Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Fyrirtæki og stofnanir eru þegar farin að bregðast við áskorunum ASÍ og Samtaka atvinnulífsins (SA) um að lækka vöruverð eða draga áður boðaðar verðhækkanir til baka.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Fyrirtæki og stofnanir eru þegar farin að bregðast við áskorunum ASÍ og Samtaka atvinnulífsins (SA) um að lækka vöruverð eða draga áður boðaðar verðhækkanir til baka. Bónus mun í dag lækka verð á 600 vörum sem fluttar eru beint inn frá erlendum birgjum. Verðlækkunin er allt að 5%, mismunandi eftir vörum, en að jafnaði 2 til 3%. Með þessu segjast forsvarsmenn Bónuss vera að nýta það svigrúm sem styrking krónunnar hefur gefið að undanförnu til verðlækkunar og treysta á að krónan veikist ekki á næstunni.

Þá mun Hagkaup lækka verð á næstu dögum á um 1.500 vörum um 2,5% að meðaltali.

Emmessís hefur dregið áður boðaða verðhækkun til baka. Fyrirtækið segist með þessu vera að leggja sitt af mörkum til að skapa sátt á vinnumarkaði og stuðla að stöðugleika. Matfugl hyggst frá næsta mánudegi lækka verð á heilum kjúklingum og bringum um 5% undir vörumerkjunum Ali, Móar og Ferskur kjúklingur.

Forseti ASÍ sendi í gær áskorun til 10 fyrirtækja, sem höfðu boðað verðhækkanir, þar sem þau fá nokkurra daga frest til að draga hækkanir til baka. Verslunarmannafélag Suðurlands hvatti í gærkvöldi félagsmenn sína og félaga annarra stéttafélaga til að sniðganga fyrirtæki, sem hafa boðað hækkanir á vöru og þjónustu nú í upphafi árs.

Hækkanir
» Fjölmörg fyrirtæki hafa hækkað verð, eða hyggjast gera það, m.a. Rarik, OR, Pósturinn, Síminn, Tal, Lýsi, Nói-Síríus og Brúnegg.