Byrjun Rakel Dögg Bragadóttir segir sigur á Noregi aðalmálið.
Byrjun Rakel Dögg Bragadóttir segir sigur á Noregi aðalmálið. — Morgunblaðið/Eggert
„Ég hef minni væntingar núna en oft áður til liðsins.

„Ég hef minni væntingar núna en oft áður til liðsins. Það er mikið um meiðsli sem hefur sitt að segja,“ segir Rakel Dögg Bragadóttir, leikmaður Stjörnunnar og kvennalandsliðsins í handbolta, um karlaliðið í aðdraganda Evrópumótsins í Danmörku sem hefst á sunnudaginn.

„Ég sá leikina á mótinu í Þýskalandi um daginn og að mörgu leyti líta hlutirnir vel út. Maður veit samt ekki alveg hvort þessir ungu strákar séu tilbúnir þó að þeir lofi góðu. Gengi liðsins fer mikið eftir því hvort Guðjón Valur verði klár sem og Arnór Atlason og svo hversu mikið Aron Pálmarsson spilar. Ég tel nú samt að liðið komist í milliriðil en hvort það tekur með sér stig þangað er erfitt að segja til um,“ segir Rakel og bendir á kynslóðaskiptin sem eru í gangi hjá strákunum okkar. Hún er mjög hrifin af og spennt fyrir ungu strákunum sem eiga að leysa þá eldri af en þrír þeirra standa framar öðrum.

Rúnar minnir á Einar Hólmgeirs

„Þetta eru allt alveg rosalega flottir strákar. Rúnar Kárason er að koma mjög öflugur inn. Það er ekkert grín fyrir hann að leysa Alexander Petersson og Ólaf Stefánsson af hólmi en hann stóð sig vel á mótinu um daginn. Þetta er svona alvöru skytta sem minnir svolítið á Einar Hólmgeirsson. Strákur sem getur skotið á markið. Svo verður líka gaman að fylgjast með Bjarka Má og Stefáni Rafni í vinstra horninu ef Guðjón verður ekki með. Það eru rosalega spennandi leikmenn og klárlega framtíð liðsins,“ segir hún.

Sigur á Noregi mikilvægur

Rakel þekkir það sjálf að fara á stórmót og hún getur ekki undirstrikað mikilvægi þess að vinna Noreg í fyrsta leik nógu mikið.

„Það er alveg ógeðslega mikilvægt ef ég leyfi mér að tala þannig. Tap í fyrsta leik þýðir bara bakið upp við vegg. Sigur gerir allt aftur á móti miklu auðveldara og byggir upp sjálfstraust og stemningu. Að byrja mót á sigri eða tapi er alveg tvennt ólíkt,“ segir Rakel sem spáir liðinu sjöunda sæti. „Með sigri á Noregi í fyrsta leik opnast möguleikar finnst mér en allt fyrir ofan 7. sæti yrði frábært.“ tomas@mbl.is