Rósa Stefánsdóttir fæddist 7. júní 1930 á Litlu-Hámundarstöðum á Árskógsströnd. Hún lést á Dalbæ, heimili aldraðra á Dalvík, 3. janúar 2014.

Foreldrar Rósu voru Stefán Einarsson, f. 14. maí 1902, d. 24. mars 1958, bóndi á Litlu-Hámundarstöðum og kona hans Anna Þorsteinsdóttir húsmóðir, f. 29. júní 1909, d. 6.2. 1994. Rósa var elst sjö systkina en þau eru: Valgeir, f. 4.3. 1934, Pálmi, f. 3.9. 1936, Anna Lilja, f. 3.3. 1938, Svandís, f. 27.9. 1943, d. 8.2. 2012, Steingrímur, f. 30.3. 1946, d. 13.7. 2002 og Stefán Páll, f. 25.5. 1948, d. 21.1. 1987.

Hinn 1. desember 1959 giftist Rósa eiginmanni sínum, Níelsi Kristni Gunnarssyni, en hann lést 6. ágúst 1997. Foreldrar hans voru hjónin Gunnar Níelsson, útgerðarmaður á Hauganesi, og Helga Jónsdóttir, kona hans.

Börn Rósu og Níelsar eru: 1) Anna Soffía, f. 22.1. 1957, gift Braga Guðmundssyni (faðir Önnu er Haraldur Magnússon). Þeirra börn eru: a) Erna Rós, gift Einari Sveini Jónssyni. Börn: Bragi Snær, Jón Breki, Soffía Rut og Anna Ýr, b) Guðný Rut, gift Reimari Viðarssyni. Synir: Viðar Ernir og Gunnar Bragi, c) Gunnar Örn, í sambúð með Tönju Birgisdóttur. 2) Helga, f. 19.5. 1960, gift Birni Friðþjófssyni. Synir þeirra eru: a) Atli Viðar, sambýliskona Eva Þórunn Vignisdóttir, b) Kristinn Þór, sambýliskona Karen Nóadóttir, c) Rúnar Helgi. 3) Rósa Kristín, f. 25.4. 1962, gift Benjamín Valgarðssyni. Þeirra börn eru: a) Elsa Dögg, gift Jóhanni Þ. Jónssyni. Börn: Bjarki Þór, Kristín Ása og Hildur Benný, b) Níels Kristinn, sambýliskona Elva Ósk Jónsdóttir. Börn: Þorri Jón og Bríet Sara, c) Aldís Björk, d) Ívar Breki. 4) Stefán Garðar, f. 9.8. 1963, kvæntur Huldu Marín Njálsdóttur. Börn þeirra eru: a) Birkir Freyr, kvæntur Anný Rós Guðmundsdóttur. Dætur: Lilja Mist og Emma Rós, b) Stefán Páll, f. 28.1. 1991, d. 30.5. 2012, dóttir hans er Amelía Björt, c) Rakel Sjöfn, d) Rósa Dís. 5) Eyrún, f. 7.3. 1968, hennar maður er Ómar Steindórsson. Börn: a) Elma Rún (faðir Grétar Karlsson), b) Níels Kristinn.

Rósa ólst upp á Litlu-Hámundarstöðum í faðmi fjölskyldunnar en fluttist 1959, þegar hún giftist Níelsi, á Hauganes, þar sem þau byggðu sitt hús, Sævang. Þar bjó hún með manni sínum og börnum mestan hluta ævi sinnar. Rósa fluttist til Dalvíkur á efri árum en dvaldi í nokkra mánuði á Hornbrekku í Ólafsfirði og síðan á Dalbæ á Dalvík þar sem hún lést. Rósa helgaði sig húsmóðurstarfinu mestan hluta ævinnar en sinnti jafnframt tilfallandi störfum við útgerð Níelsar Jónssonar þegar þörf var á. Rósa var virk í félagsmálum og starfaði m.a. í Slysavarnafélagi Árskógsstrandar, Kvenfélaginu Hvöt, Ungmennafélaginu Reyni, sóknarnefnd Stærra-Árskógskirkju og félagi aldraðra á Dalvík.

Útför Rósu fer fram frá Stærra-Árskógskirkju í dag, 10. janúar 2014, kl. 14.

Elsku mamma.

Nú hefur þú kvatt þetta jarðlíf og fengið hvíldina sem þú varst farin að þrá og það er margs að minnast og margt að þakka.

Við systkinin nutum þeirra forréttinda að alast upp við mikið ástríki og öryggi hjá ykkur pabba á Hauganesi. Þú varst heimavinnandi og alltaf til staðar fyrir okkur en pabbi sótti sjóinn og rak sína útgerð af miklum dug.

Hvernig þú komst yfir allt það sem gerðir á hverjum degi get ég ekki skilið. Að ala upp fimm börn og hafa að auki menn sem voru á bátnum hjá pabba í fæði og húsnæði taldir þú ekki eftir þér og þegar þörf var á og mikill afli barst á land fórstu í skemmuna og hjálpaðir til við fiskvinnsluna.

Alltaf beið okkar góður matur bæði í hádegi og kvöldmat þegar við gáfum okkur tíma frá leik og starfi að skjótast heim í mat og oftar en ekki þegar við komum svöng heim úr skóla ilmaði húsið af bökunarilmi og góðgæti á borðum sem rann ljúflega ofan í svanga krakka.

Nú og þegar stundir gáfust þá settist þú við saumavélina eða greipst í prjóna og töfraðir fram fallegar flíkur á okkur af miklum myndarskap.

Já, það voru mikil forréttindi að eiga ykkur sem foreldra og að alast upp í frjálsræðinu á Hauganesi.

Þið pabbi voruð mjög heimakær en góðir gestgjafar og nutuð þess að fá gesti. Oft var mannmargt í Sævangi á sunnudögum og systkini þín sem voru þér svo kær voru dugleg að koma í heimsókn með fjölskyldur sínar og auðvitað töfraðir þú fram veisluhlaðborð að því er virtist fyrirhafnarlaust.

Móðir mín var ekki langskólagengin en fór í Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði einn vetur og minntist ætíð þess tíma með mikilli ánægju.

Hún var vel gefin kona og átti auðvelt með nám og talaði og skrifaði fallegt íslenskt mál. Ég held svei mér þá að hún hafi kunnað allar stafsetningarreglur upp á 10 alla tíð.

Mamma átti auðvelt með að setja saman vísur og það var alltaf jafn spennandi að fá vísu eða brag frá henni í afmælis- og tækifæriskortum.

Þennan brag sem mér þykir mjög vænt um fékk ég þegar ég varð fertug.

Eitt sinn var hún Helga

agnarlítið peð

er nú stór og stæðileg

eftir fjörtíu ára streð.

Í Sævangi með systkinum

sitthvað skeði

á ýmsu gekk

en oftast gleði.

Hopp á heitri eldavél

heimskulegt var

en báðir sokkabotnarnir

bráðnuðu þar,

en stelpan slapp,

það var mikið happ.

Eitt sinn gleypti hún lýsisbelgi

uns þeim fór að fækka

það var eftir þessa raun,

þá hún fór að stækka.

Ofan í forarskurðinn féll,

föst í leðju var,

Árni reddaði röskur og snar,

hún hefði getað dáið þar.

Bernskuárin liðu björt og góð

og blómstraði stúlkan

falleg og rjóð.

Í nágrannaskólum nam hún fræði

næstum því um öll heimsins gæði.

Átján ára til Englands skrapp

enskuna að læra,

og heim hún slapp.

Aðdáendur marga eignaðist þá

en birtist Björn

og bægði þeim frá.

Í Steintúni búa og fá stundum gesti

og stækkar fjölskyldan á tíu ára fresti.

(Rósa St.)

Elsku besta mamma mín, ég þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og mína í gegnum tíðina.

Þín dóttir,

Helga Níelsdóttir.

Hún Rósa amma, amma á Hauganesi eða amma í Sævangi, hefur nú fengið langþráða hvíld. Eftir að amma kvaddi okkur á dögunum hefur hugurinn leitað aftur til æskuára minna, heimsókna til ömmu og afa á Hauganesi og ótal skemmtilegar minningar koma upp í hugann.

Það var draumaheimur fyrir ungan og uppátækjasaman strák að geta sótt í skjól hjá ömmu og afa í Sævangi og fengið að koma á Hauganes nánast hvenær sem var. Reyndar held ég að ömmu hafi kannski fundist ég koma einu skipti of oft því ég held að hún hafi ekki verið sérstaklega ánægð með mig þegar ég var innan við 10 ára gamall og stalst eitt skipti út á þjóðveginn, aleinn á reiðhjóli. Hjólaði þá á gamla hjólinu mínu frá Dalvík og inn á Hauganes tæplega 15 kílómetra leið til að heimsækja ömmu og afa. Þegar ég komst loks á leiðarenda, sigri hrósandi yfir afreki mínu, tók amma á móti mér með bros á vör eins og henni var lagið þó henni hafi eflaust ekki verið hlátur í huga yfir uppátæki mínu.

Ýmislegt var það sem við krakkarnir brölluðum heima á Hauganesi. Í fjörunni, á bryggjunni eða á túnunum í leikjum eða að sparka bolta. Jafnvel farið í fjárhúsin meðan þar voru enn kindur. Held ég að ömmu hafi liðið best þegar hún gat fylgst með okkur að leik út um eldhúsgluggann í Sævangi, í ásættanlegri fjarlægð frá fjörunni og bryggjunni því ég veit að hún vildi helst ekki vita af okkur við sjóinn.

Ég man vel eftir ömmu heima í Sævangi þegar hún beið eftir að báturinn kæmi inn, hringdi um borð og fékk að vita aflann og hvenær þeir væru væntanlegir að bryggju. Þarna gekk stundum mikið á en aldrei fékk ég á tilfinninguna að við krakkarnir værum fyrir, að trufla eða að hún hefði ekki tíma til að sinna okkur. Nema síður væri.

Amma var mikil húsmóðir og naut þess að hafa fólkið sitt við eldhúsborðið hjá sér, stóra sem smáa, og bera á borð veitingar. Hún var listakokkur að mínu mati og mikill bakari og þær voru ófáar ferðirnar farnar í búrið hennar í Sævangi í leit að einhverju góðgæti. Jafnvel stundum stolist þegar amma sá ekki til því þar var alltaf eitthvað gott að finna.

Ég minnist ferða í Þorvaldsdal á sumardögum með nesti sem amma hafði útbúið, notið veðursins og leikið sér. Á haustin að tína ber þar sem framlag mitt var oftast í formi þess að tína berin upp úr krukkunum hjá ömmu og mömmu og borða þau á staðnum.

Eftir að ég sjálfur flutti suður minnkaði sambandið við ömmu og sá ég hana sjaldnar en alltaf var þó jafngott að koma í Sævang og seinna í Bjarkarbrautina. Ég hef það líka fyrir satt að amma hafi fylgst vel með barnabörnunum sínum, meðal annars mér og bræðrum mínum og gengi okkar í boltanum, alveg framundir það síðasta. Hún spurði frétta og sýndi mikinn áhuga öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur.

Ég er viss um að afi Níels tekur nú vel á móti ömmu. Að þessu sinni bíður hann ekki með krosslagðar hendurnar fyrir aftan bak heldur með fangið opið og faðmar ömmu þétt að sér þegar hann tekur á móti henni aftur eftir langan aðskilnað.

Góða ferð, elsku amma. Minning þín mun lifa um ókomna tíð.

Atli Viðar Björnsson.

Elsku, elsku amma mín, hvernig byrja ég að tala um flottustu, yndislegustu og bestu ömmu sem fyrirfannst? Þú varst dásamleg í alla staði. Þú vildir allt fyrir okkur barnabörnin gera og það var sama hvað við vorum að bralla í Sævangi, aldrei man ég eftir að þú skammaðir okkur eða tautaðir yfir okkur. Frekar kallaðir þú á okkur í kaffitíma með nýbökuðu brauði, kleinum eða hjónabandssælu. Þú varst algjör meistari í eldhúsinu. Þú varst einnig flink í allri handavinnu, varst ein af þessum alvöru ömmum, ég var svo heppin að eiga þig að. Þegar við Reimar minn fluttum svo aftur norður árið 2003 fluttum við á neðri hæðina í Sævang til þín og í dag er ég svo þakklát fyrir það. Við urðum þá mjög góðar vinkonur og samgangur var mikill, sérstaklega á matmálstímum. Alla sunnudaga hittist svo öll Sævangs-fjölskyldan í kaffi. Í minningunni var það dásamleg og skemmtileg hefð enda fjölskyldan einstaklega samstillt og alltaf tilbúin að rétta fram hjálparhönd.

Elsku amma mín, það hefur verið erfitt að horfa upp á þig veikjast svona mikið, því er ég þakklát að þú hafir fengið hvíldina. Ég veit fyrir víst að það er tekið vel á móti þér. Þú knúsar þau öll frá okkur.

Ég mun alltaf elska þig, elsku amma mín. Hvíldu í friði. Megi guðs englar passa upp á þig. Knús og kossar. Þín

Guðný Rut Bragadóttir.

Elsku besta amma mín. Takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig, takk fyrir alla þolinmæðina sem þú hefur sýnt mér og takk fyrir að taka mér alltaf með opnum örmum.

Amma Rósa í Sævangi var orðin amma allra, við frændsystkinin skottuðumst inn og út um Sævang alla daga með hóp af vinum og alltaf var til nóg af ristuðu brauði, kökum og kakói handa öllum og það voru allir velkomnir.

Yndislegri, duglegri og betri konu er erfitt að finna, þú varst alltaf tilbúin til að gera allt fyrir alla.

Nú ert þú lögst í þína hvíld og ert að ég trúi búin að hitta elsku afa Níels.

Sjáumst seinna, ég elska þig alltaf.

Aldís Björk.

Frænka mín og vinkona, Rósa Stefánsdóttir, hefur nú kvatt okkur. Hún var fyrir nokkru orðin blind á hægra auga og svo þegar sjóninni fór að hraka einnig á vinstra auganu, fannst henni tilgangur lífsins hafa minnkað. Hún var 83 ára en samt alltaf ung í anda og fylgdist vel með öllu lengst framan af og það er ekki svo langt síðan hún hætti að syngja með í Mímiskórnum, sem er kór eldri borgara í Dalvíkurbyggð. Hún var einnig mjög virk í Félagi eldri borgara. Við Rósa höfum þekkst frá því við munum eftir okkur. Það var mikill samgangur milli heimila okkar. Hún átti heima á Litlu-Hámundarstöðum en ég í Engihlíð og við erum systkinadætur. Ég man að oft heimsóttum við hvor aðra. Þegar ég fór í heimsókn til Rósu þá fylgdi hún mér í bakaleiðinni suður að Krossum og þegar hún kom í heimsókn til mín, fylgdi ég henni aftur út að Krossum. Þetta fórum við venjulega gangandi. Krossar eru mitt á milli fyrrverandi heimila okkar. Svona gekk þetta alltaf og við höfðum öll ósköp að tala um. Á unglingsárunum fórum við stundum á böll og lærðum að dansa, það kom svona af sjálfu sér. Við fengum snemma að fara á þá fáu dansleiki sem í boði voru. Það var ekkert 16 ára aldurstakmark þá. Sumarið eftir fermingu mína var ég „kaupakona“ á Litlu-Hámundarstöðum og varð það til að styrkja vináttu okkar Rósu enn betur. Alla tíð síðan höfum við haft mikil og góð samskipti, enda átt heima nánast alla tíð í sömu sveit. Rósa flutti þó til Dalvíkur fyrir nokkrum árum þar sem hún leigði íbúð í fyrstu en þegar heilsunni fór að hraka dvaldi hún fyrst á Hornbrekku í Ólafsfirði en nú síðast á Dalbæ á Dalvík.

Rósa hefur verið virkur félagi í kvenfélagi, ungmennafélagi, slysavarnadeild hér í sveit og í Félagi eldri borgara, svo eitthvað sé nefnt. Hún skrifaði vel, var oft ritari þeirra félaga sem hún var í, sagði vel frá og var mjög samviskusöm með það eins og allt annað sem hún tók sér fyrir hendur. Hún átti það til að senda frumsamdar vísur með á korti eða bréfi, en vildi samt sem minnst um það tala. Ég geri þetta bara að gamni mínu, sagði hún, ég er ekkert skáld.

Í seinni tíð þegar við áttum báðar heima á Hauganesi, bankaði Rósa oft upp á og tók mig með í gönguferð og spjall, svona eins og í gamla daga. Hún var dugleg að drífa sig út að ganga en það sama verður ekki sagt um mig eftir að hún flutti, því mig vantaði Rósu til að taka mig með.

Það vill svo til að maðurinn minn Sveinn Jónsson er jafnmikið skyldur Rósu og ég, bara á hinn vænginn, þau eru bræðrabörn. Við hjónin erum því bæði tengd Rósu góðum böndum, en ekki er hægt að telja upp hér öll okkar samskipti á undanförnum árum. En til gamans má geta þess að fyrsta húsið sem Sveinn byggði hér í sveitinni var Sævangur, heimili Rósu og Níelsar. Við þökkum Rósu alla samfylgdina á þessum mörgu árum og kveðjum góða og vandaða konu.

Innilegar samúðarkveðjur til ykkar: Anna Fía, Helga, Kidda, Garðar og Eyrún og allra ykkar fjölskyldna, svo og til ykkar systkinanna hennar Rósu, fjölskyldnanna og annarra aðstandenda.

Ása Marinósdóttir.

HINSTA KVEÐJA

Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Söknum þín, þínir
Viðar Ernir og Gunnar Bragi Reimarssynir.