Taxi „Teljist hópferð að taka fjóra í bíl eru leigubílstjórar illa staddir,“ segir Ástgeir Þorsteinsson sem er formaður Frama – félags leigubílstjóra.
Taxi „Teljist hópferð að taka fjóra í bíl eru leigubílstjórar illa staddir,“ segir Ástgeir Þorsteinsson sem er formaður Frama – félags leigubílstjóra. — Morgunblaðið/Þórður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Að óbreyttu rústar þetta greininni. Sérstaklega eru það rýmri heimildir í frumvarpinu, sem felast í nýrri grein sem ber nafnið ferðaþjónustuleyfi.

Fréttaskýring

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Að óbreyttu rústar þetta greininni. Sérstaklega eru það rýmri heimildir í frumvarpinu, sem felast í nýrri grein sem ber nafnið ferðaþjónustuleyfi. Grein þessi er að okkar mati sérsniðin fyrir leiðsögumenn og það erum við leigubílstjórar ósáttir við. Í dag miðast leyfi til hópferðaaksturs við bíla fyrir níu farþega eða fleiri og leigubílar taka farþega upp að þeim fjölda. Teljist hópferð að taka fjóra í bíl eru leigubílstjórar illa staddir,“ segir Ástgeir Þorsteinsson, formaður Frama – félags leigubílstjóra.

Rammi utan um reglur

Mikil óánægja – og raun þétt samstaða – er meðal leigubílstjóra gegn frumvarpi um fólksflutninga sem innanríkisráðuneytið vinnur að. „Með frumvarpinu er lagt til að ein lög gildi um alla fólksflutninga á landi í atvinnuskyni og taki til reksturs leigubifreiða, almenningssamgangna, ferðaþjónustu og hópferða,“ segir í kynningu ráðuneytisins. Þar segir að setja eigi ramma utan um alla fólksflutninga í atvinnuskyni og eigi slík lög að fanga heildstætt þá þróun sem orðið hefur á þessu sviði síðustu ár.

Frumvarpsdrögin voru kynnt á vef innanríkisráðuneytisins í október 2012. Voru um það leyti lögð fram á Alþingi og umsagna óskað en komust aldrei til umræðu. Málið var því lagt til hliðar en hefur nú verið tekið aftur upp.

Í yfirstandandi vinnu segir Ástgeir að drögin að frumvarpinu hafi ekki verið aðgengileg á vefsíðu ráðuneytisins. Leigubílstjórar hafi fyrst um áramótin frétt af því hvað væri í gangi og þá óskað eftir að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og hafi fengið frest til þess fram í næstu viku.

Sitjum ekki við sama borð

Almennt mat leigubílstjóra er, að sögn Ástgeirs, að þeir sitji ekki við sama borð og aðrir við vinnslu þessa máls í ráðuneytinu. Í ráðuneytinu njóti leiðsögumenn og þeirra hagsmunir velvildar en leigubílstjórar ekki. „Það er dapurt að horfa upp á svona vinnubrögð.“

Látið fyrirspurnum rigna

Menn hjá leigubílastöðinni City Taxa ehf. hafa nokkuð látið til sín taka í baráttu gegn umræddu frumvarpi um fólksflutninga. Björgvin Kristinsson, stjórnarformaður stöðvarinnar, kemst svo að orði að þetta sé uppvakningur úr fyrri ríkisstjórn. Hafi bílstjórar staðið í þeirri trú að Ögmundur Jónasson hefði komið málinu út úr heiminum í ráðherratíð sinni. „Virðist sem embættismenn innan ráðuneytisins hafi tekið málið upp að eigin frumkvæði og vísar hver á annan og alltaf svarar nýr og nýr starfsmaður fyrirspurnum okkar, sem við höfum látið rigna yfir ráðuneytið,“ útskýrir Björgvin. Hann segir málið horfa þannig við sér og sínum mönnum að leikið sé tveimur skjöldum. „Opinberlega segist ráðuneytisfólk hafa óskað eftir tillögum frá okkur en í tölvupóstum segist það ekki sjá ástæðu til að ræða við okkur nema kannski um einhver allt önnur mál sem snúa þá helst að leigubifreiðastöðvamálum og öðru sem okkur finnst vera aukaatriði miðað við þessa fjögurra farþega hópferðabíla, sem eru þyrnir í okkar augum.“

Lífeyrir vandi eldri bílstjóra

Ástgeir Þorsteinsson segir að harðnað hafi á dalnum hjá leigubílstjórum með hruninu, rétt eins og öðrum. Færri panti bíla en áður og sé samdrátturinn 25-30%. Þar við bætist að kostnaður sem fylgir útgerð hafi aukist, svo sem verð á bílum, olíu, viðgerðum og svo framvegis.

„Fyrir hrun var nokkuð um að menn hefðu dregið úr almennum leiguakstri og væru í föstum verkefnum fyrir umsvifamikil fyrirtæki, sem svo fóru í þrot. Þá sneru menn aftur í þetta venjulega hark úti á markaðnum þar sem nú er minna að gera. Kakan er minni og þegar fleiri bílstjórar eru um hituna verða sneiðarnar þynnri. Menn hafa ekki viljað hækka startgjaldið og almenna taxtann heldur tekið þetta á sig og frá hruni hafa tekjur okkar dregist saman um 25-30%,“ segir Ástgeir.