[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón G. Stefánsson geðlæknir fæddist í Reykjavík og ólst þar upp í foreldrahúsum. Hann gekk í Laugarnesskóla, lauk stúdentsprófi frá MR 1959 og kandidatsprófi í læknisfræði frá HÍ 1966.

Jón G. Stefánsson geðlæknir fæddist í Reykjavík og ólst þar upp í foreldrahúsum. Hann gekk í Laugarnesskóla, lauk stúdentsprófi frá MR 1959 og kandidatsprófi í læknisfræði frá HÍ 1966.

Jón stundaði ýmis læknisstörf næstu þrjú árin við Landspítalann, Kleppsspítala, slysavarðsstofu Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur og á Hvammstanga. Hann stundaði nám í geðlækningum við Strong Memorial Hospital, University of Rochester, í Rochester, New York 1969-74 og öðlaðist sérfræðingsleyfi í geðlækningum 1975.

Jón var aðstoðarlæknir á Kleppsspítala 1974-76, sérfræðingur á Kleppsspítala og síðan geðdeild Landspítalans 1976-83 og yfirlæknir á geðdeild Landspítalans 1983-2009. Auk þess sinnti hann geðlækningum á eigin læknastofu.

Jón var kennari í geðlækningum við School of Medicine and Dentistry, University of Rochester í Rochester 1969-74, kennslustjóri við læknadeild HÍ 1974-80, lektor í geðlæknisfræði þar 1975-79, dósent 1979-2009 og var formaður kennslunefndar læknadeildar 1981-83. Hann hefur unnið að ýmsum rannsóknum í geðlæknisfræði, flutt erindi um niðurstöður þeirra og ritað um þær í fræðirit.

Jón sat í stjórn Félags læknanema 1963-65, var stúdentaskiptastjóri fyrra árið og formaður félagsins það seinna, sat í stjórn Geðlæknafélags Íslands 1976-80 og var formaður þess 1978-80. Hann sat í samstarfsnefnd norrænu geðlæknafélaganna og var fulltrúi Íslands í stjórn Norrænu samtakanna um kennslu læknanema, sat í starfsmannaráði geðdeildar Landspítalans og var formaður starfsmannaráðs Ríkisspítalana 1986-90. Jón hefur setið í opinberum nefndum varðandi kennslu læknanema, lækningaleyfi og aðbúnað sjúkra og fatlaðra. Hann var formaður Geðverndarfélags Íslands 1990-96.

Jón hefur alla tíð haft ánægju af útiveru og veiðiskap, einkum stangveiði: „Ég hef alltaf farið í veiði á sumrin og hef líklega oftast veitt í Stóru-Laxá í Hreppum, í Hvítá við Iðu og í Gljúfurá í Borgarfirði. Þá hef ég veitt á hverju sumri í Elliðaánum frá því einhvern tíma á áttunda áratugnum. Þær eru afbragðs laxveiðiár.“

Fjölskylda

Jón kvæntist 31.10. 1964 Helgu Hannesdóttur, f. 10.5. 1942, lækni en hún er sérfræðingur bæði í barna- og unglingageðlækningum og geðlækningum fullorðinna. Foreldrar Helgu voru Hannes Valgarður Guðmundsson, f. 25.2. 1900, d. 27.5. 1959, læknir í Reykjavík, og k.h., Valgerður Björg Björnsdóttir, f. 24.5. 1899, d. 27.1. 1974, húsfreyja.

Börn Jóns og Helgu eru Aðalbjörg Jónsdóttir, f. 12.8. 1966, dýralæknir á Akureyri, en maður hennar er Ólafur Sveinsson, myndlistarmaður og kennari, og eru börn þeirra Karólína Rós, f. 1997, Sveinn Áki, f. 2000, og Baldvin Kári, f. 2002; Hannes Valgarður Jónsson, f. 1.6. 1969, viðskiptafræðingur í Växjö í Svíþjóð, var kvæntur Ingrid Ninni Lindsten en þau skildu og eru dætur þeirra Tinna Helga Margaretha, f. 2003, Lilja Alice, f. 2007, og Beatrice Edda, f. 2009; Stefán Hallur Jónsson, f. 25.12. 1970, tannlæknir í Reykjavík, en kona hans er Kristlaug Stella Ingvarsdótir, hjúkrunarfræðingur og talmeinafræðingur, og eru börn þeirra Helga Hlín, f. 1997, Þórunn, f. 2000, og Jón Orri, f. 2002; Valgerður Björg Jónsdóttir, f. 4.5. 1975, innanhússhönnuður í London, en maður hennar er Chris Wieszczycki arkitekt og eru börn þeirra Max, f. 2003, og Nina, f. 2005.

Systkini Jóns eru Sigurjón B. Stefánsson, f. 18.10. 1944, PhD, tauga- og geðlæknir í Reykjavík, og Jóhanna Elín Stefánsdóttir, f. 1.5. 1948, kennari í Hafnarfirði.

Foreldrar Jóns voru Stefán Þorsteinn Sigurjónsson, f. 25.2. 1910, d. 16.1. 1991, skrifstofumaður hjá Tollstjóraembættinu í Reykjavík, og Aðalbjörg Jónsdóttir, f. 28.7. 1912, d. 17.2. 2000, húsfreyja.