[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2012 Ívar Benediktsson iben@mbl.is Evrópumótið í handknattleik karla var síðast haldið í Serbíu. Það var í fyrsta skipti sem Serbar voru gestgjafar stórmóts í handknattleik eftir að þeir urðu sjálfstæð þjóð.

EM 2012

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Evrópumótið í handknattleik karla var síðast haldið í Serbíu. Það var í fyrsta skipti sem Serbar voru gestgjafar stórmóts í handknattleik eftir að þeir urðu sjálfstæð þjóð. Óhætt er að segja að þeim hafi tekist vel upp. Síðar sama ár voru þeir gestgjafar Evrópumóts kvenna og í síðasta mánuði var heimsmeistaramót kvenna haldið í landinu.

Danir urðu Evrópumeistarar í annað sinn eftir að þeir lögðu Serba í úrslitaleik að viðstöddum nærri 20 þúsund áhorfendum í Belgrad. Framan af móti var danska liðið ekki sannfærandi en það vann sig hægt og bítandi inn í keppnina og verðskuldaði sigurinn þegar upp var staðið. Serbar fögnuðu sínum fyrstu verðlaunum á stórmóti einir og óstuddir. Króatar fengu bronsið. Þeir töpuðu fyrir erkifjendum sínum frá Serbíu í undanúrslitum. Króatar lögðu Spánverja í leiknum um bronsið.

Framan af móti þótti spænska landsliðið sigurstranglegt. Þeir unnu fjóra leiki og gerðu eitt jafntefli í fyrstu fimm leikjum sínum. Þeir töpuðu fyrir Dönum í undanúrslitum og misstu þar með móðinn og töpuðu aftur fyrir Króötum í leiknum um þriðja sætið.

Margir á sjúkralista

Íslenska landsliðið hafnaði í 10. sæti. Það vann tvo leiki, gerði eitt jafntefli og tapaði þrisvar sinnum.

Eins og stundum áður í undanfara stórmóta þá var nokkuð um meiðsli í herbúðum íslenska landsliðsins. Varnarjaxlinn Ingimundur Ingimundarson æfði lítið með liðinu í undanfara mótsins vegna meiðsla í nára. Alexander Petersson var meiddur í öxl, og er reyndar enn, og Arnór Atlason var meiddur auk þess sem Guðjón Valur Sigurðsson fékk högg á hálsinn í undirbúningsleik í Danmörku skömmu fyrir EM. Þá veiktist Björgvin Páll Gústavsson við komuna til Serbíu. Allir voru þeir hinsvegar með þegar á hólminn var komið og stóðu fyrir sínu.

Ólafur Stefánsson og Snorri Steinn Guðjónsson gáfu ekki kost á sér en sem kunnugt er höfðu þeir lengi myndað kjölfestu landsliðsins ásamt fleiri leikmönnum.

Án Snorra og Ólafs renndu menn blint í sjóinn. Með Alexander meiddan en samt með og án Ólafs var ljóst að sóknarleikurinn yrði erfiðari en ella.

Góð byrjun en tap

Íslenska landsliðið sýndi hinsvegar góðan leik strax í byrjun. Það mætti Króötum og hafði yfirhöndina lengi vel leiksins. Eins og stundum áður þá voru Króatarnir seigir og á síðustu fimm til tíu mínútum leiksins komust þeir fram úr og unnu tveggja marka sigur, 31:29. Leikmenn íslenska landsliðsins voru vonsviknir í leikslok. Enn einu sinni sannaðist að ekki væri nóg að vera betri aðillinn í leikjum fyrstu 55 mínúturnar.

„Ég er hálfsorgmæddur yfir þessum úrslitum því það er langt síðan ég hef séð íslenska liðið leika jafn vel heilan leik og það gerði að þessu sinni gegn firnasterku liði Króata,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari.

Fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson tók í svipaðan streng við Morgunblaðið: „Í ljósi þess að við vorum betri í leiknum þá eru það gríðarleg vonbrigði að hafa ekki unnið.“

Ljóst var að næsti leikur við Norðmenn yrði lykilleikur ætlaði íslenska liðið sér áfram í milliriðlakeppni mótsins. Ólíkt leiknum við Króata þá átti íslenska landsliðið undir högg að sækja lengst af og var þremur mörkum undir, 30:27, þegar tíu mínútur voru eftir. Lokakaflinn var hinsvegar góður og síðustu tíu mínúturnar unnust, 7:2 og leikurinn þar með, 34:32.

Vignir Svavarsson skoraði 33. markið í leiknum úr hraðaupphlaupi 40 sekúndum fyrir leikslok eftir að íslenska liðið hafði unnið boltann af því norska eftir mikinn barning á undan þar sem tvær sóknir höfðu farið forgörðum hjá báðum liðum í stöðunni 32:32. Róbert innsiglaði sigurinn fáeinum sekúndum fyrir leikslok eftir að Björgvin hafði varið af línunni frá Bjarte Myrhol.

„Ég átti ekki von á svona leik af okkar hálfu.Við vissum að þetta yrði erfitt en svona mikið basl og svona erfitt, það hafði ég ekki ímyndað mér. Ætli Króatarnir hafi ekki smitað okkur á mánudagskvöldið,“ sagði Róbert sem átti frábæran leik og skoraði níu mörk í jafnmörgum skotum auk þess að fiska nokkur vítaköst.

Skrautlegt gegn Slóvenum

Síðasti leikurinn í riðlakeppninni var við Slóvena. Sannast sagna þá voru Slóvenar yfir allan leikinn og um tíma stefndi í slæmt tap. Lokasprettur leiksins var skrautlegur þar sem leikmenn slóvenska liðsins lögðu árar í bát og leyfðu íslenska liðinu að minnka muninn niður í tvö mörk með því að kasta boltanum frá sér og gefa Íslendingunum upplögð marktækifæri.

Ástæðan fyrir undarlegri hegðun Slóvena á lokasprettinum var sú að ef þeir hefðu unnið Íslendinga með of miklum mun þá hefði íslenska liðið setið eftir og farið heim og Slóvenar haldi áfram í milliriðil án stiga en Norðmenn farið áfram með tvö stig. Tveggja marka sigur Slóvena á Íslendingum þýddi að Slóvenar og Íslendingar héldu áfram keppni en Norðmenn sátu eftir með sárt ennið.

Íslenska landsliðið slapp þar með áfram í milliriðil án stiga ásamt Slóvenum með tvö og Króötum með fjögur stig.

Strax að leiknum loknum boðaði Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari breytingar á liðinu áður en það tæki til við að spila í milliriðli.

Breytingin var sú að Rúnar Kárason kom inn í 16 manna hópinn í stað Odds Gretarssonar og Hreiðar Levý Guðmundsson pakkaði niður og hélt heim. Í hans stað var Aron Rafn Eðvarðsson kallaður út til Serbíu. Markvarslan var slök í riðlakeppninni og Guðmundi þótti ástæða til þess að hleypa fersku blóði að.

Rúnari var ætlað að leysa Alexander af sem var slæmur í öxl og lék ekkert með það sem eftir var móts þótt hann væri á leikskýrslu og sæti á varamannabekknum í þremur síðustu leikjum.

Íslenska landsliðið færði sig um set frá Vrsac til Novi Sad í milliriðlakeppnina. Fyrsti leikurinn var við Ungverja. Það var besti leikur íslenska landsliðsins í keppninni ásamt lokaleiknum við Frakka.

Íslenska landsliðið réð lögum og lofum í leiknum við Ungverja í Novi Sad. Varnarleikurinn var frábær og Björgvin Páll fór á kostum í markinu.

Fyrstir til að vinna Ungverja

„Þessi sigur var frábær, ekki síður sóknarlega en varnarlega. Við ákváðum að velja úr okkar sóknarbúri ákveðnar leikaðferðir sem við lékum mjög mikið allan leikinn. Strákarnir gerðu það frábærlega og eiga heiður skilinn,“ sagði Guðmundur landsliðsþjálfari eftir sigurinn. Þetta var fyrsti tapleikur Ungverja á mótinu en þeir höfðu lagt Frakka og Rússa og gert jafntefli við Spánverja og þóttu líklegir til afreka.

Þegar þarna var komið sögu voru eymsli og þreyta farin að segja verulega til sín í íslenska hópnum. Arnór Atlason fékk slæma byltu í viðureigninni við Ungverja og var ekki á bætandi hjá honum sem fyrir var lamasessi en harkaði af sér. Aron Pálmarsson gat ekki leikið af fullum styrk og Alexander kom ekkert við sögu eins og áður segir. Fleiri voru lemstraðir.

Eins og leikurinn við Ungverja var góður þá var næsti leikur mótsins, við Spánverja, slakur. Íslenska liðið gerði 17 tæknileg mistök og átti aldrei möguleika gegn ógnarsterku liðið Spánar, sem eins og fyrr segir, þótti lengi vel sigurstranglegt. Lokatölur, 31:26, sem var vel sloppið því oft var munurinn meiri.

„Mánudagur“ í Frökkum

Lokaleikur íslenska liðsins í mótinu var við Frakka sem náðu sér aldrei á strik í mótinu. Það var eins og þrefaldir meistarar Frakka hefðu takmarkaðan metnað fyrir mótinu og litu á það sem upphitun fyrir handknattleikskeppni Ólympíuleikanna síðar á árinu.

Það var eins „mánudagur“ væri í leikmönnum franska landsliðsins í leiknum, sagði í frásögn Morgunblaðsins frá leiknum sem lauk með jafntefli, 29:29. Þar með lauk þátttöku íslenska landsliðsins á EM í Serbíu á nokkuð jákvæðum nótum. Það var erfitt en lærdómsríkt og nokkrir ungir leikmenn fengu sína eldskírn, s.s. nafnarnir Ólafur Guðmundsson og Ólafur Bjarki Ragnarsson, Aron Rafn Eðvarðsson og Rúnar Kárason.

„Sem atvinnumaður í handknattleik vil ég vinna alla leiki sem ég fer í, hvort sem það er með félagsliði mínu eða landsliðinu. Það tekst því miður ekki alltaf en velta má því fyrir sér hvort við höfum nokkuð slagkraft til að ná miklu lengra um þessar mundir,“ sagði Guðjón Valur fyrirliði í leikslok og hitti naglann á höfuðið.