Gunnlaugur Eggert Briem fæddist á Sauðárkróki 8. nóvember 1922. Hann lést 1. janúar 2014 á hjúkrunarheimili Hrafnistu í Kópavogi.

Útför Gunnlaugs fór fram frá Bústaðakirkju 9. janúar 2014.

Árið 1983 réðst ég til starfa sem dómarafulltrúi við Sakadóm Reykjavíkur og var Gunnlaugur Briem þá orðinn yfirsakadómari. Þar tókust með okkur góð kynni sem þróuðust í vináttu. Gunnlaugur bjó yfir mikilli reynslu og yfirgripsmikilli þekkingu á sviði refsiréttar og sakamálaréttarfars sem hann miðlaði til mín af kostgæfni. Í Sakadómi áttum við margar góðar stundir saman. Fyrir utan háalvarleg, vinnutengd málefndi bar margt annað á góma í spjalli okkar. Var þá farið um víðan völl á léttum nótum sem er lífsnauðsynlegt í erfiðu starfi. Gunnlaugur var hlédrægur maður og ekki allra, góðum gáfum gæddur, listelskur og víðlesinn. Einkum var myndlist honum hugleikin. Hann var mikill fjölskyldumaður. Eftir að Gunnlaugur lét af störfum árið 1992 héldust samskipti okkar áfram, bæði símleiðis og yfir kaffibolla. Eftir sem áður áttum við margt gott skrafið saman þar sem oft var dátt hlegið. Var það mér sönn ánægja að vera boðið í 90 ára afmæli hans á sl. ári. Ég vil með þessum fátæklegu orðum þakka Gunnlaugi fyrir ánægjulega og gefandi samfylgd til 30 ára. Þá sendum við hjónin Hjördísi, ástkærri eiginkonu hans, börnum þeirra, barnabörnum og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur. Góður maður og gegn er genginn á vit feðra sinna. Blessuð sé minning hans.

Helgi I. Jónsson.