Úr Hallgrímskirkjuturni Formaður SFR vill jafnstöðu við laun hjá VR.
Úr Hallgrímskirkjuturni Formaður SFR vill jafnstöðu við laun hjá VR. — Morgunblaðið/Ómar
Haft var eftir Árna Stefáni Jónssyni, formanni SFR stéttarfélags, í Morgunblaðinu í gær að félagið færi fram á að laun opinberra starfsmanna og á almennum markaði yrðu jöfnuð í skrefum og er m.a. horft til launamunar SFR og VR.

Haft var eftir Árna Stefáni Jónssyni, formanni SFR stéttarfélags, í Morgunblaðinu í gær að félagið færi fram á að laun opinberra starfsmanna og á almennum markaði yrðu jöfnuð í skrefum og er m.a. horft til launamunar SFR og VR.

Aðspurð um þennan mun vísar Guðrún H. Sveinsdóttir, verkefnisstjóri kjarasviðs hjá SFR, til gagna á vef stéttarfélagsins. Segir þar að launakönnun Capacent Gallup 2013 bendi til að meðallaun félagsmanna í VR hafi verið 507.000 krónur 2013 en á bilinu 372-377.000 hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkur og SFR.

„Þarna munar um 130 þúsundum á mánuði. Félagsmenn VR eru því með 35%-36% hærri laun en félagsmenn SFR og Starfsmannafélags Reykjavíkur fyrir fullt starf, segir á vef SFR sem í eru um 5.500 félagsmenn. Má af samanburðinum við VR ráða að farið verði fram á verulegar launahækkanir á næstu árum, til að brúa umrætt launabil.

Á vef SFR segir einnig að félagsmenn VR séu með tæplega 18% hærri heildarlaun en félagsmenn SFR að teknu tilliti til mismunandi samsetningar hópanna. „Þá er tekið tillit til vinnutíma, kyns, aldurs, starfsaldurs, yfirflokka starfsstétta, menntunar og vaktaálags.

Þetta er sami munur og fyrir ári. Karlar í VR eru með 15% hærri heildarlaun en karlar í SFR og konur í VR eru með 19% hærri laun en konur innan SFR að teknu tilliti til vinnutíma, aldurs, starfsaldurs, yfirflokka starfsstétta, menntunar og vaktaálags,“ segir á vef SFR og er tekið fram að hlutfall háskólamenntaðra sé um 35% hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkur og VR en 10% hjá SFR.