Þegar talað er um kynjakvóta er það yfirleitt í því samhengi að einhverjum þyki ástæða til að fjölga konum á einhverju tilteknu sviði þar sem þær hafa verið í minnihluta. Þetta hefur t.d.

Þegar talað er um kynjakvóta er það yfirleitt í því samhengi að einhverjum þyki ástæða til að fjölga konum á einhverju tilteknu sviði þar sem þær hafa verið í minnihluta. Þetta hefur t.d. stundum verið gert á framboðslistum, við einstaka opinberar ráðningar og fyrir nokkrum mánuðum tóku gildi lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og lífeyrissjóða.

Kynjakvóta er líka stundum beitt þegar ljóst er að þrátt fyrir einlægan ásetning kvenna fá þær ekki sömu tækifæri og karlar. Þessi tegund kynjakvóta er í raun og veru afar sjaldan notuð, þó af umræðunni mætti stundum helst ráða annað.

Helstu rök andstæðinga kynjakvóta eru að hann sé niðurlægjandi fyrir konur. Að með því að beita honum sé verið að skapa aðstæður þar sem einn er tekinn fram fyrir annan eingöngu vegna kyns en ekki vegna hæfileika eða annarra verðleika.

Er það eitthvað nýtt?

Kynjakvótar eru nefnilega síður en svo síðari tíma uppfinning, þó að þetta hugtak sé tiltölulega nýtilkomið. Mismunun á grundvelli kyns, körlum í hag, hefur tíðkast í mörg þúsund ár og var lengi vel fest í lög. Þó að fyrir löngu sé búið að afnema öll lög hér á landi sem kveða á um kynbundna mismunun af þessu tagi virðist þessi tegund kynjakvóta enn vera mörgum inngróin og með ólíkindum lífseig á mörgum sviðum samfélagsins.

Sumir hafa kallað þetta karlakvóta.

En burtséð frá því hvaða nafn fólk kýs að velja fyrirbærinu má finna það á ýmsum stöðum. T.d. í íþróttaumfjöllun ljósvakamiðils þar sem í hverjum íþróttafréttatímanum á fætur öðrum er nánast eingöngu fjallað um íþróttir karla, þrátt fyrir að íþróttaiðkun kvenna sé líklega álíka algeng. Það er líka jafnalgengt að íþróttakonur vinni glæsta sigra og íþróttakarlar. En það er bara ekkert fjallað um það, heldur er fjálglega greint frá nýrri hárgreiðslu útlensks knattspyrnukarls í löngu máli og úrslitum gærdagsins og dagsins þar áður í boltaíþrótt karla gerð ítarleg skil.

Reyndar hefur þessi gagnrýni margoft heyrst á ýmsum vettvangi. Svörin eru yfirleitt eitthvað á þá vegu að þetta sé það sem fólk hafi áhuga á að horfa á.

Það er einmitt það.

Undirrituð leyfir sér að efast um að margir hafi áhuga á því að konum og körlum sé mismunað með þessum hætti. Þessari fullyrðingu til stuðnings er bent á nýleg viðbrögð við valinu á íþróttamanni ársins 2013. Þar var frábær íþróttakarl valinn úr hópi tíu frábærra íþróttamanna sem allir hafa náð langt í sínum greinum með því að etja kappi við jafningja sína.

Í hópnum voru átta karlar og tvær konur.

Það skyldi þó aldrei vera vegna áðurnefnds karlakvóta. Eða er einhver önnur skýring á þessum mun?

annalilja@mbl.is

Anna Lilja Þórisdóttir