Dagný Ösp Runólfsdóttir fæddist á Selfossi 20. janúar 1992. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans Fossvogi 30. desember 2013.

Dagný Ösp var dóttir hjónanna Guðrúnar Hönnu Guðmundsdóttur bókhaldsfulltrúa, f. 1960, og Runólfs Þórs Jónssonar smiðs, f. 1958. Móðuramma Dagnýjar er Valgerður Magnúsdóttir símavörður, f. 1941, og móðurafi er Guðmundur Kristinn Jónsson smiður, f. 1937. Föðuramma Dagnýjar er Una Runólfsdóttir húsmóðir, f. 1928, og föðurafar eru Jón Friðrik Friðriksson, f. 1929, d. 1959, og Kristján Hólm Jónsson sérleyfishafi, f. 1922. Systkini Dagnýjar eru Hrefna Lind Heimisdóttir ritstjóri, f. 1975, maki Friðjón Þórðarson fjárfestir, f. 1977. Una Ósk Runólfsdóttir umönnunarstarfsmaður, f. 1978, maki Haukur Benedikt Runólfsson rafvirki, f. 1980. Kristinn Hólm Runólfsson smiður, f. 1983, maki Berglind Kvaran Ævarsdóttir þjónustufulltrúi, f. 1979. Thelma Rún Runólfsdóttir umönnunarstarfsmaður, f. 1989, maki Þráinn Ómar Jónsson mjólkurfræðingur, f. 1982.

Dagný Ösp var nemi við lyfjafræðideild Háskóla Íslands þegar hún lést. Hún lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut við Menntaskólann á Laugarvatni vorið 2012. Með námi vann Dagný ýmis störf, meðal annars hjá Heilsustofnun NLFÍ, Hverabakaríi, N1 og Hótel Örk. Þar að auki þjálfaði hún ungmenni í körfubolta. Alla tíð lagði Dagný mikla áherslu á gildi fjölskyldu og vina og var metnaðarfull í leik og starfi.

Útför Dagnýjar Aspar fer fram í Hveragerðiskirkju í dag, 10. janúar 2014, og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku hjartans Dagný okkar.

Ég get varla lifað lengur

minn söknuður sár svo er

því sérhver hjartans strengur

tengd‘ okkur saman hér.

Þú ert eilífur happafengur

og ávallt þá vissu ég ber

er andinn yfir mig gengur

þá bíðir þú eftir mér.

(RÞJ)

Frá fyrsta degi bræddir þú alla í kringum þig með fallega brosinu og einlæga augnaráðinu. Þú vildir allt fyrir alla gera og elskaðir að hafa vini og fjölskyldu í kringum þig. Mikið eigum við öll eftir að sakna þess að heyra ekki smitandi hlátur þinn og litlu „yndin“, eins og þú kallaðir systkinabörnin þín, eiga eftir að sakna þess að hitta ekki Dagnýju sína.

Við upplifðum ótrúlegt kraftaverk þegar þú komst heil út úr alvarlegum veikindum sex ára gömul og töluðum alltaf um að þín biði mikilvægt verkefni sem við efumst ekki um að þú ljúkir á öðrum stað. Þú varst að hefja nýjan kafla á lífsleiðinni, nýbyrjuð í háskóla og varst að flytja inn í þína fyrstu íbúð og sagðir oft við mig „mikið verður kósý hjá okkur, mamma mín, þegar þú verður veðurteppt í Reykjavík og gistir hjá mér“. Allt sem þú hefur tekið þér fyrir hendur ber vott um þinn innri mann sem var svo bjartur og tær að það snerti alla sem áttu samleið með þér. Við getum ekki með orðum lýst hversu stolt við erum af þér – þú varst og verður ávallt einstök.

Elsku, hjartans engilinn okkar, við vitum að þú tekur á móti okkur með bros á vör á nýja heimilinu þegar að því kemur. Sú vissa gerir okkur kleift að halda áfram og mikið verður kósý þegar við komum og gistum hjá þér.

Mamma og pabbi.

Mín undurfagra systir hefur kvatt okkur öll langt fyrir aldur fram.

Ó, elsku Dagný Ösp, hve sárt það er að missa þig, hvað lífið getur verið ósanngjarnt. Mér finnst ég hafa misst af svo miklu, að hafa ekki fengið að kynnast þér nánar og að samverustundir okkar hafi ekki verið fleiri. En þeim góðu minningum sem ég á mun ég ávallt hlúa vel að í hjarta mínu. Þú varst yndisleg í alla staði og börnum mínum góð frænka.

Við áttum það sameiginlegt, elsku systir, að vera miður hárprúðar til þriggja ára aldurs (og var mikið hlegið að því seinna meir) en loks birtust ljósu englalokkarnir þínir liðaðir og fínir. Einnig man ég þegar þú varst lítil, þá varstu oft klædd í fallega prinsessukjóla enda sönn prinsessa, en þó pínu prakkari líka.

Fallegasti eiginleiki þinn var einlægnin og væntumþykjan sem þú umvafðir alla sem voru þér kærir. Fjölskyldan var þér allt. Þú varst fögur að innan sem utan með gullhjarta, vildir allt fyrir alla gera, lýstir upp öll herbergi af hlátri, gleði, ástúð og galsa.

Það var mér huggun í þessum mikla harmi, þegar bekkjarsystkini þín frá Laugarvatni komu saman og rifjuðu upp sögur af þér, hve mikið gott og fallegt þau höfðu um þig að segja hlýjaði mér um hjartarætur. Þú varst vinmörg og af mörgum dáð. Við sem eftir sitjum og syrgjum þig getum mikið af þér lært. Þessi missir mun kenna mér að meta þann tíma sem okkur er gefinn hér á jörðu og þær stundir sem ég á með mínum nánustu. Elska þig alltaf.

Vertu ekki grátinn við gröfina mína

góði, ég sef ekki þar.

Ég er í leikandi ljúfum vindum,

ég leiftra sem snjórinn á tindum.

Ég er haustsins regn sem fellur á fold

og fræið í hlýrri mold.

Í morgunsins kyrrð er vakna þú vilt,

ég er vængjatak fuglanna hljótt og stillt.

Ég er árblik dags um óttubil

og alstirndur himinn að nóttu til.

Gráttu ekki við gröfina hér –

gáðu – ég dó ei – ég lifi í þér.

(Þýð. Ásgerður Ingimarsdóttir.)

(Höf. ókunnur.)

Þín systir,

Una Ósk.

Elsku Dagný mín, hjartahreina gullið mitt. Þú áttir þér svo sannarlega engan þinn líka, geislaðir alltaf af þvílíkri hamingju og góðsemd. Aldrei man ég eftir þér öðruvísi en glaðri þrátt fyrir þrálátt ólán sem virtist oft elta þig á röndum. Alltaf brostir þú og slóst á létta strengi, svo einstakt var lífsviðhorf þitt. Þó að erfitt sé að hugsa sér framhaldið núna mun ég ávallt minnast þín með bros á vör því ef það er eitthvað sem lýsir þér, elskan mín, þá er það bros. Minning þín mun alltaf lifa, þú ert og verður alltaf í hjarta mínu.

Þinn bróðir,

Kristinn Hólm (Diddi).

Ég gleymi aldrei því augnabliki er ég leit Dagnýju Ösp augum í fyrsta sinn. Stórum björtum augum horfði hún leitandi, opinmynnt og einlæg á mig. Fljótlega fékk ég að passa hana og eru mér sérstaklega hugleikin þau skipti þegar ég var að svæfa engilinn. Þá hélt ég henni í fangi mér með pelann að vopni. Dagný horfði undantekningarlaust beint í augu mín þar til svefninn loks sigraði. Ég var þá sextán ára, hún tíu mánaða en þarna áttaði ég mig fyrst á því að Dagný bjó yfir einhverju sem ég hafði ekki. Mér þótti þetta fölskvalausa augnaráð einstakt og fallegt og þráði þennan hreinleika sem hún bjó yfir. Í framhaldi snerust þessar stundir upp í nokkurskonar störukeppni þar sem ég varð harðákveðin í að nema og tileinka mér þennan eftirsótta eiginleika. Það þarf vart að nefna að ég lét undantekningarlaust í minni pokann. Þennan undurfagra eiginleika átti litla systir mín og þannig horfði hún á mig sem og aðra lífið á enda. Hún leit aldrei undan heldur horfði hrein og bein djúpt í augu hvers og eins og bliknaði aldrei. Dillandi hláturinn, glensið og fróðleiksfýsnin var ávallt handan við hornið og þannig var það á öllum stigum lífs hennar.

Litla systir mín kunni að njóta lífsins, var opin fyrir nýjum hugsunum og hafði einstaklega gott lag á fólki. Hún var ævintýragjörn, mikill atorkubolti og einstakur gleðigjafi.

Aldrei minnist ég lognmollu í kringum Dagnýju og alls staðar var eftir henni tekið. Með óbeislaðri útgeislun og einlægu brosi var hún með eindæmum fljót að finna sér stað í hjörtum okkar og að eignast góða vini – enda átti hún þá ófáa. Hún var næm á umhverfi sitt og gerði kröfu til þess að fólk bæri virðingu og kæmi vel fram hvað við annað. Aldrei tók hún málstað með eða á móti þegar upp komu ágreiningsmál hvort sem var innan fjölskyldunnar eða í vinahópi og hugsaði ávallt í lausnum. Hún talaði máli þeirra sem minna máttu sín og kom á sáttum.

Mannsævina er hægt að mæla á margan hátt. Sumir staldra stutt við en afreka meira en þeir sem eiga sér lengri ævi. Dagný Ösp var ein af þeim. Þó að hún hafi staldrað allt of stutt við hér reisti hún sér mætan minnisvarða með því að festa rætur í huga okkar sem vorum svo lánsöm að kynnast hreinlyndi hennar, alúð, kímni og krafti.

Ég hafði sérstakt dálæti á að eiga rökræður og spjall við Dagnýju og mikið á ég eftir að sakna þess að deila með henni lífssýn. Sýn hennar og nálgun lausna var ekki alltaf hefðbundin, en ávallt skemmtileg og til þess fallin að vekja aðdáun og forvitni. Forvitnin leiddi hana svo oft til nýrra og skemmtilegra ævintýra. Ævintýra sem ekki var alltaf ljóst hvert stefndu. Í enn eitt skiptið hefur hún haldið á vit þeirra en í þetta sinn get ég ekki fylgt henni eftir – í bili. Ég er þess þó fullviss að með fölskvalausu brosi, dillandi hlátri og björtum augum eigi hún opnum örmum eftir að taka á móti mér. Þangað til geymi ég með mér minninguna um litla engilinn sem bjó yfir þessum einstaka og undurfagra eiginleika sem ég mun um ókomna tíð reyna að tileinka mér.

Þín systir,

Hrefna Lind.

Þegar við kveðjum Dagnýju okkar fyllist hugurinn þakklæti fyrir yndislega stúlku sem auðgaði líf okkar með lífsgleði sinni og lífsviðhorfum.

Allt eins og blómstrið eina

upp vex á sléttri grund

fagurt með frjóvgun hreina

fyrst um dags morgunstund,

á snöggu augabragði

af skorið verður fljótt,

lit og blöð niður lagði,

líf mannlegt endar skjótt.

(Hallgrímur Pétursson)

Minningarnar geymum við í hjörtum okkar þar til við hittumst á ný. Vertu Guði falin, ljúfan okkar.

Amma Valgerður

og afi Guðmundur.

Elsku Dagný. Það er þyngra en tárum taki að hugsa til þess að þú sért farin frá okkur, alltof, alltof snemma.

Að hugsa til þess að þú komir aldrei til okkar í mat, að við fáum okkur aldrei aftur sushi saman, að þú eigir aldrei eftir að kíkja til okkar bara til að segja: „hæ“, að við eigum aldrei eftir að fara saman í Crossfit eða spjalla um hvað „wodið í dag er geggjað!“ Og að þú eigir aldrei eftir að knúsa frænkur þínar, sem elskuðu þig eins og allir sem voru svo heppnir að fá að kynnast þér. Alltaf þegar við fjölskyldan plönuðum einhverja góða stund gerðum við ráð fyrir að þú tækir þátt í henni með okkur, það var svo gaman að hafa þig með. Þið Thelma Rún voruð ekki bara systur, heldur líka einstakar vinkonur og þitt skarð verður ekki fyllt.

Ég er endalaust þakklátur fyrir þann tíma sem ég fékk að hafa þig í mínu lífi, því jákvæðari, lífsglaðari og góðhjartaðri manneskja er vandfundin. Brosið þitt, hláturinn og ótrúlegt æðruleysi lýsti allt upp hvar sem þú komst og það var ekki hægt að vera í vondu skapi þegar þú varst nálægt.

Sorgin og söknuðurinn er mikill, en allar góðu minningarnar um þig og allar myndirnar af þér skælbrosandi munu ylja okkur að eilífu og frænkur þínar Thelma Nótt, Rakel Dalía og Hekla Maren eiga eftir að fá að heyra af þér margar sögur og vita hversu yndisleg þú varst.

Ég sakna þín svo mikið Dagný og ég á aldrei eftir að gleyma þér.

Þinn „mágsi“ og vinur,

Þráinn Ómar Jónsson.

Elsku Dagný mín, þetta eru erfiðir tímar sem fjölskyldan er að ganga í gegnum. Þetta er eitthvað svo óraunverulegt milli þess sem veruleikinn hellist yfir mann. Það er sárt að hugsa til þess að við eigum aldrei eftir að sjá þig aftur, þessi stóru björtu augu, fallega bros og heyra þennan smitandi hlátur.

Það er búið að vera heiður að fá að fylgjast með þér þessi tæplega níu ár sem ég og bróðir þinn erum búin að vera saman, sjá þig vaxa úr litlu unglingstrippi yfir í stórglæsilega unga konu. Þú varst alltaf svo góð við krakkana okkar, alltaf tilbúin að skutlast með þau á æfingar, sækja í leikskólann, fara með á körfuboltaleiki eða hjálpa til á allan þann hátt sem þú gast. Takk fyrir allar skemmtilegu minningarnar sem við eigum um þig, þín verður svo sárt saknað. Þrátt fyrir þá miklu sorg sem hefur ríkt innan fjölskyldunnar og í þessu litla samfélagi sem við búum í þá er dásamlegt að sjá hvað þú hefur snert mörg hjörtu á þessu rúmlega tuttugu og eina ári sem þú lifðir. Ég vona að fjölskyldan, vinir þínir og allir þeir sem fengu að kynnast þér finni styrk á þessum gríðarlega erfiðu tímum. Minning þín verður ljós í lífi okkar.

Berglind mágkona.

Af öllum þeim sterku og góðu lýsingarorðum sem koma upp í hugann þegar ég hugsa um Dagnýju þá er sérkennilegt að orðin sniðug og klók séu þar fremst. En þegar ég lít til baka og hugsa um samband okkar sannfærist ég enn frekar um að þau séu best til þess fallin að lýsa Dagnýju.

Það var ólýsanlegt þegar ég kynntist móðurfjölskyldu eiginkonu minnar fyrst, því samheldnari fjölskyldu hafði ég og hef aldrei eftirleiðis kynnst. Í öllum þeim ófáu Hvergerðingaboðum sem ég fór í þegar ég var að kynnast hennar samheldnu fjölskyldu var ávallt gott að vita til að 24 ára gamli nýi fjölskyldumeðlimurinn var búinn að eignast fyrsta leikfélagann í á annan áratug, hana Dagnýju, þá níu ára gamla. Á milli þess sem ég lagði mig hvað mest fram við að ganga í augun á Hvergerðingunum var alltaf hægt að treysta á Dagnýju í einhvern almennan fíflaskap til að brjóta ísinn. Hvort sem um var að ræða grín, kitl, leikfimikeppnir eða gamnislag þá mætti maður henni alltaf brosandi út að eyrum svo miklu meira en til í slaginn. Svo sniðug var hún að vera alltaf einhvern veginn akkúrat það sem á þurfti að halda á hverjum tímapunkti. Með árunum æstust leikar enn frekar og þá reyndi enn meir á klókindi Dagnýjar þar sem fimmtán ár skildu okkur að. Í öllum tilvikum stóð ég frammi fyrir skælbrosandi, þreyttri og sveittri fimmtán árum yngri stelpu sem ávallt átti síðasta orðið: „HAHA! Náði þér þarna.“ Takk fyrir að taka mér opnum örmum og allar okkar frábæru samverustundir og síðast en ekki síst að vera alltaf akkúrat það sem ég þurfti á að halda – að vera ávallt þú.

Friðjón Þórðarson.

Við vorum hluti af þeim stóra hóp sem var svo heppinn að hafa fengið að kynnast þessari ljúfu, brosmildu og lífsglöðu stelpu sem var tekin frá okkur allt of snemma. Leiðir okkar lágu saman í Menntaskólanum að Laugarvatni og voru stundir okkar þar margar, skemmtilegar og oft á tíðum mjög skrautlegar. Margar af bestu minningunum þaðan voru stundir sem við áttum með henni. Á þeim árum sem við dvöldum saman á Laugarvatni mynduðum við sterk vináttubönd sem héldust þó svo að þau verkefni sem við tókum okkur fyrir hendur eftir útskrift væru ólík.

Dagný var alltaf brosandi og hvert sem hún kom smitaði hún alla með hlátrinum sínum og fallega brosinu. Það var ekki annað hægt en að líða vel í návist hennar því svo mikil var lífsgleðin sem fylgdi henni. Hún vildi öllum vel og var alltaf tilbúin til þess að hjálpa þeim sem þurftu. Alltaf var hægt að leita til hennar með hin ýmsu vandamál, sama hversu stór eða smá þau voru, hún var alltaf til staðar. Hún gerði það sem gladdi hana og var umvafin fólki sem henni þótti vænt um.

Við munum sakna Dagnýjar mikið en vitum að hún mun alltaf fylgjast með okkur, vaka yfir okkur og hlæja að hrakförum okkar. Við erum þakklátar fyrir þær stundir sem við fengum að njóta með þessari einstöku stelpu sem skilur eftir sig stóran hóp af ættingjum og vinum sem elska hana og mun minning hennar lifa í hjörtum okkar um ókomna framtíð. Við vottum fjölskyldu hennar og ástvinum okkar dýpstu samúð.

Dalla, Sigrún og Jóhanna.

Ég tel að hverjum og einum sé skipaður ferðafélagi í gegnum lífið. Einhver sem hjálpar manni í gegnum erfiðleika, gleðst með manni á góðum tímum og hlær að manni þegar maður dettur, auðvitað eftir að hafa hjálpað manni aftur á fætur. Þú varst minn ferðafélagi. Við vorum óaðskiljanlegar.

Ég gæti skrifað heila bók um minningarnar mínar um þig. Flestar innihalda þær hlátur. Við hlupum bara yfir götuna á náttfötunum og þar fundum við hamingju hvor hjáannarri. Við fórum í gegnum allt saman. Við unnum saman, við fórum í skóla saman og við hlógum saman. Það skipti ekki máli hvar við vorum og í hvaða aðstæðum, við gátum alltaf fundið það jákvæða við það. Ég minnist þess þegar við vorum nýbyrjaðar í háskólanum og vorum í einum af okkar fyrstu fyrirlestrum í hátíðarsal í Háskólabíói. Það voru ekki liðnar tíu mínútur áður en þú þurftir að hlaupa út í hláturskasti og ég rétt á eftir. Rétt eins og í öllum dæmatímunum en í þeim var ekki séns fyrir okkur að halda aftur af okkur. Miðvikudagsgalsinn eins og við kölluðum hann, mætti á svæðið og við höfðum ekki einbeitingu út af hlátri í tvo klukkutíma.

Það var alltaf gleði í kringum þig og ég veit að þannig verður það alltaf. Í rauninni varstu fararstjórinn minn í gegnum lífið því að þegar ég var að gefast upp á einhverju þá léstu mig halda áfram, það var ekki í myndinni að hætta og gefast upp. Þegar við vorum að læra fyrir lokaprófin í desember þá vorum við búnar að vera allan daginn að læra. Vorum einar með húsið og einbeitingin var kannski ekki alveg ennþá til staðar. Í einhvern tíma höfðum við ekki verið búnar að gera neitt og svo sérð þú að foreldrar þínir eru komnir heim. Þá segirðu: „Edda fljót. Þykjumst vera að gera eitthvað.“ Ég, í flýti, opna glósur og þú byrjar að reikna. Við redduðum okkur fyrir horn enda höfðu allir tröllatrú á okkur, búnar að læra saman eins og brjálæðingar en raunin var að helmingur tímans fór í spjall og hlátur. Niðurstaðan var sú að við féllum báðar á þessum tveim lokaprófum.

Þegar svona gerist þá skilur maður að allt annað skiptir svo litlu máli miðað við að eiga æðislega vini og frábæra fjölskyldu. Að falla á prófi skiptir engu máli, maður fær annað tækifæri og að gera mistök, maður lagar þau en þig fæ ég ekki til baka. Við sem ætluðum að vera saman að skapa óróa á elliheimilinu og gera grín að sjálfum okkur í ellinni. En lífið er svo sannarlega ósanngjarnt.

Ég veit að þú varst send til mín þegar þú bankaðir uppá þann 11. september 2004 til að leiða mig í gegnum ferðalag lífsins. Þrátt fyrir að þú sért farin, trúi ég því að þú verðir alltaf við hliðina á mér til að leiða mig í gegnum lífsins dýrðardóm. Þú skrifaðir á jólapakkann minn að við yrðum saman vinkonurnar að minnsta kosti næstu 70 árin og ég veit að þú munt standa við það. Þú ert og verður alltaf í hjarta mínu því að þú varst löngu búin að sigra það, elsku besta vinkona. Guð gat bara ekki beðið lengur eftir að fá þig. Núna er gleði á himnum.

Þín uppáhaldsvinkona,

Edda Sigrún.

Hún yndislega Dagný er dáin. Dagný var svo mikill gleðigjafi. Dagný var stelpa sem allir vildu eiga, svo skemmtileg, jákvæð og lífsglöð. Hennar skarð verður ekki fyllt. Mér fannst mikill heiður að fá að útbúa meðlæti í útskriftarveisluna hennar vorið 2012. Hún elskaði góðan mat – svona fullorðins. Dagnýju fannst mikið til saumaklúbbsins hennar mömmu sinnar koma. Það er oft hlegið dátt í klúbbunum og mikið talað. Dagný sagðist sko ætla að eignast svona skemmtilegan saumaklúbb.

Ég hitti Dagnýju rétt fyrir jól og hún var svo sæl, búin að fá íbúð á Stúdentagörðum og viss kaflaskil í lífi ungrar konu. En skjótt skipast veður í lofti og eftir sitjum við og spyrjum „af hverju?“

Elsku vinum mínum, Guðrúnu Hönnu, Runna, börnum þeirra og fjölskyldu votta ég mína dýpstu samúð.

Klara.

„Hæ, ég heiti Dagný. Er Edda Sigrún heima?“ Þetta voru fyrstu kynni okkar af Dagnýju Ösp þegar hún bankaði hjá okkur hinn 11. september 2004, daginn sem við fluttum í Bjarkarheiðina. Það gladdi okkur að stelpa á svipuðum aldri og dóttir okkar skyldi búa við sömu götu. Þetta var upphafið að sannri og fallegri vináttu þeirra Dagnýjar Aspar og Eddu Sigrúnar. Þær urðu mjög samrýndar og voru eins og bestu systur. Þær léku sér saman, djömmuðu, hlupu hvor til annarrar á náttfötunum, hlógu endalaust saman, tóku þátt í gleði og sorg hvor annarrar og í haust fóru þær saman í háskólann. Fyrir prófin lærðu þær saman og leikur grunur á að sá tími hafi verið notaður í eitthvað allt annað en lærdóm.

Það er með mikilli sorg í hjarta að í dag kveðjum við Dagnýju Ösp hinstu kveðju. Glæsileiki hennar, lífsgleði og bjartsýni er okkur ofarlega í huga. Dagný var falleg ung kona, alltaf með bros á vör og átti framtíðina fyrir sér. Hún var yndisleg manneskja og hafði góða nærveru. Við söknum hennar og þess að heyra ekki smitandi hláturinn og þær vinkonur í hláturskasti yfir einhverju fyndnu eða jafnvel ekki fyndnu. Við söknum þess að hafa ekki getað faðmað hana á nýársnótt eins og alltaf og við söknum þess að finna ekki hárspennur á borðum og bekkjum eftir heimsókn hennar.

En okkur er líka í huga þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast svo góðri manneskju. Okkur fannst við eiga svolítið í henni. Við erum sannfærð um að allir þeir sem fengu tækifæri til að kynnast Dagnýju geta verið sammála um að heimurinn er fátækari án hennar.

Hugur okkar er hjá fjölskyldu Dagnýjar. Elsku Guðrún Hanna, Runólfur og fjölskylda. Megi góður Guð veita ykkur styrk í sorginni. Minningin um Dagnýju Ösp lifir.

Aðalheiður og

Guðmundur Þór (Alla og Gummi).

Elsku Dagný mín. Það er engin leið að útskýra það með orðum hversu erfitt það er að þurfa að kveðja þig. Þú varst tekin frá okkur alltof ung, en eins og máltækið segir, þá deyja þeir ungir sem guðirnir elska. Ég var þó svo heppin að hafa kynnst þér snemma og á því margar skemmtilegar minningar um þig sem ég mun aldrei gleyma. Þegar þú komst á fyrstu fimleikaæfinguna á Selfossi smullum við strax saman og vorum óaðskiljanlegar eftir það. Þú gerðir hverja einustu æfingu skemmtilega og vorum við mestallan tíman hlæjandi hvor að annarri. Þó að vináttan hafi byrjað í fimleikunum, þá hélt hún áfram að styrkjast og verða betri eftir að við hættum að æfa.

Annað sem stendur uppúr eru öll sushi-deitin, rúntarnir og körfuboltamótið eftirminnilega. Við vorum sushi-unnendur og það fór ekki framhjá neinum. Í flest þau skipti sem það var kósýkvöld vorum við með sushi, ef við nenntum ekki á Selfoss, þá bjuggum við það bara til. Þegar ég skráði okkur á körfuboltamót hjá FM957 í hálfgerðu gríni varstu frekar efins, en þetta endaði á því að vera eitt af því skemmtilegra sem við höfum gert saman. Við vorum ekki mjög sigurstranglegt lið miðað við alla körfuboltastrákana sem voru mættir, en allt kom fyrir ekki og lentum við í 2. sæti og komum klárlega hvað mest á óvart.

Við höfum gert svo margt saman og það sem einkennir allar samverustundir okkar er mikil gleði og hlátur. Við vorum alltaf hlæjandi og með mikinn einkahúmor sem engir aðrir skildu. Hláturinn þinn er einmitt eitt af því sem ég mun aldrei gleyma, en hann var svo smitandi og skemmtilegur að maður gat ekki annað en hlegið með þér. Eitt af því frábæra við þig var að þú hafðir alltaf trú á manni og hvattir mann áfram í hverju sem maður tók sér fyrir hendur. Þú náðir alltaf að sannfæra mann um að gera eitthvað sem maður hefði ekki annars þorað að gera.

Elsku Dagný mín, takk fyrir allar yndislegu stundirnar sem við áttum saman.

Ég er ótrúlega þakklát fyrir öll árin sem við höfum verið vinkonur og ég gæti ekki hugsað mér betri vinkonu en þig. Allar minningarnar frá þessum tíu árum sem ég hef þekkt þig eru ógleymanlegar og það verðmætasta sem ég á. Þó að ég þurfi að kveðja þig, þá veit ég að þú verður alltaf með mér. Núna ert þú umvafin ljósi og friði og ég veit að þú ert á góðum stað.

Alltaf var yndislegt brosið þitt bjarta,

bræddi það sérhverja sál sem það sá.

Fegurðin þín og þitt fallega hjarta,

fullkomnun slíkri mun aldrei neinn ná

Nístandi frostið nú nóttu þér færir,

núna er veturinn kominn til þín.

Vini og fjölskyldu fráfall þitt særir,

farin ert þangað sem sól alltaf skín

Myndirnar líflegar minningar geyma,

minning þín lifir með okkur nú.

Ein er sú Ösp sem ég aldrei mun gleyma,

Öspin sem aldrei visnar ert þú.

(Steinar Sigurjónsson)

Guð verndi og styðji fjölskyldu þína og ættingja á þessum erfiðu tímum.

Þín vinkona,

Rakel Guðmundsdóttir

Elsku Dagný Ösp, það er svo ólýsanlega sárt að hugsa til þess að maður fái ekki annað faðmlag eða annað bros frá þér, elsku, hjartans frænka okkar. Á svona stundu eru minningarnar og allar fallegu myndirnar af þér dýrmætari en orð fá lýst. Þú varst svo einstök á allan hátt, brosið þitt, hláturinn, nærveran, lífssýnin og ljóminn. Þú hafðir skoðanir á flestu og stóðst fast á þeim ef þér fannst brotið á rétti einhvers. Þú máttir aldrei vita af neinum sem átti bágt, allir voru jafnir í þínum augum.

Minningarnar eru margar en við áttum svo margar góðar stundir með þér þegar þú komst um tíma aðra hverja helgi í Víðigerði til að leika við Ívar. Hann var þá sex og þú ellefu ára. Þó það væru fimm ár á milli ykkar skipti það engu máli, alltaf lékuð þið ykkur eins og jafnaldrar. Frændræknari manneskju er erfitt að finna, enda fannst þér ekki leiðinlegt að kynna okkur Birki fyrir öðrum, þetta er frændi minn og þetta er frænka mín og þau eru hjón. Þegar þú sást að fólk var ekki alveg að átta sig á þessum flóknu tengslum glottir þú út í annað og skelltir svo upp úr áður en þú útskýrðir betur þessa flækju, að við værum systradætur og að Birkir væri bróðir pabba þíns. Þú sagðist líka alltaf eiga extra mikið í Hafdísi Unu og Jóel Bjarka þar sem þau væru svo mikið skyld þér. Hafdísi Unu leiddist það nú ekki þar sem hún virðist ætla að erfa frændræknina frá þér.

Það var svo gott að hitta þig í Svíþjóð í sumar. Þú varst svo glöð og ánægð með ferðina og sást mest eftir því að hafa ekki ákveðið að vera lengur. Þú varst svo spennt þegar ég bað þig að sýna mér það sem þú værir búin að kaupa þér. Þegar þú opnaðir pokana byrjaðir þú að tína fram allt sem þú hafðir keypt á stelpurnar hennar Thelmu Rúnar. Það lýsti þér svo vel, að gleðja aðra var þér svo mikilvægt. Þú áttir svo ótrúlega mikið í öllum frændsystkinum þínum og varst svo óendanlega stolt af þeim.

Af lifandi gleði var lund þín hlaðin,

svo loftið í kringum þig hló,

en þegar síðast á banabeði

brosið á vörum þér dó,

þá sóttu skuggar að sálu minni

og sviptu hana gleði og ró.

En seinna skildi ég: Hér áttirðu ekki

að eiga langa töf.

Frá drottni allsherjar ómaði kallið

yfir hin miklu höf:

Hann þurfti bros þín sem birtugjafa

bak við dauða og gröf.

(Grétar Ó. Fells)

Við munum öll sem eitt halda minningu þinni á lofti með skemmtilegum sögum af yndislegri manneskju. Guð verið með þér, elsku Dagný Ösp okkar.

Valgý Arna, Birkir,

Ívar, Hafdís Una og

Jóel Bjarki.

Þakklæti er mér efst í huga þegar ég kveð elsku frænku mína og vinkonu í hinsta sinn. Þakklæti fyrir að hafa kynnst þessari einstöku manneskju og hafa notið dásamlegra samverustunda með henni. Dagný hafði góða nærveru og það var gaman að umgangast hana. Dagný var ávallt glöð og brosmild og útgeislun hennar lýsti upp umhverfið, hvert sem hún fór. Hún var afar góðhjörtuð og hafði einstaka hæfileika til að sjá það góða og jákvæða í einstaklingnum. Fyrir henni voru allir jafnir og áttu skilið virðingu og fallegt viðmót. Dagný var jafnframt mjög hjálpsöm og vildi allt fyrir alla gera. Ef eitthvað bjátaði á, hvort sem var hjá fólki eða dýrum, var hún fljót að rétta fram hjálparhönd.

Minningar mínar um Dagnýju eru margar og dýrmætar. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar við, ásamt Thelmu og Regínu, stofnuðum dýraspítala í kofanum sem systurnar áttu. Það var nefnilega draumur Dagnýjar sem barn að verða dýralæknir, allt þar til hún uppgötvaði að dýralæknar svæfa stundum dýr. Það gat góðhjartaða og saklausa sálin ekki hugsað sér að gera. En á dýraspítalanum var nóg að gera. Daglega gengum við um nágrennið í leit að slösuðum dýrum sem við fluttum á spítalann. Ýmist voru það ormar í tvennu lagi sem þurfti að líma saman, flugur sem þurftu aðstoð við að læra að fljúga eða dauðir fuglar sem þurfti að endurlífga með hnoði og öndun í gegnum rör. Allt var þetta gert af heilum hug og í fullri trú um að bæta heilsu vesalings dýranna. Allar fallegu minningarnar sem ég á um Dagnýju munu fylgja mér um ókomna tíð og ylja mér um hjartarætur. Fráfall Dagnýjar er mikill missir. Hún var gersemi. Sannkallaður engill á jörðu sem fyllti hjörtu fjölskyldu og vina af gleði á degi hverjum. Með því að vera jákvæð og þolinmóð, sýna kærleik og hjálpsemi getum við, líkt og Dagný, lagt okkar af mörkum til að gera heiminn að betri stað. Hvíli hún í friði.

Harpa Björgvinsdóttir.

Nú ríkir kyrrð í djúpum dal,

þótt duni foss í gljúfrasal,

í hreiðrum fuglar hvíla rótt,

þeir hafa boðið góða nótt.

Nú saman leggja blómin blöð,

er breiddu faðm mót sólu glöð,

í brekkum fjalla hvíla hljótt,

þau hafa boðið góða nótt.

Nú hverfur sól við segulskaut

og signir geisli hæð og laut,

en aftanskinið hverfur fljótt,

það hefur boðið góða nótt.

(Magnús Gíslason)

Elsku Guðrún Hanna, Runni, Hrefna Lind, Una Ósk, Diddi, Thelma Rún og aðrir ástvinir, hugur okkar er hjá ykkur.

Halla, Helga Björg, Ragúel, Ragnheiður

og Jakob.

Erfitt er að kveðja þig, elsku Dagný Ösp, enda varst þú yndisleg manneskja. Við söknum vinkonu okkar gífurlega mikið og erum þakklátar fyrir að hafa þekkt þig og þau ævintýri sem við lentum saman í. Minning þín lifir í hjörtum okkar að eilífu og munum við ávallt hafa þig í huga þegar hlátur og gleði eru nærri.

Ásdís Erla kynntist Dagnýju Ösp í grunnskóla og var hún alveg einstök. Hún var með svo jákvæða orku, alltaf síkát og brosandi. Það sem einkenndi hana mest var þetta risastóra bros sem hún bar með sér hvert sem hún fór og fylgdi þessi rosalega smitandi hlátur með, það var nánast ómögulegt að hlæja ekki með henni. Það var svo endalaust gaman að vera með henni Dagnýju. Hún var oft í leit að ævintýrum og var alls ekki lengi að draga mann með og sannfæra mann um það að þar sem hún væri að fara, þar gerðust ævintýrin og í kjölfarið sköpuðust ómetanlegar minningar. Ég vil þakka þér, elsku Dagný, fyrir allt sem þú færðir mér og gerðir með mér. Ein af fyndustu minningunum okkar var í afmæli hjá Brynju okkar 2012, þar sem við lentum í þvílíku rifrildi og vaknaði ég daginn eftir með þvílíkt samviskubit en mundi ekkert af hverju við höfðum verið að rífast svona heiftarlega (var nú ekki merkilegra en það hvað klukkan gengi). Svo hringdirðu í mig seinna þann dag og varst þá líka að pæla í því. Við enduðum á að hlæja svo mikið að þessu. Og er þetta bara lítið brot af öllum þeim minningum sem ég mun eiga að eilífu.

Brynja kynntist Dagnýju Ösp sumarið 2007 þegar við unnum saman í Eden og varst þú vingjarnleg og skemmtileg. Síðan urðum við enn betri vinkonur við upphaf framhaldsskólagöngu en þá áttum við orðið sameiginlegar vinkonur og fylgdu í kjölfarið margar góðar stundir. Á ég einungis góðar minningar um þig og gæti ekki ímyndað mér neitt slæmt. Það var alltaf gaman að hitta þig og þó að við hefðum ekki hist í háa herrans tíð var alltaf eins og við hefðum sést fyrir stuttu, þú varst svo hlý með einstaklega góða nærveru og heilsaðir með brosi, faðmlagi og kossum. Uppáhaldsminning mín um þig er frá stjórnarskiptaballinu í ML árið 2010 þar sem ég kom að heimsækja þig og nöfnu þína Dagnýju Valdimars. Ég átti uppáhaldslagið okkar á þeim tíma á geisladisk í bílnum mínum og fórum við tvær saman til þess að hlusta á það og var að sjálfsögðu gaman að því, en það sem er enn skemmtilegra er að þú varst í glimmerkjól og glimmerið var ansi duglegt að detta af honum og endaði bíllinn á því að vera allur út í glimmeri. Var það mjög lengi að fara úr bílnum (sem er þó hið besta mál, hvernig er ekki hægt að elska glimmer?) og leynist enn glimmer sem ég vona svo sannarlega að verði ávallt í bílnum.

Kæra vina, ég sakna þín,

ég vildi að þú kæmist aftur til mín.

En þú ert umvafin ljósi þar,

eins og þú varst reyndar alls staðar.

Sárt er að horfa á eftir þér,

en ég veit að þú munt muna eftir mér.

Því þitt hreina hjarta og bjarta sál,

munu þerra okkar trega tár.

(Sigríður Vigdís Þórðardóttir.)

Margrét Brynja

Guðmundsdóttir, Ásdís

Erla Þorsteinsdóttir.

Í byrjun nýs árs kveðjum við hana Dagnýju okkar. Við urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að þekkja hana frá fæðingu og fylgjast með lífshlaupi hennar. Hún var ekki gömul þegar hún fór að koma í heimsókn og fylgja afa sínum og ömmu með okkur í sumarbústaðaferðir. Þar lék hún við Egil og síðar tók hún Arnóri og Söru opnum örmum. Hún var aðeins átta ára gömul þegar við fluttum til Svíþjóðar og hún heimsótti okkur öll fjögur sumrin okkar þar. Dagný dreifði ávallt gleði og jákvæðni og ávann sér virðingu þeirra sem hún átti samleið með. Hún eignaðist marga vini á stuttri ævi og tókst iðulega að laða það besta fram í fólki. Síðasta sumar heimsótti hún okkur að nýju til Svíþjóðar og þá upplifðum við aftur hversu notalegt var að hafa hana hjá okkur. Hún passaði jafnframt upp á það að deila tíma sínum með öllum ættingjum sínum ytra og var yfir sig ánægð að fá að taka þátt í skírn litlu frænku sinnar. Það var jafnframt ljóst að litlu frændsystkinin heima á Íslandi áttu hug hennar í búðarferðunum. Það var sérstaklega gaman að gera eitthvað fyrir hana Dagnýju enda fékk maður alltaf svo innilegt þakklæti að launum og svo var hún alltaf að gera eitthvað fyrir okkur á móti. Allar þessar minningar ylja okkur nú á vetrarnóttu.

Núna byrjar líf okkar án Dagnýjar sem verður fátæklegra en að sama skapi erum við rík af minningum um hennar stórkostlegu eiginleika. Við þökkum fyrir allar stundirnar með Dagnýju og foreldrum hennar fyrir að gefa okkur tækifæri til að vera þátttakendur í lífi hennar.

Þau ljós sem skærast lýsa,

þau ljós sem skína glaðast

þau bera mesta birtu

en brenna líka hraðast

og fyrr en okkur uggir

fer um þau harður bylur

er dauðans dómur fellur

og dóm þann enginn skilur.

En skinið loga skæra

sem skamma stund oss gladdi

það kveikti ást og yndi

með öllum sem það kvaddi.

Þótt burt úr heimi hörðum

nú hverfi ljósið bjarta

þá situr eftir ylur

í okkar mædda hjarta.

(Friðrik Guðni Þórleifsson.)

Harpa, Atli, Egill,

Arnór og Sara.

HINSTA KVEÐJA
Ó, sofðu, blessað barnið frítt,
þú blundar vært og rótt.
Þig vængir engla vefja blítt
og vindar anda hljótt.
Af hjarta syngja hjarðmenn þér
til heiðurs vögguljóð sem tér:
Sofðu rótt, sofðu rótt, vært og rótt, sofðu rótt.
(Þýð. Þorgils Hlynur
Þorbergsson)

Takk fyrir allar góðu stundirnar, elsku Dagný Ösp okkar. Hvíl í friði.

Amma Una og afi Kristján.