Spenna Vopnaðir menn í Fallujah. Íraski herinn situr nú um borgina og bíður þess að láta til skarar skríða gegn liðsmönnum al-Qaeda þar.
Spenna Vopnaðir menn í Fallujah. Íraski herinn situr nú um borgina og bíður þess að láta til skarar skríða gegn liðsmönnum al-Qaeda þar. — EPA
Sprengjuárás sem varð 23 nýliðum í íraska hernum að bana og særði 36 aðra í höfuðborginni Bagdad í gær er talin hafa verið viðvörun til þarlendra stjórnvalda vegna umsáturs þeirra um borgir sem liðsmenn al-Qaeda náðu á sitt vald um helgina.

Sprengjuárás sem varð 23 nýliðum í íraska hernum að bana og særði 36 aðra í höfuðborginni Bagdad í gær er talin hafa verið viðvörun til þarlendra stjórnvalda vegna umsáturs þeirra um borgir sem liðsmenn al-Qaeda náðu á sitt vald um helgina.

Enginn hefur enn lýst ábyrgð á tilræðinu en tilræðismaðurinn sprengdi sjálfan sig og hóp manna sem voru að skrá sig í herinn á litlum flugvelli sem herinn notar í borginni.

Vopnaskak í íbúðahverfum

Íraski herinn hefur setið um borgirnar Fallujah og Ramadi, höfuðborg Anbar-héraðs, sem liðsmenn al-Qaeda og bandamenn þeirra náðu á sitt vald um síðustu helgi.

Mannréttindasamtök gagnrýndu í gær framferði bæði stjórnarhersins og vopnaðra íslamista í átökunum um Anbar-hérað sem hafi valdið mannfalli á meðal óbreyttra borgara. Samtökin Human Rights Watch gagnrýna stjórnarhermenn fyrir að hafa beitt sprengjuvörpum og hafið skothríð í íbúðahverfum, jafnvel á stöðum þar sem engir al-Qaeda-liðar virtust vera eftir því sem vitni segja.

Að sami skapi eru liðsmenn al-Qaeda og bandamenn þeirra sagðir hrinda af staða árásum í íbúðahverfum.

Samtökin hafa það eftir starfsmanni á stærsta sjúkrahúsi Fallujah að tuttugu og fimm óbreyttir borgarar hafi látist í sprengjuvörpuregninu og 190 hafi slasast frá því að átökin hófust. Þá hafi umsátur hersins um borgirnar tvær orðið til þess að íbúar hafi aðeins aðgang að vatni, matvælum og olíu í takmörkuðu magni.

„Ríkisstjórnin verður að bregðast við ógninni sem stafar af al-Qaeda en hún getur ekki gert það með því að drepa eigin þegna ólöglega. Óbreyttir borgarar hafa lent á milli [stríðandi fylkinga] í Anbar og ríkisstjórnin virðist ekki vera að gera neitt til að vernda þá,“ segir Sarah Leah Whitson, yfirmaður HRW á svæðinu.