Vinsælar Erlendir ferðamenn sækja ekki síður en Íslendingar í pylsurnar á Bæjarins bestu. Ferðamönnum til landsins fjölgaði um 21% á síðasta ári.
Vinsælar Erlendir ferðamenn sækja ekki síður en Íslendingar í pylsurnar á Bæjarins bestu. Ferðamönnum til landsins fjölgaði um 21% á síðasta ári. — Morgunblaðið/Ómar
„Ekki er ofmælt að ótrúlegt ár sé að baki hvað ferðaþjónustu hér á landi varðar, enda má segja að sú grein hafi heldur betur fært landinu björg í bú á nýliðnu ári,“ segir Greining Íslandsbanka.

„Ekki er ofmælt að ótrúlegt ár sé að baki hvað ferðaþjónustu hér á landi varðar, enda má segja að sú grein hafi heldur betur fært landinu björg í bú á nýliðnu ári,“ segir Greining Íslandsbanka.

Á það er bent í Morgunkorni Greiningar bankans að hagvöxtur síðasta árs, sem mældist 3,1% fyrstu níu mánuðina, hafi að verulegum hluta verið drifinn áfram af stórauknum tekjum í ferðaþjónustu. „Var framlag þjónustuviðskipta við útlönd til hagvaxtar 2% á tímabilinu. Með öðrum orðum lögðu þjónustuviðskiptin til tvo þriðju hluta af þeim vexti sem mældist á fyrstu þremur fjórðungum ársins.“

Gengi krónunnar hefur notið góðs af auknu innstreymi gjaldeyris vegna ferðaþjónustunnar en líkur eru á að hún sé stærsta útflutningsgrein Íslands á liðnu ári. Greining Íslandsbanka segir að það skipti einkum máli að straumur ferðamanna utan háannatíma hefur aukist mikið síðustu tvö ár. „Aukið gjaldeyrisinnflæði vegna þessa mikla vaxtar hefur raunar vegið upp minnkandi gjaldeyristekjur af útflutningi sjávarafurða og áls, og gott betur.“

Rétt eins og fjallað var um í úttekt viðskiptablaðs Morgunblaðsins í gær er árið 2013 langsamlega stærsta ferðamannaár í sögu landsins. Samtals fóru 781 þúsund erlendir ferðamanna frá landinu í gegnum Keflavíkurflugvöll og er um að ræða 21% aukningu frá fyrra ári.

Greining Íslandsbanka segir að þessi vöxtur sé „hreint ótrúlega mikill“, ekki síst þegar haft er í huga að aukningin var gríðarlega mikil tvö árin þar á undan eða 20% árið 2012 og 18% árið 2011. Þetta þýðir því að erlendum ferðamönnum hefur fjölgað um 70% frá árinu 2010 eða sem nemur tæplega 322 þúsund ferðamönnum.