Grímur fæddist í Þórormstungu í Vatnsdal 10.1. 1912. Foreldrar hans voru Gísli Jónsson, bóndi í Saurbæ, og Katrín Grímsdóttir húsfreyja. Eiginkona Gríms var Sesselja Svavarsdóttir húsfreyja og eignuðust þau fjögur börn.

Grímur fæddist í Þórormstungu í Vatnsdal 10.1. 1912. Foreldrar hans voru Gísli Jónsson, bóndi í Saurbæ, og Katrín Grímsdóttir húsfreyja.

Eiginkona Gríms var Sesselja Svavarsdóttir húsfreyja og eignuðust þau fjögur börn.

Grímur stundaði nám við Bændaskólann á Hvanneyri og síðan nám i bókfærslu við Bréfaskóla SÍS. Hann vann á búi foreldra sinna í Saurbæ, tók þar við búi á móti foreldrum sínum 1942, tók við allri jörðinni 1944 og var þar bóndi til 1969, síðustu tvö árin með dóttur sinni og tengdasyni. Hann flutti á Blönduós 1967, var þar fulltrúi hjá Kaupfélagi Húnvetninga og síðan gjaldkeri þar til hann lét af störfum.

Grímur var formaður Ungmennafélagsins Vatnsdælings í mörg ár, sat í stjórn Ungmennasambands Austur-Húnvetninga, í sóknarnefnd Blönduóskirkju og var formaður kirkjukórsins, var gjaldkeri sjúkrasamlags Áshrepps frá stofnun og þann aldarfjórðung sem það starfaði, formaður Búnaðarfélags Áshrepps í rúma tvo áratugi, varaformaður Búnaðarsambands Austur-Húnvetninga, sat í hreppsnefnd Áshrepps í tvo áratugi og var oddviti þar, formaður skólanefndar Áshrepps um árabil, sat í stjórn Framsóknarfélags Austur-Húnavatnssýslu um áratuga skeið og lengst af formaður þess, sat í stjórn kjördæmissambands framsóknarmanna á Norðurlandi vestra, í stjórn Héraðshælis Austur-Húnvetninga, í stjórn Heilbrigðismálaráðs Norðurlands vestra, var stjórnarformaður Héraðsbókasafns Austur-Húnvetninga, stjórnarformaður hestamannafélagsins Neista, í stjórn Hrossaræktarsambands Austur-Húnvetninga, í stjórn Hagsmunafélags hrossabænda, var fréttamaður RÚV um nokkur ár og annaðist veðurathuganir fyrir Veðurstofu Íslands á Blönduósi fram yfir nírætt.

Grímur var þekktur hagyrðingur og skrifaði fjölda greina um þjóðmál og landbúnað í blöð og tímarit.

Grímur lést 31.3. 2007.