Naustið Eigandi Naustsins vill breyta húsinu í gistihús, sem tæki til starfa fljótlega.
Naustið Eigandi Naustsins vill breyta húsinu í gistihús, sem tæki til starfa fljótlega. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gunnar Dofri Ólafsson gunnardofri@mbl.is Ekkert lát er á fjölgun gistirýma í miðborginni. Kvosin Downtown Hotel stækkar og Kirkjuhvoll sf.

Gunnar Dofri Ólafsson

gunnardofri@mbl.is

Ekkert lát er á fjölgun gistirýma í miðborginni. Kvosin Downtown Hotel stækkar og Kirkjuhvoll sf., félag Karls Steingrímssonar, kennds við Pelsinn, hefur sótt um að breyta Naustinu, hinu sögufræga húsi neðst við Vesturgötu, og samliggjandi húsum í gististað með veitingarými í kjallara. Í gær kom fram í Morgunblaðinu að 100 herbergja hótel rísi við Hverfisgötu 103.

Veitingahúsið Við Tjörnina flytur senn úr Templarasundi 3 til að rýma fyrir Kvosin Hotel. Ekki er ljóst hvert veitingastaðurinn flyst, en ætlunin er að halda rekstri áfram og er frétta að vænta af nýrri staðsetningu eftir helgi. Þegar Við Tjörnina fer út mun Kvosin Hotel stækka við sig yfir í Templarasundið og bæta við 10 herbergjum, en í dag eru einungis 14 herbergi á hótelinu.

„Þetta er í ferli og klárast vonandi fyrir sumarið,“ segir Teitur Jónasson, einn eigenda Kvosin Downtown Hotel. Hann segir að hótelið sé lítið og sérhæft hótel í dýrari kantinum.

Karakterhótel í miðborginni

„Byrjunin hefur gengið vonum framar. Við erum með öðruvísi herbergi en gengur og gerist, bæði stærri og meira einkennandi. Ég kýs að kalla þetta karakterhótel. Herbergin eru einkennandi þannig að fólk á ekki að þurfa að líta út um gluggann til að sjá í hvaða borg það er. Það er mikið lagt í hönnunina,“ segir Teitur. „Þér á ekki að líða eins og þú sért bara á hvaða hóteli sem er.“ Stækkunarferli hótelsins er þó ekki lokið. Hótelið stendur við Kirkjutorg 4, en til stendur að stækka það enn meira, yfir í Kirkjutorg 6. „Við ætlum að fjölga herbergjum. 14 herbergja hótel gengur alveg upp, 24 er enn betra en innviðirnir hjá okkur gera ráð fyrir enn stærra hóteli.“ Hann segist ekki hafa áhyggjur af því að hótelið missi sérstöðu sína við það að stækka. „Það hefur alltaf legið fyrir að stækka yfir í Templarasund 3.“

Bergsson mathús og Vínbarinn eru í nánu samstarfi við hótelið, en Teitur segir að mikið sé lagt upp úr að hótelgestir upplifi nærumhverfið sem best. „Þess vegna erum við búin að leggja mikið í að endurgera Vínbarinn, og svo sér Bergsson mathús til dæmis um morgunverðinn á hótelinu, við stofnuðum það með Þóri Bergssyni í þeim tilgangi,“ segir Teitur. „Við reynum að skila fullri hótelupplifun án þess að opna veitingastað og bar fyrir bara 14 herbergi. Þetta er líka að miklu leyti gert fyrir Íslendinga og fólk í nágrenninu.“

Hostel í Naustinu

Karl Steingrímsson segir nokkra aðila hafa komið að máli við sig og viðrað hugmyndir um 40 herbergja hostel í Naustinu og samliggjandi húsum við Vesturgötu 6 til 10A, sem gæti hýst allt að 300 gesti.

„Menn hafa sýnt því áhuga að vera þarna með hostel og ég vildi setja það í ferli,“ segir Karl, en byggingarfulltrúinn í Reykjavík tók til umfjöllunar fyrirspurn félags hans um hvort heimilt væri að reka þar gistihús og veitingastað í kjallara.

„Hugsunin er að leggja öll húsin undir þessa starfsemi. Ég vildi því kanna hvort nokkuð væri því til fyrirstöðu. Ég á von á að af þessu geti orðið.“ Afgreiðslu erindisins var frestað og því vísað til skipulagsfulltrúa til umsagnar. Karl segir rýmið henta mjög vel til gistihúsrekstrar. „Það er búið að koma fyrir brunavarnarkerfi (sprinklerkerfi) í húsunum þannig að það þyrfti bara að innrétta þetta og tengja húsin.“

Veitingahlutinn yrði í kjallara Naustsins við Vesturgötu 6 til 8, nær miðborginni. „Það gæti tekið breytingum í ferlinu.“ Karl vonar að hægt verði að opna fyrir ferðalöngum á þessu sumri. „Það er verið að flýta þessu og koma þessu í gagnið sem fyrst. Þetta yrði ekkert lúxushótel en það verður vandað til alls. Staðsetningin er líka frábær og mikil uppbygging á þessu svæði,“ segir Karl. „Húsið fellur mjög vel að svona starfsemi, það þarf ekki að gera nema minniháttar breytingar.“