Jón Bjarni Eyfjörð Stefánsson fæddist í Reykjavík 29. nóvember 1945. Hann lést á líknardeild LSH í Kópavogi 31. desember 2013.

Foreldrar hans voru Stefán Hermann Eyfjörð Jónsson, f. 16. janúar 1921, d. 1. janúar 2008, og Þórey Gísladóttir, f. 17. ágúst 1923, d. 31. október 2013. Systkini Jóns Bjarna eru Elís, f. 29. maí 1950, og Jóna Gísley, f. 29. september 1956.

Jón Bjarni kvæntist Svanborgu Oddsdóttur, f. 12. maí 1948, d. 30. júlí 2013, 15. ágúst 1970. Börn þeirra eru: 1) Oddrún Bylgja, f. 10. ágúst 1967. Börn hennar eru Teitur, f. 5. maí 1989, sonur hans er Ingvi, f. 12. september 2010, og Svanborg, f. 19. október 2004. 2) Stefán Þór, f. 20. júlí 1971, kvæntur Evu Bryndísi Helgadóttur, f. 19. maí 1972. Börn þeirra eru Oddur, f. 14. október 2001, og Ari, f. 1. ágúst 2006. 3) Vignir, f. 5. september 1973, kvæntur Maríu Fjólu Harðardóttur, f. 25. desember 1975. Börn þeirra eru Hörður Óli, f. 15. september 2004, og Patrekur Logi, f. 16. júní 2008.

Eftir uppvaxtarár í Reykjavík fór Jón Bjarni í Samvinnuskólann á Bifröst og lauk þaðan prófi árið 1966. Jón Bjarni og Svanborg fluttu til Eyrarbakka árið 1970. Þar stofnaði Jón Bjarni ásamt tveimur skólabræðrum sínum frá Bifröst útgerðarfélagið Einarshöfn hf., sem gerði út skipið Þorlák helga ÁR11 í u.þ.b. áratug. Síðar vann Jón Bjarni að stofnun Alpan hf. sem rak potta- og pönnuverksmiðju í því húsnæði sem áður hafði verið nýtt undir fiskvinnslu Einarshafnar hf. Eftir að rekstri Einarshafnar var hætt stóð Jón Bjarni að alls kyns rekstri, t.a.m. rak hann Heilsusport á Selfossi en lengst af á því tímabili starfrækti hann söluskálann Ásinn á Eyrarbakka. Síðar rak hann verslunina Snæland á Selfossi auk þess sem hann starfaði sem framkvæmdastjóri Golfklúbbs Selfoss. Jón Bjarni var virkur í margs konar félagsstörfum s.s. fyrir Golfklúbb Selfoss auk þess sem hann sat í hreppsnefnd Eyrarbakka um árabil.

Útför Jóns Bjarna fer fram frá Eyrarbakkakirkju í dag, 10. janúar 2014, og hefst athöfnin klukkan 14.

Aðeins fimm mánuðum eftir að ég skrifaði minningargrein um mömmu skrifa ég um pabba. Á þessari stundu finnst mér lífið ósanngjarnt og grimmt. Pabbi, eins og mamma, var alltof ungur til að deyja. En nú eru það minningarnar sem lifa og það er hlutverk okkar sem eftir erum að halda þeim á lofti. Pabbi var mikill dellukarl, stundaði golf og stangveiði á sumrin en á veturna átti enski boltinn hug hans allan. Hann fylgdist auðvitað mest með sínu liði Chelsea en hann horfði nú á hvað sem er. Hann horfði á allar íþróttir og sérstaklega ef það var sýnt beint en hann gat líka sagt manni út á hvað flestar íþróttir gengu. Við fórum nokkrum sinnum saman í veiðiferðir og fannst honum það hreint ótrúlegt að ég gæti ekki losað fiskinn af önglinum og alls ekki beitt með maðki. Hann tuðaði nú fyrst yfir þessu en svo hristi hann bara hausinn. Tónlist átti líka stóran þátt í lífi hans og studdi hann Teit mikið í hans tónlistarbrölti. Enda gleymist það seint þegar við fórum á Músíktilraunir 2011 þar sem hljómsveit sem Teitur var í tók þátt, mér fannst nú nóg um hávaðann en pabbi sat og hlustaði á allar hljómsveitirnar og fannst þetta æðislegt. Þeir gátu líka talað mikið um tónlist og áttu margt sameiginlegt á því sviði þó að aldursmunurinn væri nokkur ár. Svanborg litla og pabbi voru líka miklir vinir og varði hún afa sinn ef henni fannst amma eitthvað vera að skammast í honum. Oftar en ekki ef hún var í pössun hjá afa þá kúrði hún með honum í sjónvarpssófanum og horfðu þau þá iðulega á teiknimyndir. Eftir erfitt ár árið 2012 þá kom reiðarslagið í júlí 2013 þegar mamma var tekin frá okkur. Það reyndist okkur öllum erfitt en pabba erfiðast og má segja að hann hafi hreinlega gefist upp. Enn og aftur þakka ég fyrir yndislegan tíma á Spáni í sumar þar sem við nutum lífsins og skemmtum okkur. Ég kveð með kvæði eftir ömmu Viggu.

Lokið er kafla í lífsins miklu bók.

Við lútum höfði í bæn á kveðjustund.

Biðjum þann Guð, sem gaf þitt líf og tók

græðandi hendi að milda sorgarstund.

Ó, hve við eigum þér að þakka margt

þegar við reikum liðins tíma slóð.

Í samfylgd þinni allt var blítt og bjart

blessuð hver minning, fögur, ljúf og góð.

Okkur í hug er efst á hverri stund

ást þín til hvers, sem lífsins anda dró

hjálpsemi þín og falslaus fórnarlund.

Friðarins Guð þig sveipi helgri ró.

(Vigdís Runólfsdóttir.)

Ástarkveðja,

þín dóttir,

Oddrún.

Einn af eftirminnilegustu dögum lífs míns er þegar ég og afi fórum að sjá Eric Clapton í Egilshöllinni 2008. Þar sem afa fannst ekki í lagi að ég hefði aldrei prufað hrefnukjöt, þá fórum við á Lauga-ás. Gamall skólafélagi afa var að vinna þarna, hann var að vísu ekki við þegar við komum en kom stuttu seinna, hann hafði verið að elda hádegismat fyrir Clapton. Þetta fannst okkur afa stórmerkilegt. Þessi dagur endaði svo í Egilshöllinni, þeir sem þekkja afa vita eflaust að hann naut sín í botn þarna.

Afi studdi mig af öllu hjarta í öllu sem ég gerði og þá sérstaklega tónlistinni. Hann vildi alltaf fá að vita allt. Hverjir eru að spila með þér? Hvar eruð þið að spila í kvöld? Hvernig gekk að spila í gær? Svona hljómuðu spurningarnar oftast þegar ég fór í mat til afa og ömmu. Við áttum margt sameiginlegt, þá held ég sérstaklega aðdáun okkar á Bítlunum og Zeppelin og bara tónlist yfirhöfuð. Sama hversu oft ég heyrði sögurnar frá Bítlaárunum eða ferðinni hans á Led Zeppelin í höllinni 1970, þá naut ég þess alltaf, bestu sögurnar! Söknuðurinn er svo sannarlega mikill en ég er svo þakklátur fyrir allan þann tíma sem við áttum saman og þá sérstaklega síðustu mánuði eftir að amma var tekin frá okkur svo skyndilega.

Hvíldu í friði, elsku afi minn.

Teitur Magnússon.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Að sitja hér og skrifa minningargrein um kæran bróður svo stuttu eftir andlát eiginkonu hans, en hún varð bráðkvödd 30. júlí sl., og einungis tveimur mánuðum eftir að móðir okkar lést, er ótrúlegt og óskiljanlegt. Stórt skarð hefur myndast í fjölskyldunni og við sem eftir erum getum ekki annað en haldið áfram og haldið í þær góðu minningar, sem við svo sannarlega eigum nóg af um okkar ástkæru ættingja.

Bjarni, eins og við kölluðum hann alltaf, var elstur af okkur systkinunum, stóri bróðir sem við litum upp til. Það átti ekki við hann að vera öðrum háður og starfaði hann því lengstum sjálfstætt við ýmislegt sem viðkom útgerð og verslunarrekstri.

Þau hjónin voru samrýnd og oftar en ekki voru þau nefnd í sömu andránni. Þau ætluðu í upphafi að búa í eitt ár á Eyrarbakka á fyrstu búskaparárunum þegar Systa fékk starf þar sem nýútskrifaður kennari, en árin á Bakkanum urðu nokkuð mikið fleiri og bjuggu þau á Eyrarbakka alla sína tíð.

Börnin þeirra þrjú og fjölskyldur þeirra hafa þurft að reyna mikið síðustu mánuði og hafa sýnt ótrúlegan styrk og dugnað í gegnum þetta allt saman. Þau bera foreldrum sínum gott vitni.

Elsku Oddrún, Stefán, Vignir og fjölskyldur, megið þið öðlast styrk og kraft til að halda áfram og um leið að halda í ánægjulegar minningar um góða foreldra.

Kæri bróðir, við þökkum þér samfylgdina í gegnum lífið. Hvíl í friði, elsku Bjarni.

Jóna og Elís.

Vorið 1966 þegar við Jón Bjarni Stefánsson útskrifuðumst frá Samvinnuskólanum Bifröst, skrifaði hann sjálfur eftirfarandi kveðju til undirritaðs: „Siggi minn, kæri vinur. Þér verður ekki þakkað á einu litlu blaði fyrir allt það sem þú hefur gert hér að Bifröst, bæði til gagns og gamans. Ég vil samt biðja þig að þiggja frá mér þessi fátæklegu þakkarorð, en mundu að það er samt hugurinn sem að baki stendur sem mestu máli skiptir. Megi hendur þínar halda sterklega um stýrishjól framtíðarinnar og augu þín hvíla stöðugt á kompási þeim er vísar veginn eftir torráðnum og krókóttum leiðum hins göfuga lífs.“

Þegar Jón Bjarni ritaði þessa vinarkveðju í EccoHomo Bifrastarfélaga, lá það ekki fyrir að við Jón Bjarni og Guðmundur Bogason ættum sjö árum síðar eftir að axla ábyrgð með kaupum á litlu útgerðar- og fiskverkunarfyrirtæki á Eyrarbakka, sem við nefndum Einarshöfn. Nafni báts útgerðarinnar var ekki breytt að öðru leyti en því að við hófum að skrifa nafn hans með litlu h-ái; Þorlákur helgi ÁR 11. Með því töldum við velvilja biskupsins ástsæla við rekstur skipsins næstum tryggðan. En sá helgi maður hafði m.a. verið þekktur fyrir að búa allt sitt líf á Suðurlandi og blóta aldrei veðrinu.

Afleiðingar síldarhrunsins 1968 þegar ungt fólk flúði unnvörpum land fóru ekki framhjá neinum frekar en hamfarirnar sem þjóðin upplifði 2008. Jarðeldar brunnu í Vestmannaeyjum og þá eins og fyrr og síðar sáu stjórnvöld ekki aðra kosti í stöðunni en að virkja hverja sprænu til að bræða ál. Og sjómenn voru þess vegna illfáanlegir til starfa sem var erfitt viðureignar fyrir nýliða í útgerð.

Við brösóttan rekstur fyrirtækisins á Bakkanum tókst okkur engu að síður að hnika málum til betri vegar, með því að við höfðum eignast öflugra skip, byggt við fiskverkunarhúsið, ásamt því að vélvæða fiskvinnsluna. Með þessum aðgerðum var engu líkara en að framtíðaröryggi fyrirtækisins við krappa siglingu þess í átt til friðarhafnar væri í augsýn og veislan mikla í sjónmáli, með tilkomu rausnarlegra „kvótagjafa“ stjórnvalda til útgerðarmanna.

Þegar stjórnvöld fórnuðu endanlega hagsmunum hinna minni spámanna með lögum um brask með veiðiheimildir, varð okkur félögum á með röngum snúningi „stýrishjóls framtíðarinnar“ að venda í stað þess að halda í horfinu sem hefði mögulega orðið farsælla miðað við heilræði Bjarna fyrr.

Við áttum sem betur fer góða að, ástvini og fjölskyldu sem studdu okkur ævilangt til að halda höfði. Fremstan í þeim hópi jafningja ber að nefna eiginkonu Bjarna, Svanborgu Oddsdóttur, sem reyndist honum án efa ofar öllu í lífi þeirra og starfi. Með skyndilegu fráfalli hennar síðastliðið sumar mun Jóni Bjarna ekki aðeins hafa verið kveðinn dýpsti harmur lífsins, heldur var sem hluti vonarinnar væri brostinn.

Góðu fréttirnar eru að þeim auðnaðist að eignast og koma á legg glæsilegum afkomendahópi; fólkinu sem syrgir þau og móður Bjarna, Þóreyju, sem lést háöldruð fyrr í haust. Við minnumst góðs drengs með hlýhug.

Sigurður R. Þórðarson.