Keppnisfyrirkomulag Evrópumótsins í Danmörku er það sama og hefur verið á mótunum undanfarin ár. Sextán þjóðum er skipt í fjóra riðla og þeir eru leiknir í Herning, Álaborg, Árósum og Kaupmannahöfn.

Keppnisfyrirkomulag Evrópumótsins í Danmörku er það sama og hefur verið á mótunum undanfarin ár. Sextán þjóðum er skipt í fjóra riðla og þeir eru leiknir í Herning, Álaborg, Árósum og Kaupmannahöfn. Þrjú efstu liðin í hverjum riðli komast áfram í milliriðil en neðsta liðið hefur lokið keppni og heldur heimleiðis. Undanriðlarnir eru spilaðir dagana 12. til 17. janúar.

Liðin þrjú sem fara áfram taka með sér úrslitin úr innbyrðis viðureignum og mæta þremur liðum til viðbótar í milliriðlinum dagana 18. til 22. janúar. Liðin úr A- og B-riðlum fara saman í milliriðil I í Herning og liðin úr C- og D-riðlum fara saman í milliriðil II en hann er spilaður í Árósum.

Stutt ferðalag til Herning

Komist íslenska liðið áfram úr undanriðlinum í Álaborg fer það því í stutt ferðalag suður Jótland, til Herning, og mætir þar þremur liðum úr A-riðli en hann skipa Danmörk, Makedónía, Tékkland og Austurríki.

Þegar milliriðlunum lýkur miðvikudaginn 22. janúar liggur fyrir hvaða fjögur lið komast í undanúrslitin en þangað fara tvö efstu liðin úr hvorum milliriðli. Þau leika sín á milli föstudaginn 24. janúar, en þá leika jafnframt liðin sem enda í þriðja sæti milliriðlanna um fimmta sætið á mótinu.

Sigurliðin í undanúrslitaleikjunum 24. janúar mætast síðan í úrslitaleik í Herning sunnudaginn 26. janúar en á undan spila tapliðin um bronsverðlaunin. vs@mbl.is