Þrautreyndur Gergely Harsányi er öflugur hornamaður í liði Ungverja og hér reynir hann að fara framhjá Guðjóni Val Sigurðssyni í Novi Sad 2012.
Þrautreyndur Gergely Harsányi er öflugur hornamaður í liði Ungverja og hér reynir hann að fara framhjá Guðjóni Val Sigurðssyni í Novi Sad 2012. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ungverjaland Ívar Benediktsson iben@mbl.is Ungverska landsliðið hefur verið í sókn á síðustu árum undir stjórn Lajos Mocsai. Því hefur þó ekki tekist að vinna til verðlauna á stórmótum og áttunda sætið er besti árangur þess á EM karla.

Ungverjaland

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Ungverska landsliðið hefur verið í sókn á síðustu árum undir stjórn Lajos Mocsai. Því hefur þó ekki tekist að vinna til verðlauna á stórmótum og áttunda sætið er besti árangur þess á EM karla. Kvennalandsliðið vann til verðlaun á EM 2012. Margir vonuðust til að þar með hefði ákveðin braut verið rudd fyrir ungverska handknattleiksmenn. Til þessa hefur svo ekki reynst og ungverska landsliðið olli sumum vonbrigðum á HM karla fyrir ári þegar lagt var af stað með vel spenntan boga eftir að það hafnaði í fjórða sæti í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í London sumarið 2012.

Um áramótin varð ungverska landsliðið fyrir áfalli þegar ljóst varð að helsti kappi liðsins, Lásló Nagy, verður ekki með vegna meiðsla. Það hafði þá legið í loftinu um skeið að svo gæti farið að Nagy yrði ekki með. Hann meiddist illa í kappleik í nóvember með Veszprém og gekk illa að jafna sig.

Byggt í kringum Nagy

Ekki aðeins er skarð Nagy vandfyllt á leikvellinum heldur einnig utan hans. Hann hefur verið talinn helsti leiðtogi þess utan vallar. Nagy og Mocsai þjálfara er helst þakkaður bættur árangur ungverska landsliðsins á síðustu árum. „Hið nýja“ ungverska landslið hefur verið byggt upp í kringum Nagy eftir að hann sneri heim eftir margra ára dvöl á Spáni þar sem hann lék einnig með spænska landsliðinu um skeið eftir að hafa hlotið spænskan ríkisborgararétt. Nagy, sem er af mikilli handknattleiksfjölskyldu, ákvað að snúa heima og taka þátt í að byggja upp landslið föðurlandsins.

Császár í lykilhlutverki

Þótt Nágy sé mikilvægur þá er hann alls ekki eini maðurinn í liðinu. Gábor Császár hefur verið í burðarhlutverki í ungverska landsliðinu í tíu ár. Hann er leikstjórnandi landsliðsins og ræður yfir gríðarlegri reynslu. Császár eins og margir leikmenn landsliðsins leikur með félagsliðinu Veszprém undir stjórn Mocsai landsliðsþjálfara. Í þeirri staðreynd liggur ekki síst styrkur ungverska landsliðsins. Margir leikmenn þess eru saman hjá sama félagsliðinu undir stjórn landsliðsþjálfarans. Hinsvegar getur þessi staða einnig verið slæm ef eitthvað bjátar á í herbúðum félagsliðsins, ef eitthvað hriktir þar, þá hriktir alls staðar.

Mikler öflugur í markinu

Markvörðurinn Roland Mikler vakti mikla athygli á HM á Spáni í fyrra fyrir vasklega framgöngu. Hann tók við hlutverki aðalmarkvarðar eftir að Nandor Fazekas hætti að leika með landsliðinu eftir Ólympíuleikana 2012. Hann var einnig einn af betri leikmönnum landsliðsins í undankeppni EM þar sem Ungverjar voru í riðli með Króötum, Slóvökum og Lettum. Ungverska liðið varð í öðru sæti riðilsins og tryggði sér þar með keppnisrétt í Danmörku.

Ungverjar hafa oft reynst íslenska landsliðinu erfiður andstæðingur á stórmóti. Skemmst er að minnast viðureignar þjóðanna á Ólympíuleikunum í London sumarið 2012. Leikur sem flestir Íslendingar vilja gleyma. Rúmlega hálfu ári áður hafði íslenska landsliðið kjöldregið það ungverska í milliriðlakeppni EM í Serbíu, 27:21.

Íslendingar og Ungverjar hafa fjórum sinnum mæst í lokakeppni EM og hefur hvort landslið unnið tvisvar. Vera kann að viðureign liðanna í Álaborg 14. janúar muni skera úr um hvort þeirra heldur heim að lokinni riðlakeppninni og hvort heldur áfram í milliriðil.