Ísland Hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóðanna haldist óbreytt 2013.
Ísland Hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóðanna haldist óbreytt 2013. — Morgunblaðið/Styrmir
Hrein eign íslensku lífeyrissjóðanna nam 2.650 milljörðum króna í lok nóvembermánaðar og hækkaði um 27 milljarða króna, eða 1%, frá fyrra mánuði. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Seðlabanka Íslands.

Hrein eign íslensku lífeyrissjóðanna nam 2.650 milljörðum króna í lok nóvembermánaðar og hækkaði um 27 milljarða króna, eða 1%, frá fyrra mánuði. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Seðlabanka Íslands. Hlutfall séreignasparnaðar nam tæplega 260 milljörðum króna, eða 10,1% af heildareignum lífeyrissjóðanna.

Á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs hafa eignir sjóðanna hækkað um ríflega 215 milljarða króna. Miðað við áætlaða landsframleiðslu Íslands í árslok 2013 nemur hrein eign íslensku lífeyrissjóðanna um 150% sem hlutfall landsframleiðslu.

Verðmæti erlendra eigna hækkaði um 47 milljarða króna fyrstu ellefu mánuði ársins og nam 610,8 milljörðum króna í lok nóvember. Hlutfall erlendra eigna hefur hins vegar haldist nánast óbreytt, eða um 23% af hreinni eign sjóðanna. Sökum fjármagnshafta hefur vægi erlendra eigna sjóðanna lækkað umtalsvert á liðnum árum en fyrir bankahrun var það í kringum 30%.

Fram kemur í frétt Seðlabankans að innlend verðbréfaeign hafi numið 1.902 milljörðum króna og hækkað um 27,2 milljarða í nóvembermánuði. Þá hækkun má einkum rekja til verðbréfa með föstum tekjum sem hækkuðu um 16 milljarða króna. Erlend verðbréfaeign hækkaði um 8,3 milljarða frá fyrri mánuði og stafaði sú aukning aðallega af verðhækkun erlendra hlutabréfasjóða að andvirði 4,9 milljarða króna.