[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Keflavík Skúli B. Sigurðsson skulibsig@mbl.is Það var háspenna þegar Keflvíkingar og Stjörnumenn leiddu saman hesta sína í Keflavík. Svo fór að eftir æsispennandi leik sem framlengja þurfti sigruðu heimamenn í Keflavík með þremur stigum, 96:93.

Í Keflavík

Skúli B. Sigurðsson

skulibsig@mbl.is

Það var háspenna þegar Keflvíkingar og Stjörnumenn leiddu saman hesta sína í Keflavík. Svo fór að eftir æsispennandi leik sem framlengja þurfti sigruðu heimamenn í Keflavík með þremur stigum, 96:93.

Fyrir leik voru flestir á því að Keflvíkingar myndu jafnvel rúlla yfir Stjörnumenn líkt og þeir gerðu í fyrri umferðinni. En líklega hefur það verið sú staðreynd sem gerði það að verkum að leikmenn Stjörnurnar mættu gríðarlega vel stemmdir til leiks að þessu sinni. Keflvíkingar virtust enn vera að melta jólasteikina þegar flautað var til leiks og voru seinir í gang.

Guðmundur tryggði framlengingu

Leikurinn var hnífjafn allt fram á síðustu sekúndu. Þegar um 4 sekúndur voru til loka leiks í venjulegum leiktíma höfðu Stjörnumenn þriggja stiga forystu og Keflvíkingar í sókn og áttu í mesta basli með að koma góðu þriggja stiga skoti í loftið til að jafna. Það fór svo að Guðmundur Jónsson náði loksins að koma skoti í loftið með varnarmann Stjörnunnar nánast hangandi í buxnastreng sínum. Boltinn söng í netinu og því þurfti að framlengja. Í framlengingunni áttu einmitt Stjörnumenn möguleika á að leika eftir þetta skot hans Guðmundar en Junior Hairston sem hafði fram að því verið nokkuð heitur í skotum sínum missti marks og sigur Keflvíkinga var í höfn.

Stjörnumenn mega eiga það að þeir gáfust aldrei upp þó svo að vindar hafi blásið á tímum nokkuð hressilega í seglin hjá Keflvíkingum þegar þeir bláklæddu náðu mest 9 stiga forskoti í fjórða leikhluta. 7. Sæti þeirra í deildinni held ég að segi lítið um styrkleika liðsins og þeir eiga eftir að enda ofar en það. Nafn Jóns Kr. Gíslasonar ber jafnan á góma þegar sonur hans Dagur Kár er nefndur á nafn í liði Stjörnunnar en það á líkast til eftir að deyja út því strákurinn virðist vera á góðri leið með að skapa sér sjálfur nafn í boltanum. Hann tekur miklum framförum og er að ná ágætis tökum á leik sínum.

Áttum að vinna

Keflvíkingar spiluðu ekki vel og það kannski sýnir styrk þeirra að getað klárað slíka leiki. Heilladísirnar frægu voru þó á þeirra bandi þegar Guðmundur setur niður umrætt skot og jafnar leikinn. Michael Craion átti slakan dag og það munar um minna þegar einn besti leikmaður deildarinnar skilar ekki sínu. Hinsvegar eru góðu fréttirnar þær að Darrel Lewis mætti sterkur til leiks og skilaði 26 stigum fyrir þá Keflvíkinga. „Mér fannst við hafa verið betri í þessum leik og áttum að vinna þetta,“ sagði Dagur Kár Jónsson eftir leikinn. „Gummi bjargaði okkur algerlega í þessum leik en þetta var hörkubarátta hjá tveimur góðum liðum. En við hefðum átt að gera betur,“ sagði Gunnar Ólafsson, leikmaður Keflvíkinga, eftir leik.

Keflavík – Stjarnan 96:93

TM-höllin, úrvalsdeild karla, Dominos-deildin, fimmtudag 9. janúar.

Gangur leiksins : 8:3, 11:9, 13:16, 18:23 , 25:28, 29:28, 32:33, 39:36 , 44:44, 54:51, 59:61, 63:63 , 71:68, 78:70, 79:72, 85:85 , 88:88, 96:93 .

Keflavík: Darrel Keith Lewis 26/6 fráköst, Guðmundur Jónsson 20/8 fráköst, Gunnar Ólafsson 19/5 fráköst, Valur Orri Valsson 10/4 fráköst, Michael Craion 10/14 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir/4 varin skot, Þröstur Leó Jóhannsson 6/5 fráköst, Hafliði Már Brynjarsson 3, Arnar Freyr Jónsson 2/6 fráköst/10 stoðsendingar.

Fráköst: 34 í vörn, 14 í sókn.

Stjarnan: Matthew James Hairston 28/11 fráköst/5 stoðsendingar/6 varin skot, Dagur Kár Jónsson 19/10 fráköst/6 stoðsendingar, Marvin Valdimarsson 16/7 fráköst, Justin Shouse 10/5 fráköst, Jón Sverrisson 9/10 fráköst, Björn Steinar Brynjólfsson 6, Fannar Freyr Helgason 5/8 fráköst.

Fráköst: 34 í vörn, 18 í sókn.

Dómarar: Björgvin Rúnarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Leifur S. Garðarsson.