[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM-stjörnur Tómas Þór Þórðarson tomas@mbl.is Evrópumótið er algjör veisla fyrir handboltaáhugamenn því þar koma saman nær allir bestu leikmenn heims og sýna listir sínar í tvær vikur.

EM-stjörnur

Tómas Þór Þórðarson

tomas@mbl.is

Evrópumótið er algjör veisla fyrir handboltaáhugamenn því þar koma saman nær allir bestu leikmenn heims og sýna listir sínar í tvær vikur. Skytturnar eru fyrirferðarmiklar en einnig eru leikstjórnendur og markverðir sem þarf að hafa augun á meðan á mótinu stendur.

Morgunblaðið kynnir hér lesendum eina stjörnu úr hverju liði sem ekki er í riðli með Íslandi á EM í Danmörku.

Viktor Szilágyi Austurríki

Aldur: 35 ára

Staða: Leikstjórnandi

Lið: Bergischer

Hæð: 195 cm

Þyngd: 95 kg

Szilágyi er heilinn í austurríska liðinu og leikmaður sem Patrekur Jóhannesson treystir mikið á. Hann átti frábæra leiki í undankeppninni er Austurríki komst upp úr gífurlega erfiðum riðli með Rússum og Serbum. Szilágyi er orðinn 35 ára og því gífurlega leikreyndur. Hann er samherji Björgvins Páls Gústavssonar og Arnórs Þórs Gunnarssonar hjá Bergischer í Þýskalandi. Klókur spilari sem erfitt er að hafa gætur á.

Siarhei Rutenka Hvíta-Rússland

Aldur: 32 ára

Staða: Vinstri skytta

Lið: Barcelona

Hæð: 198 cm

Þyngd: 96 kg

Rutenka hefur lengi verið ein besta skytta heims og leikið með bestu félagsliðum heims. Enn ein stórstjarnan sem vert er að fylgjast með. Skytta sem gerir það að listgrein að skora tíu mörk í leik. Hann er búinn að toga Hvít-Rússa með sér á tvö stórmót í röð og nú er að sjá hversu langt liðið getur farið að þessu sinni undir hans forystu.

Niclas Ekberg Svíþjóð

Aldur: 25 ára

Staða: Hægra horn

Lið: Kiel

Hæð: 191 cm

Þyngd: 26 kg

Í ansi flötu og óspennandi sænsku liði stendur hornamaðurinn sem leikur með Kiel upp úr. Einn af bestu hraðaupphlaupsmönnum heims ásamt kollegum sínum annars staðar af Norðurlöndum. Ekberg nýtir færin sín vel en ógnin af honum er hraðaupphlaupin. Nái Svíar upp góðri vörn má stóla á mörk frá Ekberg.

Kiril Lazarov Makedónía

Aldur: 33 ára

Staða: Hægri skytta

Lið: Barcelona

Hæð: 193 cm

Þyngd: 95 kg

Hann er ýmist kallaður „örvhenta sleggjan“ eða „markavélin“. Ekki amaleg viðurnefni það og þau eiga rétt á sér. Makedóníumaðurinn magnaði hefur verið einn albesti leikmaður heims um árabil og ferilskráin segir allt sem segja þarf: RK Zagreb, Veszprém, Ciudad Real, Atlético Madrid og nú Barcelona. Hann spilar bara með þeim bestu. Lazarov er allt í öllu í leik Makedóníu. Hann skorar alltaf sín 7-10 mörk en lykillinn er að láta hann gera það í sem flestum skotum. En það er ekki auðvelt.

Konstantin Igropulo Rússland

Aldur: 28 ára

Staða: Hægri skytta

Lið: Füchse Berlín

Hæð: 190 cm

Þyngd: 98 kg

Það sást best gegn Íslandi á fjögurra landa mótinu um síðustu helgi hversu mikilvægur hann er Rússum. Án hans verður sóknarleikur liðsins oft óskipulagt hnoð en með hann inn á geta Rússar brotið bestu varnir heims á bak aftur. Frábær skotmaður og einnig lunkinn gegnumbrotsmaður. Hann þarf að vera í stuði ætli Rússar sér langt.

Mikkel Hansen Danmörk

Aldur: 26 ára

Staða: Vinstri skytta

Lið: París SG

Hæð: 192 cm

Þyngd: 93 kg

Daninn með hárbandið er af mörgum talinn besti handboltamaður í heimi. Fyrir utan að vera mögnuð skytta sem getur skorað nánast hvar sem er á vellinum er hann með ótrúlega næmt auga fyrir línuspili og horninu. Hansen er einnig frábær að bera upp boltann í hraðaupphlaupum og oftast mjög traustur á ögurstundu. Algjörlega magnaður leikmaður sem alltaf er gaman að fylgjast með.

Domagoj Duvnjak Króatía

Aldur: 25 ára

Staða: Leikstjórnandi

Lið: HSV Hamburg

Hæð: 187 cm

Þyngd: 99 kg

Króatinn öflugi var nýlega kjörinn besti leikmaður heims og ekki að ástæðulausu. Undir hans stjórn varð Hamburg óvænt Evrópumeistari á síðustu leiktíð svo eitthvað sé nefnt. Hann hefur tekið við króatíska liðinu af Ivano Balic og gert það betra. Duvnjak er leikstjórnandi en getur hæglega spilað sem skytta. Einn albesti leikmaður heims sem getur nánast skorað að vild sé hann í stuði og einnig magnaður sendingamaður.

Filip Jicha Tékkland

Aldur: 31 árs

Staða: Vinstri skytta

Lið: Kiel

Hæð: 201 cm

Þyngd: 105 kg

Ásamt Mikkel Hansen er Tékkinn risavaxni líklega besta vinstri skytta heims. Hann hefur verið lykilmaður í stórliði Kiel undanfarin ár og sankað þar að sér titlum með samherjum sínum. Jicha er óstöðvandi komist hann í stuð og getur hann skotið af ellefu metrum eins og aðrir skjóta af átta metrum, hvort sem er af gólfi eða á flugi. Fínn varnarmaður og furðulega góður í hraðaupphlaupum miðað við stærð. Hann þarf að vera í stuði í Danmörku ætli Tékkar sér að gera eitthvað.

Marko Vujin Serbía

Aldur: 29 ára

Staða: Hægri skytta

Lið: Kiel

Hæð: 200 kg

Þyngd: 100 kg

Hin liðin í A-riðli verða varla með Alfreð Gíslason á jólakortalistanum fyrir að gera Vujin að einni bestu skyttu heims. Hann lék í sex ár með Veszprém í Ungverjalandi áður en hann gekk í raðir Kiel í fyrra þar sem hann fór brösuglega af stað. Á yfirstandandi tímabili hefur hann algjörlega blómstrað og er langmarkahæstur í þýsku 1. deildinni. Serbar eru svo sannarlega með ótrúlega gott skyttupar í Vujin og Momir Ilic, öðrum leikmanni sem Alfreð bjó til. Vujin elskar að skjóta en munurinn á honum núna og í fyrra: Hann skorar meira.

Bartlomiej Jaszka Pólland

Aldur: 30 ára

Staða: Leikstjórnandi

Lið : Füchse Berlín

Hæð: 184 cm

Þyngd: 82 kg

Algjörlega frábær leikstjórnandi sem Dagur Sigurðsson hefur gert að einum af þeim allra bestu í heiminum. Hann er með augu í hnakkanum og getur troðið boltanum inn á línu í gegnum minnstu rifur og þó togað sé í hann. Snillingur með boltann og listamaður í að leggja upp skotfæri fyrir frábærar skyttur pólska liðsins.

Rade Mijatovic Svartfjallaland

Aldur: 32 ára

Staða: Markvörður

Lið: Motor Zaporozhye

Hæð: 192 cm

Þyngd: 98 kg

Frammistaða Mijatovic er ein helsta ástæða þess að Svartfellingar eru mættir á EM. Hann var algjörlega magnaður í undankeppninni og ber einna mesta ábyrgð á þessu ævintýri liðsins. Ekki skærasta stjarnan á mótinu enda lítið um stórstjörnur í svartfellska liðinu. Þessi 32 ára gamli markvörður gæti þó látið vita af sér í Danmörku.

William Accambray Frakkland

Aldur: 25 ára

Staða: Vinstri skytta

Lið: Montpellier

Hæð: 194 cm

Þyngd: 104 kg

Það væri of auðvelt að benda á Karabatic, Omeyer eða Narcisse þegar kemur að Frökkum. Liðið er stútfullt af góðum spilurum og einn til að fylgjast með er Accambray. Hann hefur skorað fimm mörk að meðaltali í leik fyrir Frakka í rúmum 150 landsleikjum sem telst nokkuð gott miðað við að hann byrjar ávallt á bekknum. Leikmaður sem kemur gjarnan inn á ef Frakkar eru undir eða í vandræðum og skorar mörg mörk á fáum mínútum. Þung skytta sem leggst á vörnina og skýtur vel af sjö metrum ef hann er ekki stöðvaður.