Listamaður „Þetta er eins og Manhattan,“ segir Sigríður Hannesdóttir um útsýnið í Vesturbænum.
Listamaður „Þetta er eins og Manhattan,“ segir Sigríður Hannesdóttir um útsýnið í Vesturbænum. — Morgunblaðið/Þórður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Sigríður Hannesdóttir, sem gengur undir nafninu Didda, er hokin af reynslu.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Sigríður Hannesdóttir, sem gengur undir nafninu Didda, er hokin af reynslu. Hún er leikkona að mennt en vildi frekar vera skemmtikraftur á sviði en leikari og hefur nú sent frá sér geisladisk með revíulögum og öðrum lögum frá löngum og farsælum ferli.

Leikhúslífið átti ekki við Diddu en hún þótti snemma efnileg á því sviði og lék fyrst sjö ára gömul í barnaskóla, þótt hún hafi ekki verið sátt við hlutverkið. Blaðamaður var látinn leika þvottapoka í barnaskóla og þótti nóg um en hlutverk Diddu var stærra í sniðum. Gefum henni orðið:

Snemma beygist krókurinn

„Einn dag í desember klappaði Drífa Viðar, kennarinn okkar, saman lófunum og sagði: „Það er komið að okkur, við leikum jólaleikritið og það verður Þyrnirós.“ Ég sá mig fyrir mér í hlutverki með kórónu. Því dofnaði yfir mér þegar önnur stúlka átti að leika Þyrnirós. Þegar búið var að skipa í öll hlutverkin sagði Drífa leikurunum að fara niður á saumastofu og ná í búninga. Sagði að hinir yrðu tré í skóginum. Mig langaði ekki til þess að vera tré, en ég var hlýðin og gerði mig líklega til að fara með hinum. „Sigríður mín, það er eitt hlutverk eftir,“ sagði Drífa þá. „Það er nornin.“ Mér fannst skárra að vera tré en norn en ég hlýddi og ákvað um leið að gera þetta eftirminnilegt með því að búa til krumlu og stinga henni í krullurnar á Þyrnirós og segja: „Þú skalt sofa í 100 ár.“ Það gekk eftir og þetta gerði mikla lukku. Svo liðu árin og ég var byrjuð að leika í Þjóðleikhúsinu. Hildur Kalman var leikstjóri og þegar búið var að draga rauðu tjöldin fyrir eitt sinn kom Drífa, sem var skyld Hildi, til mín og sagði: „Sigríður mín. Ég vissi alltaf að þú yrðir leikkona.“ Og ég sem átti að vera tré! En Drífa var mér góð og ég held að það hafi blundað í mér að ég yrði skemmtikraftur þegar hún setti mig í hlutverk nornarinnar. Ég skildi það bara ekki þá.“

Didda segir að lögin úr kabarettunum í Austurbæjarbíói og revíunum í Sjálfstæðishúsinu hafi fylgt sér og meðal annars gert lukku í sólarlandaferðunum, því fólkið hafi verið svo vel með á nótunum og kunnað marga textana. Golfið hafi líka verið uppspretta. „Ég spila samt ekki golf og hélt lengi að því hærri forgjöf sem maður hefði því betra. Því hældi ég lengi fólki sem var með 34 í forgjöf.“

Meðganga eins og hjá fílum

Sigríður er fædd 1932, útskrifaðist frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1954, lék í revíum og kabarettum og stofnaði Brúðubílinn með Jóni E. Guðmundssyni. Í Stundinni okkar í Sjónvarpinu lék hún Krumma í þáttunum um Rannveigu og Krumma, kenndi leiklist í grunnskólum Reykjavíkur, var skemmtanastjóri hjá Úrvali-Útsýn í ferðum eldri borgara erlendis í 15 ár og skemmtir enn eldri borgurum. Hún segist hafa safnað textum og upptökum á ferlinum og diskurinn sé afraksturinn. „Fólk hefur gjarnan beðið mig um að fá textana eftir að ég hef sungið þá en ég hef ekki viljað það, því þá gæti einhver notað þá,“ segir Didda. „En ég er eins og fíllinn og nú er um tveggja ára meðgöngunni lokið, textarnir öllum opnir.“