Kristín Ingibjörg Eggertsdóttir fæddist í Vík í Mýrdal 14. júlí 1942. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 30. desember 2013.

Foreldrar hennar voru Eggert Einarsson, f. 29.11. 1906, d. 14.10. 1957, og Hulda Magnúsdóttir, f. 4.10. 1915, d. 6.7. 1997. Kristín var eina barn þeirra hjóna.

Kristín giftist Óskari Magnússyni 21.9. 1968 og eiga þau tvö börn. Fyrir átti Kristín soninn Eggert Skúlason, f. 5.4. 1963. Hann var kvæntur Önnur Þórisdóttur, f. 27.1. 1961. Sonur þeirra er Hafþór, f. 28.12. 1994. Börn Kristínar og Óskars eru: Anna Huld, f. 23.6. 1968 og Magnús, f. 3.8. 1974.

Kristín ólst upp í Vík í Mýrdal og lauk gagnfræðaprófi frá Skógaskóla. Átján ára gömul fluttist hún til Reykjavíkur og vann þar við verslunarstörf og síðar í Samvinnubankanum. Fyrst í stað hélt hún heimili með móður sinni Huldu en eftir að Kristín giftist Óskari stofnuðu þau sitt eigið heimili. Hulda bjó á heimili þeirra til æviloka. Kristín starfaði með manni sínum við framreiðslustörf í Klúbbnum fram til 1980. Á síðari hluta starfsævinnar vann Kristín fyrst hjá Tryggingastofnun ríkisins í lífeyrisdeild, sem síðar varð LSR og frá 2003 til 2012 starfaði Kristín hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga.

Útför Kristínar fer fram frá Árbæjarkirkju í dag, 10. janúar 2014, og hefst athöfnin klukkan 11.

Fyrirhyggja hefur einkennt allar konur í minni móðurætt. Stína frænka var engin undantekning. Hún notað síðari hluta ársins vel til ferðalaga og naut þeirrar skemmtunar sem slíkar ferðir bjóða upp á. Hún var nýkomin heim úr fjölskylduferð frá Boston þegar hún veiktist af lungnabólgu og lenti í öndunarvél, úr henni losnaði hún aftur fáum dögum fyrir jól. Hún dvaldi á sjúkrahúsi yfir jólahátíðina. Þegar við Kristín heimsóttum hana þangað annan dag jóla þá sagði hún okkur frá jólatónleikum sem hún hafði verið á í Garðabæ á meðan hún var í öndunarvélinni. Ég spurði hvernig hefði verið, voðalega gaman en dálítið mikið fyllirí. Varst þú ekki þar, Finnur? Stína var ákveðin í að komast aftur heim í Bröndukvíslina til Óskars og Magga en henni varð ekki að þeirri ósk sinni heldur fór hún heim í Sumarlandið þar sem mamma hennar og pabbi tóku á móti henni.

Stína ólst upp í Vík hjá iðjusömum og elskulegum foreldrum. Við fjölskyldunni blasti lífið með öllum þeim vonum og draumum sem það býður upp á en skyndilega þurftu þær mæðgur Hulda og Stína að bergja á bikarnum beiska þegar elskaður eiginmaður og faðir féll skyndilega frá í blóma lífsins. Þá var Stína 15 ára. Allt breyttist á svipstundu. Það þurfti dugnað og æðruleysi til að takast á við þessar breyttu aðstæður. Þá gáfu þær mæðgur hvor annarri án þess þó að það væri sagt, ævilangt loforð um traust og trúnað sem fólst í því að þær sæju hvor fyrir annarri. Við það var staðið.

Fljótlega eftir að námi lauk flutti Stína til Reykjavíkur og hóf störf í Samvinnubankanum. Þar eignaðist hún margar af sínum bestu vinkonum. Sú gamla sleppti ekki af henni hendinni og flutti á eftir henni þar sem þær hófu búskap saman. Árið 1963 eignaðist Stína sitt fyrsta barn, soninn Eggert sem var alla tíð eftirlæti ömmu sinnar. Sumarið 1970 bjó ég hjá þeim í Meðalholtinu. Þetta sumar var ég að æfa og keppa með KR. Svo mikil var ábyrgðartilfinning þeirra að þær töldu ekki nokkurt vit í því að 15 ára sveitapiltur færi einn í strætó úr Holtunum og vestur á Melavöll til að æfa. Þær skiptust á að fara með mér í strætó og oftast fylgdist sú gamla með æfingunni til enda. Ég á þeim því margt að þakka því þær reyndust mér eins móðir og systir.

Stærsta gæfuspor lífs síns steig Stína þegar hún giftist Óskari Magnússyni framreiðslumanni. Einstökum sómamanni þar sem traustið og umburðarlyndið er í fyrirrúmi. Þegar þau kynntust var Óskar þjónn í Klúbbnum og fór Stína fljótlega að vinna þar með honum. Fyrstu búskaparár sín bjuggu þau Óskar og Stína í Fellsmúlanum og bjó Hulda þar með þeim. Árið 1984 fluttu þau öll í Bröndukvísl 19, þar sem þau hafa svo búið síðan.

Komið er að kveðjustund. Samleið góð, vörðuð mörgum góðum minningum er þökkuð heilshugar. Stínu frænku er sárt saknað því hún skilur eftir sig tómarúm sem er vandfyllt. Þegar spyrja þurfti um liðna tíð úr Víkinni eða ættartengsl, fá fréttir og upplýsingar um ættmenni og vini nær og fjær þá var alltaf hringt í Stínu og oftast voru svörin á reiðum höndum, ef ekki þá var Óskar settur í að draga upp myndina með hjálp Íslendingabókar því allt þurfti að vera nákvæmlega rétt.

Við Kristín sendum Óskari, Eggerti, Önnu Huld, Magnúsi og Hafþóri okkar innilegustu samúðarkveðjur og þökkum kær og dýrmæt kynni.

Finnur og Kristín.

Hún Stína frænka gegndi lykilhlutverki í föðurfjölskyldu okkar. Hún var alltaf með puttann á púlsinum um allt sem gerðist í fjölskyldunni. Stína tók alltaf á móti okkur með mikilli hlýju þegar við komum í heimsókn í Bröndukvíslina. Þar var alltaf gott að koma og jafnvel á meðan hann Bangsi var á lífi en hann er sennilega einn verst uppaldi hundur sögunnar. Stína var mikill gestgjafi og lagði mikið upp úr því að taka vel á móti gestum, hún var alltaf fín og flott til fara. Fyrir okkur eru það jólaboðin á jóladag sem standa upp úr í minningunni. Þar kom fjölskyldan okkar saman, borðaði hangikjöt og uppstúf og spilaði vist. Stína lét ekki sitt eftir liggja og kom ávallt með sítrónufrómas. Eitt sinn gerði Stína þó þau mistök að setja sjö sítrónur í frómasinn í stað einnar sem vakti slík viðbrögð hjá syni hennar Eggerti að hann hefur ekki hætt að tala um það. Eggert hefur haldið því lengi fram að móðir sín hafi verið með þessu að reyna að eitra fyrir sér og í hverju einasta jólaboði eftir þetta þá rifjaði Eggert upp þetta mikla sítrónufrómas-fíaskó, Stínu til mikillar gleði.

Stína gerði líka eina bestu samloku sem hægt var að fá, samloka með skinku og osti sem steikt var upp úr smjöri. Algjört lostæti. Eitt sinn á Víkurbrautinni í Vík vorum við frænkurnar Svala og Hulda með mikið partí, þá ca. 12 ára gamlar. Notaður var gamli plötuspilarinn frá afa og ömmu og lagið „Á skíðum skemmti ég mér“ fékk að óma um allt hús. Ekki leið á löngu þar til Stína kom æðandi inn alls ekki sátt með hávaðann þar sem hún væri með gesti í heimsókn. Eftir þetta atvik voru engar ostasamlokur í boði.

Þegar haldin var veisla eða einhver álíka gleðskapur var Stínu frænku alltaf boðið og hún mætti að sjálfsögðu alltaf. Það þurfti samt alltaf að bjóða Stínu með formlegum hætti og alls ekki í gegnum þriðja aðila. Ef það gleymdist að bjóða henni þá fékkstu að heyra það og þú gleymdir því ekki aftur. Eitt sinn bauð Fanney henni Stínu í barnaafmæli í gegnum facebook. Þó svo að Stína hafi verið með facebook-síðu þá tók hún það ekki í mál að vera boðin með svo óformlegum hætti. Það þurfti því alltaf að vanda til verks þegar Stínu var boðið í veislur eða aðrar uppákomur.

Þeir bræður og feður okkar, Magnús og Finnur, voru ötulir við að stríða frænku sinni og hringdu alla vega einu sinni á dag til að gera at í henni. Þrátt fyrir það voru þeir í miklu uppáhaldi. Stína sá ekki sólina fyrir Finni og það var alveg á hreinu að hann gæti ekki gert neitt rangt. Í sextugsafmæli Magnúsar fyrir nokkrum árum gerðist smávægilegt atvik og þegar fólk fór að ræða um hver bæri ábyrgð á atvikinu voru flestir sammála um að Finnur gerði það, en Stína tók það ekki í mál. Finnur gæti ekki gert neitt þessu líkt og væri það alveg á hreinu að einhver allt annar bæri ábyrgðina.

Það eru margar sögur til af henni Stínu og það var ekkert sem hún gat ekki lent í, eins og að fara til augnlæknis og koma þaðan handleggsbrotin. Hún Stína frænka var umfram allt mjög hjartahlý manneskja sem okkur þótti ótrúlega vænt um og minnumst við hennar með söknuði en jafnframt gleði vegna þess að við fengum að kynnast henni og eiga hana fyrir frænku.

Hvíl í friði, elsku frænka.

Fanney, Hulda, Ingi Þór og Svala.

Það er alltaf erfitt að missa góða vinkonu, en það er einmitt það sem við í saumaklúbbnum okkar erum að upplifa núna er við kveðjum okkar ástkæru vinkonu, Kristínu Eggertsdóttur. Kynni okkar hófust þegar við byrjuðum upp úr 1960 að vinna hver á fætur annarri í Samvinnusparisjóðnum, sem síðar varð Samvinnubankinn. Stína var einbirni, hún missti föður sinn ung og bjó hjá móður sinni, Huldu, sem við kynntumst vel því hún sá um kaffið í bankanum og gat vel fylgst með hvað við vorum að bralla. Samvinnubankinn var góður vinnustaður og við ungar og ólofaðar, unnum saman og skemmtum okkur saman. Þá voru aðalskemmtistaðirnir Glaumbær og Klúbburinn þar sem Stína kynntist svo Óskari sínum, sem þá var þjónn í Klúbbnum. Þau giftust og eignuðust tvö börn, fyrir átti hún einn son. Stína fór líka að vinna í Klúbbnum og fórst henni það vel úr hendi að vinna á þessum flotta skemmtistað sem barþjónn. Stína var ekki margmál kona, það var ekki hennar stíll, en þegar hún hafði orðið var það venjulega um eitthvað sem skipti máli. Hún hélt vel utan um fjölskyldu sína og frændgarðurinn skipti hana miklu máli. Við stofnuðum saumaklúbb sem hefur haldist öll þessi ár og alltaf var gaman að koma í klúbb til Stínu, því til viðbótar krásum á borðum var alvöru þjónn sem þjónaði okkur til borðs. Margs er að minnast frá löngu æviskeiði og margt skemmtilegt höfum við gert saman. Þegar við vorum enn í Samvinnubankanum var árlega farið saman í eina helgarútilegu, síðar voru það makakvöld, sumarbústaðaferðir og utanlandsferðir. Sú síðasta var farin í október síðastliðnum, til Edinborgar. Var mjög ánægjulegt að Stína gat komið með okkur, þótt hún væri ekki frísk. Hún bar veikindi sín með reisn. Hún naut þessarar ferðar vel, keypti jólagjafir á frændsystkinin og fleiri. Já, sannarlega var hún með hugann við jólin og gjafir til sinna. Það er ómetanlegt að geta haldið svona góðum vinskap öll þessi ár og verður Stínu okkar sárt saknað. Óskar og börnin studdu Stínu sem best þau máttu í veikindum hennar. Við vottum þeim og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúð og þökkum Kristínu áratuga vináttu og samfylgd.

Guðrún, Hulda, Ingunn, Kristín, Lilja, Rósa, Steinunn, Þórunn.

Ég á mér draum

um betra líf.

Ég á mér draum

um betri heim.

Þar sem allir eru virtir,

hver á sínum stað,

í sinni stétt og stöðu.

Þar sem allir eru mettir

gæðum sannleikans.

Þar sem allir fá að lifa

í réttlæti og friði.

Þar sem sjúkdómar,

áhyggjur og sorgir

eru ekki til.

Og dauðinn aðeins upphaf

að betri tíð.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Hafðu þökk fyrir samfylgdina, Stína mín, og hvíldu í friði.

Anna

Þórisdóttir.