið verið að ferðast á milli landa á þessum tíma.

Unnur flutti svo austur á Egilsstaði með son sinn, Guðmund Hersir, í enn eina vistina og hitti þar eiginmann sinn, Jóhann, og eignaðist með honum þrjú börn, Helgu, Hjört og Ásu. Við móðir mín fórum einu sinni í flugi í heimsókn, þegar ég var u.þ.b. 10 ára, og svo fór öll fjölskyldan með Esjunni í hringferð um Ísland þegar ég var 12 ára og við stoppuðum smá á Austfjörðunum. Fólk komst ekki eins auðveldlega á milli landshluta á þessum árum, lífsbaráttan var harðari og ekki til peningur til ferðalaga, en sendibréfin flugu á milli.

Unnur flutti svo til Reykjavíkur í kjölfar veikinda og þá urðu samskiptin tíðari, en samt undir „control“, móðir mín var skipulagsfrík, hún heimsótti Unni kl. 14.15 á laugardögum með tvö emmessísblóm.

Unnur fylgdist mjög vel með afmælisdögum minnar litlu fjölskyldu, en ég á tvö börn, og jólagjöfunum klikkaði hún ekki á heldur. Svo hringdi hún líka mikið í mig, hélt alltaf góðu sambandi við alla sína fjölskyldu, hún hefði nú aldeilis haft gaman af Facebook ef hún hefði komið fyrr, ég reyndi nú að flytja henni nýjustu fréttir af frændfólkinu í Noregi og Kanada og hafði hún mikið gaman af.

Hún mundi allt og gat frætt mann um af hverju ekkja afabróður míns flutti til Kanada og ýmislegt fleira úr fjölskyldusögunni.

Það er mikið skarð höggvið í fjölskylduna og ég eins og fleiri vildi að ég hefði spurt meira, þær þvældust svo víða systurnar á sögulegum tímum.

Ég og börnin mín munum alltaf minnast þín með hlýju, elsku Unnur.

Edda Hersir.

Unnur María, hálfsystir föður míns samfeðra, er fallin frá. Hún var yngst fimm dætra afa míns, Guðmundar B. Hersis bakara og konu hans Helgu Emilíu Hersir, f. Pedersen frá Thurø í Danmörku. Þær hafa nú allar kvatt. Unnur bjó lengi á Egilsstöðum með fjölskyldu sinni og var tíður dvalargestur á heimili foreldra minna. Á þeim árum stóðu heimili fjölskyldna sem voru að uppruna sveitafólk ávallt opin vinum og ættingjum. Samband Unnar og foreldra minna var gott og fallegt, þar var hjálpsemi á báða bóga og vinátta ríkti milli okkar barna þeirra. Eftir að faðir minn féll frá rækti Unnur sambandið við móður mína, jafnvel þau ellefu ár sem móðir mín dvaldi á hjúkrunarheimilinu Skjóli. Fyrir þessa umhyggju og ástríki er ég Unni afar þakklátur.

Ég minnist Unnar fyrst á heimili gömlu hjónanna á Bergstaðastræti 6b um miðjan sjötta áratuginn, þar er nú bílastæðahús. Þau bjuggu þar með dætrunum í örsmárri tveggja herbergja íbúð. Ekkert var baðherbergið en útikamar staðsettur um það bil þar sem nú er Grænn kostur. Á lóðinni var möl og garðjurtir. Þar á tröppunum á ég í huganum mynd af Unni eitt sinn, í fallegum kjól með son sinn Guðmund nýfæddan. Hún var glæsileg kona og geislaði, því hún var opin, óhrædd og fylgdist einhvern veginn með því sem var að gerast í veröldinni. Mér, krakkanum, fannst hún skemmtileg. Hún var spurul og hafði ætíð áhuga á því sem fólk henni nákomið hafðist að, sem og öllu sínu umhverfi.

Unnur bjó við stórfelldan heilsubrest í mörg ár. Hún bar sig samt vel og hugsaði skýrt. Því brá ég á það ráð fyrir nokkrum árum að spyrja hana frétta úr brúðkaupi foreldra minna, sem fór fram áður en ég fæddist og ég hafði haft litlar spurnir af. Grafalvarleg tjáði hún mér að henni hefði ekki verið boðið. Samt hafði hún farið í hárgreiðslu og verið búin að finna til kjól og skó. Svo kom stríðnisbros á andlitið og hún bætti við: Það gleymdist! Reykjavíkurdaman sat heima meðan sveitafólkið í Ölfusinu gæddi sér á tertu eftir vígsluna, með litlum súkkulaðikringlum úr Sandholtsbakaríi.

Unnur var nefnilega glaðlynd þrátt fyrir heilsubrestinn og sumpart erfiða ævi. Ég hef enga tölu á hversu oft hún braut í sér bein. Þegar hún hringdi í mig og sagði mér frá enn einu beinbrotinu var sem hún væri að segja mér hvað hún fékk í matinn. Hún hringdi oft í símann á heimili mínu til að spyrja frétta og spjalla, jafnvel oft á dag ef einhver var heima. Við gerðum að lokum samning um eitt samtal um helgar og annað í miðri viku. Þetta þótti henni skondið samkomulag en virti það alla tíð. Hún var ótrúlega minnug, frásagnagóð og gaman að ræða við hana um löngu liðna atburði og ýmislegt sem mig fýsti að vita. Hún vissi alltaf hvað afkomendur hennar voru að gera og hvar þeir voru staðsettir í heiminum.

Þá er bara eftir að kveðja og þakka fyrir ánægjulega samfylgd. Við Sigurlaug sendum börnum Unnar og fjölskyldum þeirra hjartanlegar samúðarkveðjur.

Gylfi Páll Hersir.