Ég heyrði stemmu langdregna og kveðna kunnuglegum rómi.

Ég heyrði stemmu langdregna og kveðna kunnuglegum rómi. Þegar ég leit upp var þar kominn karlinn á Laugaveginum:

Lengi söng í kirkjukór

kvensamur í meira lagi

afi minn sem aldrei fór

á ‘onum Rauð á sveitabæi

Hann kastaði kveðju á mig, seildist í rassvasann eftir pela, saup á og hélt áfram að söngla:

Afi gamli fór á flakk

flæktist sauðrá bæi

saup á landa, síðan drakk

sitt af hvoru tagi.

Svo veifaði hann pelanum og hljóp við fót upp Skólavörðustíginn:

Ég er kominn á kenndirí

- kannski heitir hún Stína;

Kvelúlfur er kominn í

kerlinguna mína

Og var horfinn.

Einar Matthíasson skrifaði mér gott bréf með ljóði eftir Braga Einarsson, garðyrkjubónda og kaupmann í Eden. Bragi lést árið 2006. Eftir að ljóst var að hverju stefndi gaf hann náfrænku sinni og konu Einars, Ernu Sörensen, ljóðið Lífsklukkuna:

Lífsklukkan tifar og telur mín spor,

hún telur daga og nætur.

Telur hvert sumar, vetur og vor

og veit mínar dýpstu rætur.

Hún þekkir í grunn hvern dag sem fer

hvað lífið gaf mér og tók.

Og hverja þá rún sem rituð er

og rist er á lífsins bók.

Lífsklukkan skilur allt lífsins mál

um líf mitt stendur hún vörð.

Er vitund míns hjarta og vakir í sál

og veit mínar stundir á jörð.

Lífsneistann finn ég flæða enn

í framtíð er dulinn vafi.

Líf mitt er aðfall og útsog í senn

andblær af tímans hafi.

Hann er gróinn á norðan, svo að staka eftir Jón S. Bergmann til Fjallkonunnar rifjast upp:

Norðri hallar höfði að

hreinni fjalla-meyju.

Hún varð falleg fyrir það,

færð í mjallartreyju.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is