Sigurður Jónsson
Sigurður Jónsson
Eftir Sigurð Jónsson: "Maður undrast að fréttamenn skuli ekki spyrja af hverju hér á landi sé hitastig á vetrum ekki tilgreint að meðreiknaðri kælingu."

Fjölmiðlar hafa undanfarna daga fjallað mikið um fimbulkulda vestanhafs sem vonlegt er. Fram hefur komið að hinn mikli kuldi sem rætt er um sé að meðtalinni kælingu. Nú vita allir sem dvalið hafa langdvölum í öðrum löndum en Íslandi, en á svipuðum breiddargráðum, að í veðurfréttum þar ytra er jafnan getið um hitastig að meðtalinni kælingu, þ.e.a.s. áhrifum vindhraða og loftraka. Á Íslandi er aldrei minnst á vindkælingu í slíkum fréttaflutningi eða veðurspám nema stundum þegar þess er getið að vindur auki á kulda, en enginn mælikvarði að öðru leyti tilgreindur. Þetta hefur leitt til þess að eftir að netaðgangur varð almennur þá fer fólk inn á www.yr.no eða aðra álíka vefi til að skoða hvernig veður sé í raun og veru, þ.e.a.s. að meðreiknaðri kælingu. Stór hluti fólks, og reyndar fólk á ákveðnum svæðum þar sem veðurfregnir og -spár eru alla jafnan í besta falli ónákvæmar ef ekki beinlínis rangar, tekur þannig því miður ekkert mark á Veðurstofu Íslands og því sem þaðan kemur. Dæmi um slíkt svæði eru sunnanverðir Vestfirðir þar sem veður er oft allt annað en á norðursvæðinu enda þótt um þetta sé rætt sem eitt og sama veðursvæði.

Maður undrast að fréttamenn skuli geta farið með tilvitnaðar fréttir úr vesturheimi án þess að spyrja um leið af hverju hér á landi sé hitastig á vetrum ekki tilgreint að meðreiknaðri kælingu. Fyrir hverja eru eiginlega veðurspár og veðurfréttir? Örugglega ekki fyrir íbúa þessa lands sem eru á ferð úti við og leggja jafnvel í hann, eins og sagt er, á grundvelli ónákvæmra veðurfregna með ófyrirséðum afleiðingum.

Er nú ekki tímabært fyrir veðurfræðinga og fjölmiðla þessa lands að taka sig saman í andlitinu og breyta vinnulagi og útreikningum þannig að nákvæmari og nýtilegri upplýsingar séu gefnar um veður en nú er gert?

Höfundur er framkvæmdastjóri.