Aron Kristjánsson , landsliðsþjálfari í handknattleik karla, dró í gær gluggatjöldin frá og tilkynnti hvaða leikmönnum hann teflir fram á Evrópumótinu í handknattleik karla sem hefst á sunnudaginn með leik Íslendinga og Norðmanna í Álaborg.
Aron Kristjánsson , landsliðsþjálfari í handknattleik karla, dró í gær gluggatjöldin frá og tilkynnti hvaða leikmönnum hann teflir fram á Evrópumótinu í handknattleik karla sem hefst á sunnudaginn með leik Íslendinga og Norðmanna í Álaborg.

Ekkert kom á óvart í vali Arons. Þrír af þeim fjórum sem sitja eftir með sárt ennið hafa verið líklegastir til þess. Sá fjórði, Ólafur Bjarki Ragnarsson, meiddist síðasta sunnudag.

Gunnar Steinn Jónsson, Bjarki Már Gunnarsson og Stefán Rafn Sigurmannsson eru einu leikmenn liðsins sem hafa ekki áður tekið þátt í úrslitakeppni EM. Aðrir þekkja hvað þeir eru að fara út í á næstu dögum.

Afar mikilvægt var að leiðtogi landsliðsins, Guðjón Valur Sigurðsson, gat gefið kost á sér þótt hann leiki e.t.v. ekki með í fyrsta leiknum. Sömu sögu má segja um Arnór Atlason sem alltaf hefur leikið best með landsliðinu á stórmótum.

Íslenska landsliðið kemur til Álaborgar í dag og þá hefst lokasprettur undirbúningsins fyrir leikina þrjá í riðlakeppninni.

Sá sem þessi orð skrifar er kominn til Álaborgar og bíður þess að flautað verði til leiks en þetta er sjötta úrslitakeppni EM sem ég vinn við fyrir Morgunblaðið og mbl.is.

Danir virðast eiga titil að verja á mótinu. Ef marka má sum dönsku dagblaðanna er krafan skýr: gullverðlaun. Ulrik Wilbek, landsliðsþjálfari Dana, er sagður hafa fundað með hverjum og einum leikmanni.. Tilgangurinn var að kanna hver þyldi álagið sem fylgir kröfunni um sigur á EM á heimavelli.